Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:34:51 (6723)

2002-03-26 15:34:51# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og staðan er hjá okkur núna er vægi evrunnar í kringum 40% í gjaldeyrisviðskiptum okkar. Þá tel ég dönsku krónuna með evrusvæðinu. Það þýðir að jafnvel þótt við tækjum upp evru sem gjaldmiðil væri gjaldeyrisáhætta veruleg, þ.e. gengisáhætta gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Síðan er auðvitað spurning, þegar menn eru að ganga í myntbandalag, hvort hagkerfin gangi í takt. Ef hagkerfin ganga á ójöfnum hraða er ekkert vit í að vera saman í myntbandalagi. Þess vegna eru þessi samræmingarskilyrði sett upp varðandi evruna. Nýju aðildarríkin sem eru að ganga í Evrópusambandið þurfa að uppfylla þessi samræmingarskilyrði til að komast inn í evruna. Þau skilyrði snúa að vöxtum, verðbólgu og ríkishalla.

Í dag uppfyllum við ekki þessi skilyrði. Við uppfyllum skilyrði varðandi ríkisbúskapinn, við erum ekki með halla á honum. En við erum með of háa verðbólgu og of háan vaxtamun. Til þess að komast inn mundum við þurfa að reka hagkerfi okkar í takt við hagkerfi Evrópusambandsins í töluvert langan tíma enda væri ekkert vit í að ganga þarna inn að öðrum kosti. Þetta hafa Bretar og Svíar séð, að efnahagslíf þeirra var ekki í takt. Væru hins vegar pundið og sænska krónan komin inn væru þessi 40% komin upp í 60%. Þá væri ástæða til að fara að reikna vegna þess að þá breytist útreikningurinn varðandi gjaldeyrisáætlunina. Þá er alla vega ástæða til að skoða málið en hver útkoman yrði skal ég ekki segja því að enn væri 40% gjaldeyrisáhætta gagnvart dollaranum og jeninu.