Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:15:16 (6720)

2002-03-26 15:15:16# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Mér fannst nú hæstv. utanrrh. skjóta sig í fótinn þegar hann sneri því öllu upp á Austfirði að ég nefndi einmitt umdeilda framkvæmd í öðrum landshluta. Ég nefndi fyrirhugaða Norðlingaöldumiðlun og Þjórsárver, þá staðreynd að ef hún á að verða þá verður enn frekar þrengt að og skert sú sérstæða perla sem Þjórsáverin eru og því erum við á móti. Þjórsárverin voru ekki síðast þegar ég vissi á hinu fagra Austurlandi.

Við tökum afstöðu til hvers verkefnis út af fyrir sig eftir þeim efnislegu aðstæðum sem þar blasa við. Við erum á móti Kárahnjúkavirkjun. Það er hárrétt. (Utanrrh.: Eruð þið ekki á móti ...?) Hæstv. ráðherra má kalla það öfgar ef honum sýnist svo. Það eru þá fleiri um öfgarnar. Hæstv. ráðherra gleymir því gjarnan að það eru Austfirðingar á móti þeirri framkvæmd og hafa látið í sér heyra og fjöldi fólks um allt land í öllum kjördæmum og alls staðar er ýmist á móti eða hefur miklar efasemdir um þá framkvæmd. Auðvitað má hæstv. utanrrh. mín vegna sitja uppi með heiðurinn af því að hafa kallað allt það fólk öfgafólk.

Svo nefndi hæstv. ráðherra að vísu hluti sem hann taldi að menn hefðu farið offari með, Sogið, Laxá. Ég skal bæta t.d. Stíflu í Fljótum við. Ég held að við séum öll sammála um að við mundum tæpast fara með sama hætti í þær virkjanir í dag. Er það ekki til marks um að við þurfum að gæta okkar á hverjum tíma? Viðhorfin kunna að vera að breytast. Það sem menn eru í fullri vissu um að sé réttlætanlegt og verjanlegt í dag af því að það skapi störf og atvinnu verður kannski dæmt öðruvísi að 10--20 árum liðnum.

Ef menn geta eitthvað lært af sögu umhverfismála sl. 20--50 ár þá er það auðvitað það að hlutirnir eru að breytast í eina átt. Menn eru að átta sig betur á verðgildi náttúrunnar og því að það þarf að sýna henni nærgætni í umgengni. Þar eru ómetanleg og í sumum tilvikum óafturkræf verðmæti á ferðinni sem við, núlifandi kynslóð í landinu eða á hnettinum, höfum ekkert leyfi til að láta eins og við eigum ein og þurfum ekki að standa neinum reikningsskap á. Það er ekki þannig.

Það er ekki síst boðskapurinn eða hugsunin á bak við sjálfbæra þróun.