Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:13:26 (6719)

2002-03-26 15:13:26# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður að þola það þó ég segi eitt og eitt orð um flokk hans Vinstri græna. Hann hefur verið afskaplega duglegur við það á undanförnum árum að túlka og skilgreina stefnu Framsfl. Og ég kannast nú ekki við allar þær vitleysislegu skilgreiningar sem hann hefur haft í frammi á fundum um allt land, þar sem hann hefur lagt orð í munn Framsfl. í sama dúr og Alþýðubandalagið, sem er nýlega dautt, gerði í gamla daga og lifði lengi á. En það fór nú fyrir því eins og raun ber vitni og ég býst við því að það fari að sumu leyti eins fyrir hv. þm. ef hann ætlar að halda því áfram.

Eitt er þó ljóst. Vinstri grænir eru á móti Kárahnjúkavirkjun. Liggur það ekki fyrir? Ég kalla það öfga. Nú má vel vera að hv. þm. sé ekki sammála því. Ég býst við því að flestir Austfirðingar kalli það öfgastefnu. Nú segir hv. þm., þegar hann er að tala um Þjórsárver, að það sé allt annað mál.

Hefur verið gengið of langt í virkjunarframkvæmdum á Íslandi fram að þessu á Þjórsársvæðinu? Ég tel að það hafi verið gengið of langt í sambandið við Sogið og Laxá á sínum tíma. Þá voru hins vegar allt aðrir tímar og það er erfitt að dæma um það. En það er eins og það séu allt önnur sjónarmið uppi hjá þessum flokki að því er varðar Þjórsársvæðið en þegar fjallað er um svæðið fyrir austan. Ég fæ því ekki komið saman hvernig á því stendur, nema það virðast ríkja þessar öfgar gagnvart þessum fagra landshluta.