Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:41:40 (6726)

2002-03-26 15:41:40# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt ábending hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að vextir lækka ekki sjálfkrafa við það eitt að taka upp evruna. Lágt vaxtastig er hins vegar ein af forsendum þess að við getum tekið upp evru auk þess sem við þyrftum að sjálfsögðu að ganga í Evrópusambandið til þess að það gæti orðið að veruleika. Aðrar forsendur lúta, eins og hv. þm. benti á, að ríkishallanum og verðbólgunni. Allar þessar forsendur þurfa að vera fyrir hendi.

En það er ekki nóg að geta tekið upp evruna, að fullnægja þessum forsendum þá, heldur yrði að sjálfsögðu fylgst með því að viðkomandi ríki stæðu við þær skuldbindingar. Hver er það sem fylgist með því að þær geri það? Það er hinn nýi seðlabanki í Frankfurt. Það er náttúrlega mergurinn málsins. Þeir sem taka upp þessa sameiginlegu mynt skuldbinda sig til að lúta peningamálastjórn seðlabankans í Frankfurt. Eins og ég heyri á hv. þm., og mér finnst það gott, telur hann ekki forsendur fyrir því á Íslandi eins og sakir standa að feta sig inn á þá braut. Þannig skildi ég mál hans.

Það kom einnig fram hjá honum að eins og sakir standa uppfyllum við ekki þessi skilyrði. Þegar evruferlið hófst hins vegar fyrir fáeinum árum voru Íslendingar í hópi örfárra ríkja innan Evrópu sem uppfylltu þessi skilyrði. En skjótt skipast veður í lofti. Þetta segir okkur eina ferðina enn og færir okkur heim sanninn um það að það er vafasamt fyrir Íslendinga að njörva sig niður með þessum hætti.