Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:15:47 (6710)

2002-03-26 14:15:47# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sá sjónarhóll sem hæstv. utanrrh. hefur valið sér til þess að horfa yfir utanríkismálin, sjálfbær þróun, þykir mér fremur þekkilegur. En ég ætla samt að nota þann tíma sem ég hef hér til þess að ræða annað mál sem er jarðbundnara og kannski nær því sem við erum að tala um frá degi til dags, þ.e. Evrópusambandið og sjávarútveg.

Herra forseti. Kannski er það vegna þess að það er almennt viðurkennt að ef til aðildar Íslands kæmi eða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands kæmi þá gætu sjávarútvegsmálin ráðið úrslitum um hver niðurstaðan yrði. Samningsmarkmið og niðurstaðan um þau ræður því afskaplega miklu um afstöðu Íslendinga til Evrópusambandsins. Alla vega héldum við það þar til nú nýverið að við getum farið að efast um það, en að því kem ég hér á eftir.

Við höfum heyrt það undanfarna daga þegar fjallað hefur verið um Evrópusambandið og sjávarútvegsmál að gjarnan er vísað til Rómarsáttmálans. Eins og menn vita var hann undirritaður árið 1957. Þar segir nú reyndar ekki annað um fiskveiðar en að þær falli undir landbúnaðarkafla sáttmálans, enda voru það fyrst og fremst landbúnaðarþjóðir sem stofnuðu Evrópusambandið, með sjávarútveg sem hliðargrein, svæðisbundna atvinnuhagsmuni. Orðrétt segir, með leyfi forseta, og það er margumrædd auðlindastefna sambandsins:

,,Sameiginlegi markaðurinn skal ná til landbúnaðar og verslunar með landbúnaðarafurðir. Hugtakið landbúnaðarafurðir nær hér yfir afurðir jarðræktar, búfjárræktar og fiskveiða, sem og afurða á fyrsta vinnslustigi, sem tengist beint þessum afurðum.``

Þetta er hin mikla auðlindastefna sambandsins.

Sjávarútvegsstefnan hefur síðan þróast með útgáfu reglugerða og tilskipana á þessum grundvelli, m.a. í ljósi stækkunar sambandsins og aðildarviðræðna sem átt hafa sér stað í tenglum við hana. Í þessu sambandi er sjálfsagt, herra forseti, að minna á þá undanþágu sem bæði Svíþjóð og Finnland fengu frá landbúnaðarstefnunni og mig minnir að heiti norðurskautslandbúnaður eða norðlægur landbúnaður eða eitthvað þess háttar. Þróunin hefur orðið sú að Evrópusambandsríkin fara sjálf með stjórn fiskveiða heima fyrir og getur sú stjórn verið mismunandi eftir ríkjum. Heildarafli hvers ríkis er hins vegar ákvarðaður í ráðherraráðinu sem skipað er sjávarútvegsráðherrum sambandsins. Þennan hátt hafa ríki þurft að hafa vegna þess að um sameiginleg hafsvæði og sameiginlega fiskstofna hefur verið að ræða. Það hefur fengist ákveðin viðurkenning fyrir hafsvæðin í kringum Orkneyjar og Hjaltland og Norðmenn höfðu fengið viðurkenningu á að hafsvæðið fyrir norðan 62. breiddargráðu yrði tímabundið undir fullu forræði þeirra.

Herra forseti. Það er ágætt þegar við erum að fjalla um möguleika Íslands í þessu sambandi að líta til þess hvað var í pakka Norðmanna. Þeir sömdu árið 1992, fóru síðan í atkvæðagreiðslu og felldu aðild árið 1994. En sú staða sem þeir voru búnir að ná í sjávarútvegsmálum gæti verið eins konar byrjunarreitur fyrir okkur Íslendinga. Norðmenn höfðu fengið viðurkenningu á mikilvægi sjávarútvegs síns. Í þeirra tilfelli er um svæðishagsmuni að ræða, ekki jafnstóra og okkar sem sagt. Þeir þurftu ekki að greiða fyrir innganginn með veiðiheimildum. Það var viðurkennt að viðmiðunarár varðandi veiðireynslu innan lögsögu þeirra væru árin 1989--1993. Það er ástæða til þess að taka eftir þessum ártölum, herra forseti. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggði þeim sama veiðirétt áfram, sama veiðirétt og þeir höfðu haft. Þeir gátu fengið framkvæmdastjóra sjávarútvegsmálasambandsins. Þeir gátu líka fengið þriggja ára frest gagnvart erlendum fjárfestingum. Eftir aðildarviðræðurnar töldu Norðmenn líka að þeir gætu haldið áfram hvalveiðum með vísan til undanþáguákvæða tilskipunar Evrópusambandsins um náttúruvernd. Þetta er nú reyndar atriði sem menn hafa mjög dregið í efa.

Síðan Norðmenn sömdu hefur svokölluð nálægðarregla þróast mikið. Hún felur það í sér að færa á allar ákvarðanir til lægsta mögulega stjórnstigs og sem næst þeim sem við eiga að búa og ef einhverjir hagsmunir eru bundnir einstöku ríki en varða hin ekki þá sé eðlilegt að ákvörðun sé tekin í viðkomandi ríki. Það er væntanlega m.a. á grundvelli þessa sem hæstv. utanrrh. hefur mótað þá hugmynd að mögulegri aðlögun að sjávarútvegsstefnu sambandsins sem nú er kennd við Berlín.

Við Íslendingar viljum tryggja veiðirétt og veiðimöguleika Íslands til frambúðar og ábyrga stjórn fiskveiða innan íslensku lögsögunnar. Það er þess vegna eðlilegt að krefjast þess að hafið í kringum Ísland verði skoðað sem sérstakt hafsvæði, enda yrði Ísland eina Evrópusambandsríkið á þessu svæði og eina ríkið sem hefur af því hagsmuni hvernig veiðum þar er stjórnað. Það ásamt beitingu nálægðarreglunnar ætti einnig að geta fært okkur einum ákvörðunarvald yfir heildarafla á svæðinu. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika ætti að tryggja að engir aðrir en Íslendingar fengju veiðirétt í lögsögunni umfram það sem þegar er.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði hér áðan. Taldi hann líklegt að í viðræðum við okkur yrði veiðireynslan frá 1973--1978 notuð. Þetta höfum við þráfaldlega heyrt frá þeim sem fyrir fram eru á móti. Það er þó í reynd afar ólíklegt að í samningaviðræðum við Ísland yrði litið til þeirrar veiðireynslu og þá í algjörri mótsögn við þá venju sem skapast hefur um að litið sé til áranna á undan samningsgerðinni. Veiðireynsla þessa tímabils, þ.e. 1973--1978, var notuð í samkomulagi aðilarríkja Evrópusambandsins sem gert var árið 1983, enda eðlilegt að miða við þá veiðireynslu sem þá var til staðar. En þegar Spánn gekk í Evrópusambandið árið 1986 gátu þeir hins vegar ekki miðað við veiðireynslu sína fyrir útfærslu landhelginnar 1977. Og þegar Norðmenn sóttu um aðild, eins og ég gat um áðan, árið 1992 var miðað við veiðireynslu áranna 1989--1993.

Í aðildarsamningum Íslands við Evrópusambandið væri því langlíklegast að miðað yrði við veiðireynslu þess tíma sem samningurinn væri gerður. En þar sem Íslendingar hafa setið einir að veiðunum í meira en tvo áratugi er næsta öruggt að Ísland héldi sínum kvótum innan lögsögunnar sambærilegum við það sem er í dag.

Það er líka rétt að geta þess að ríki sem gengið hafa í Evrópusambandið hafa haldið réttindum sínum varðandi deilistofna á grundvelli hlutfallslega stöðugleikans.

Herra forseti. Það er ólíklegt miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér að varanleg undanþága fengist frá fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi. Þó má telja líklegt að einhverra ára frestur fengist. En það er rétt að hafa það í huga að samkvæmt reglum Evrópusambandsins verður útgerð að hafa raunveruleg efnahagsleg tengsl við það land sem gert er út frá. Það væri einnig hægt að setja á löndunarskyldu þannig að öllum afla skipa sem veiða í íslenskri lögsögu yrði landað á Íslandi. Það gerum við reyndar ekki í dag. En þessi möguleiki hefur verið talinn vera til staðar og kom m.a. fram hjá hæstv. utanrrh. í umræðu hér fyrir u.þ.b. ári síðan um erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

Staða Íslands væri áreiðanlega afar sterk ef það gengi í sambandið. Þekking okkar og geta í sjávarútvegi er viðurkennd. Það er því eðlilegt samningsmarkmið Íslands, ef farið yrði í viðræður, að Ísland fái framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála. Við verðum að hafa alla myndina undir, herra forseti, vegna þess að með aðild að Evrópusambandinu væri tryggður fullur aðgangur að okkar mikilvægustu mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Málið er þó ekki svo einfalt að hagsmunir verði vigtaðir króna á móti krónu eins og ýmsir hafa tilhneigingu til að gera. Ég er hér einungis að tala um það sem snýr beint að stjórn sjávarútvegsmála, enda er kannski ekki svigrúm til að fjalla um annað sem skiptir máli, eins og stærra myntsvæði eða gjaldmiðil eða annað.

Herra forseti. Það er almennt viðurkennt að ef aðild Íslands að Evrópusambandinu kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu þá gætu sjávarútvegsmálin ráðið úrslitum. Það hefur jafnan verið hluti umræðunnar þegar menn hafa fitjað upp á Evrópuumræðu að einhver segir: ,,Að óbreyttri sjávarútvegsstefnu kemur þetta ekki til greina.`` Eigi að síður hafa skoðanakannanir undanfarið sýnt að stór hluti þjóðarinnar er tilbúinn til þess að gjalda því jáyrði sitt að gengið yrði inn í Evrópusambandið og enn fleiri að sótt verði um.

Herra forseti. Það er umhugsunarefni hvernig þessi niðurstaða gat orðið eftir að menn höfðu varað svo mjög við í krafti sjávarútvegsstefnunnar. Ungt fólk sem ég hef rætt við segir mér að þetta sé að öllum líkindum vegna þess að mönnum finnist þeim einfaldlega ekki koma sjávarútvegurinn lengur við. Þeim sé nokk sama hvar Samherji eða Eimskip nái í kvótana. Með öðrum orðum, það er greinilega orðin það mikil firring, annaðhvort vegna stefnu stjórnvalda, vegna viðhorfs sjávarútvegsfyrirtækjanna, stórútgerðarinnar eða annars, að fólki er þetta málefni ekki eins ofarlega í huga og við stjórnmálamenn gjarnan viljum álíta. Það er hins vegar staðreynd að mínu mati að enginn stjórnmálamaður mun nokkru sinni koma með samning til þess að bjóða íslensku þjóðinni upp á í sjávarútvegsmálum sem ekki er þannig að okkar réttur sé tryggður.

Eitt af því sem menn tefla gjarnan fram í þessari umræðu er líka að við höfum nú ekki unnið þorskastríðin til þess að hleypa hér erlendum aðilum strax inn í lögsöguna. Þetta finnst mér alltaf dálítið skemmtileg staðhæfing, herra forseti, svona fyrir utan það að erlendir aðilar eru ekki á leiðinni inn í lögsöguna, þó svo af aðild yrði, ef allt fer eins og líklegt má telja. Nú tala menn gjarnan um Spánverja, síður um Þjóðverja og Breta, og við veltum fyrir okkur: Af hverju ekki Þjóðverjar og Bretar? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að íslensk fyrirtæki eiga alla þýsku úthafsútgerðina núna. Þeir eiga óvinaflotann þýska og þeir eiga stóran hluta af óvinaflotanum breska.

Þetta segir okkur kannski best, herra forseti, hvílíkar breytingar hafa orðið á undanförnum 25 árum. Þetta segir okkur líka hve sterkir Íslendingar eru á sjávarútvegssviðinu. Þess vegna er alveg ljóst að við munum hafa áhrif bæði innan og utan Evrópusambandsins á það sem gerist í sjávarútvegsmálum.

Mitt mat er að munurinn væri aðallega sá að innan sambandsins yrði tekið meira tillit til hagsmuna okkar af því það eru þjóðarhagsmunir og að sjálfsögðu er tekið meira tillit innan Evrópusambandsins til þeirra þjóða sem eru innan sambandsins en hinna sem standa fyrir utan og kjósa það sjálfar.

Herra forseti. Menn nálgast nokkuð misjafnlega umræðuna um það hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Ég er mjög stolt af þeirri leið sem Samfylkingin kaus að fara, þ.e. að kynna málið og að hafa síðan allsherjaratkvæðagreiðslu í flokknum um það hvernig menn vildu haga þessum málum.

Mér finnst sú aðferð líklegust til þess að tryggja að fram fari lifandi umræða og að fólk setji sig inn í málin. Það er mjög gott og tryggir að menn gangi þá með opin augun að því sem þeim þykir líklegast að verði niðurstaða og séu öllum hnútum kunnugir þegar og ef kæmi að þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er ágætt að minna sjálfan sig á að upphaflega var EES-samningurinn fyrst og fremst kynntur sem viðskiptasamningur. Hann hefur þó í raun birst okkur sem einn stærsti félagsmálasamningur sem Ísland á aðild að. Hann hefur sömuleiðis reynst afar mikilvægur á sviði mennta og vísinda, ég tala nú ekki á sviði umhverfismála eins og glögglega kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh.

Hins vegar hefur hvorki vinnuafl af EES-svæðinu flætt yfir landið og haft óæskileg áhrif á íslenskan vinnumarkað eins og spáð var, né hafa auðmenn keypt upp hjartfólgnustu svæði landsins. Þannig hefur niðurstaðan að ýmsu leyti orðið allt önnur en sú sem umræðan gat gefið til kynna.

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að við drögum þann lærdóm af því sem við eigum að hafa séð af þessari reynslu, þ.e. að það þarf að fara í umfjöllun eins og þessa með opnum hug frekar en fyrir fram gefinni niðurstöðu með eða á móti. Reynsla mín sem er svona fremur tortryggin af ástæðum sem tengjast ekki sjávarútvegsstefnunni beinlínis þó að ég hafi gert hana að umræðuefni, heldur kannski af öðrum ástæðum, er sú að því meira sem ég les mér til og kynni mér málin og ræði þau, þeim mun öruggari er ég gagnvart því viðfangsefni okkar Íslendinga að takast á við það að sækja um aðild að Evrópusambandinu og meta möguleika okkar. Ég hugsa að það eigi við um flesta. Þess vegna, herra forseti, er upplýsingin og umræðan það mikilvægasta núna.