Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:09:35 (6733)

2002-03-26 16:09:35# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að við berjumst gegn styrkveitingum í sjávarútvegi. Hins vegar berjumst við ekki gegn hvers konar byggðastyrkjum. Það er eðlilegt að sjávarútvegurinn sitji þar við sama borð og aðrar atvinnugreinar. Við tökum ekki undir að heimilt sé að veita sjávarútveginum einhverja allt aðra fyrirgreiðslu en iðnaði, ferðaþjónustu og öðrum skyldum greinum.

Á alþjóðavettvangi höfum við litið á sjávarútveginn sem hvern annan iðnað. Hann er okkar stóriðnaður og meginundirstaða atvinnulífs okkar. Við teljum eðlilegt að sambærilegar samkeppnisreglur gildi um vörur sjávarútvegsins og iðnaðarvörur almennt. Þá koma aðrir og segja: Hvernig er þetta með landbúnaðinn? Gildir þá ekki hið sama um landbúnaðinn? Nei, við lítum ekki eins á landbúnaðinn. Það sama má segja með margar aðrar þjóðir. Við höfum náð saman við þær þjóðir um málefni landbúnaðarins. Þetta mál, að því er varðar sjávarútveginn, hefur á engan hátt verið truflandi í þessari baráttu okkar.

Nú stöndum við í þeim sporum að þessi vinna er hafin. Það þarf að skilgreina þessa styrki betur. Það þarf að safna upplýsingum um þá, fá upplýsingar frá aðildarþjóðunum og fara yfir hvaða styrkir leiða til rányrkju og ofveiði og hvaða styrkir eru markaðstruflandi. Á grundvelli þessarar vinnu verða væntanlegar ákvarðanir teknar.