Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:05:24 (6731)

2002-03-26 16:05:24# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í sambandi við ummæli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að því er varðar styrki til sjávarútvegs er það ekki svo að við gerum ráð fyrir að allir styrkir verði afnumdir. Við höfum hins vegar fært að því rök að mikið af þeim styrkveitingum sem eiga sér stað í heiminum hafi valdið mikilli ofveiði, ekki síst í úthafsveiðum togaraflotans. Við teljum að það hafi orðið til þess að mikil rányrkja hafi verið stunduð meðal þróunarríkjanna. Ég ætla ekki að nefna einstök lönd í þessu sambandi en ég held að öllum hljóti að vera ljóst að öllum sé fyrir bestu að afnema slíka styrki, þá ekki síst með tilliti til þróunarríkjanna.

Hv. þm. spurði hvenær þessi stefna hafi verið samþykkt. Mér vitanlega, svo lengi sem ég man, hefur það ávallt verið stefna Íslendinga að berjast gegn óeðlilegum styrkjum í sjávarútvegi. Við munum halda því áfram. Það er líka ljóst að mikið er um markaðstruflandi styrki sem skaða samkeppnishæfni íslenskra sjávarafurða á alþjóðlegum mörkuðum. Miðað við þau frjálsu viðskipti sem eru að ganga yfir heiminn, þá þykir okkur óeðlilegt að við tökum á okkur frjáls viðskipti á ýmsum sviðum en síðan séu verulegir styrkir á sviði sjávarútvegs sem skaði samkeppnishæfni okkar á alþjóðlegum mörkuðum.

Ég geri hins vegar ráð fyrir því að byggðastyrkir sem slíkir verði áfram við lýði, enda leiði þeir hvorki til rányrkju né trufli eðlilega markaðsstarfsemi.