Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:43:33 (6727)

2002-03-26 15:43:33# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt verðum við líka að hafa í huga í þessu. Almennt séð er æskilegt að það ríki sá stöðugleiki í hagkerfinu að við ekki bara uppfyllum þessi skilyrði heldur að möguleikar skapist fyrir fyrirtæki til að ná árangri. Þeir sem stjórna fyrirtækjum njóta þess þegar stöðugleiki er vegna þess að þá er betra að ná árangri í öllum rekstri. Hið sama á að sjálfsögðu við um heimilin.

Það er oft ákveðin mótsögn í því að þegar menn eru að spá í gengisstefnu og hvort eðlilegt sé að gengið fljóti á markaði eða hvort eðlilegt sé að það sé stöðugt. Málið snýst um að fyrir hagkerfið í heild er betra, ef ná þarf jafnvægi vegna of mikils halla á utanríkisviðskiptum eða eitthvers annars, að gengið sé frjálst. En það getur skapað mikla erfiðleika fyrir fyrirtæki og heimili. Þar hafa menn verið að taka ákvarðanir á grundvelli ákveðinna forsendna um gengi og um þessa hluti alla. Til lengri tíma litið væri því auðvitað æskilegast ef við gætum lifað í heimi þar sem við þyrftum aldrei að horfa á gengið breytast, allt væri stöðugt og við gætum búið við 3% hagvöxt ár eftir ár. Þannig er bara tilveran ekki því miður. Þess vegna mundi ég vilja bæta við þessa umræðu að við þurfum auðvitað að reyna að ná því ástandi á Íslandi að hér ríki stöðugleiki. En það eru efnahagslegar forsendur sem ráða því en ekki hvaða tilfinningar við berum til Evrópusambandsins.