Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:13:05 (6735)

2002-03-26 16:13:05# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, MF
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugerðina, bæði það sem kom fram í ræðu hans og ekki síður þá skriflegu skýrslu sem liggur fyrir þinginu.

Í skýrslunni, í viðauka 2, kemur m.a. fram að við erum býsna rík af starfsfólki sem vinnur að góðum málum í utanrrn. Með því er ég að segja að í flestu er hægt að taka undir þau sjónarmið, þá stefnu og áhersluatriði sem birtast í skýrslu hæstv. ráðherra. En þar kemur fram að á vegum utanríkisþjónustunnar eru 204 launaðir starfsmenn, 85 í utanrrn. og 118 erlendis. Þar af er 71 útsendur og 47 staðarráðnir starfsmenn. Ólaunaðir kjörræðismenn eru 227.

Það er ekki hægt að fara í gegnum svona umræðu án þess að þakka því starfsfólki sem að þessu vinnur, ekki bara á vegum hæstv. utanrrh. heldur fyrir þjóðina á erlendum vettvangi og hér heima.

Jafnframt vil ég geta þess sem ekki kemur fram í þessum viðauka. Það vantar þarna dálítinn hóp starfsmanna að mínu mati. Það eru makar þeirra sem sendir eru út og vinna mjög mikið og gott starf erlendis. Við mættum gjarnan, ekki síður en að fara í sérstakar umræður um einstaka þætti í störfum utanríkisþjónustunnar, fara í smáumræðu um kjör þessa fólks og aðbúnað, og þá ekki síst maka starfsmanna og barna. Ég vil hér, virðulegi forseti, koma á framfæri þakklæti okkar í Samfylkingunni fyrir það mikla starf sem unnið er af þessu fólki á erlendum vettvangi og hér heima í ráðuneytinu. En skrifstofurnar eru 20 í 16 löndum meðan umdæmislöndin eru 93. Það segir sig því sjálft að þarna er um viðamikið starf að ræða.

[16:15]

Ræðu sína tileinkaði hæstv. utanrrh. sjálfbærri þróun. Í lokakafla ræðu sinnar talaði hann m.a. um að hún væri aðalsmerki Evrópuríkja. Hér á landi höfum við gjarnan viljað telja okkur í fremstu víglínu á sviði umhverfismála, ekki síst með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Við teljum á hátíðarstundum að við séum afar sérstök hvað varðar hreinleika og óspillt umhverfi. En það er nú samt sem áður þannig, virðulegi forseti, að við höfum í seinni tíð sótt fyrirmynd þeirra reglna sem við búum við til Evrópuríkja og þá sérstaklega í samstarfi við Evrópusambandið. Við bjuggum ekki svo vel áður. Staðreyndirnar eru bara þær að Evrópuríkin þurfa flest hver, sérstaklega þau sem nú þegar eru í Evrópusambandinu, að uppfylla ákveðin skilyrði. Þau eru okkur fremri á býsna mrögum sviðum umhverfismála enda höfum við sótt okkur fyrirmyndirnar þangað.

Í ræðu hæstv. ráðherra leggur hann áherslu á mikilvægi samstarfs innan Evrópu og Evrópuþjóðanna á sviði umhverfismála og segir þar m.a., með leyfi forseta:

,,Það er því mikilvægt að við tökum virkan þátt bæði í framkvæmd og þróun umhverfislöggjafar Evrópu.``

Hann talar þar einnig um hlut sveitarfélaganna og segir:

,,Með aðild okkar að EES-samningnum gerðumst við þátttakendur í öflugu umhverfisstarfi Evrópu. Þetta samstarf hefur fært okkur virka umhverfislöggjöf, en henni var um margt ábótavant fyrir gerð samningsins.``

Það er vissulega mikilvægt að við tökum þátt í þessu Evrópusamstarfi. Það er mikilvægt og hefur reynst okkur afar heilladrjúgt á sviði umhverfismála. Ýmsir hafa komið hér og talað af hörku á móti Evrópusambandinu og gera jafnvel lítið úr þeim sem leggja mikla vinnu í alla umræðu um Evrópumálin og stöðu okkar innan Evrópu. Það er auðvitað það mikilvægasta í pólitísku umhverfi okkar í dag, þ.e. staða okkar meðal þjóðanna og ekki síst í samstarfinu innan Evrópu. Hér hafa menn komið og jafnvel hent grín að þeim sem vilja gera þetta vel og stuðla að því að ef og þegar tekin verður ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu séu íbúar þessa lands tilbúnir að taka ákvörðun sem byggi á þekkingu á stöðu okkar en ekki bara á fyrirskipunum frá einstökum formönnum flokka sem m.a. fram til þessa hafa talið sig býsna stóra í íslensku þjóðfélagi en fara minnkandi. Það er auðvitað vegna þess að þeir hafa ekki viljað upplýsta umræðu, hvorki um þetta mál né ýmislegt annað sem brennur á í þjóðfélaginu.

Staða okkar er samt sem áður þannig, eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, að aðkoma okkar að því að móta stefnu innan Evrópu er afar takmörkuð. Hún er afar takmörkuð. Hæstv. ráðherra segir hér í ræðu sinni, með leyfi forseta:

,,Nú hefur Evrópusambandið gengið skrefinu lengra, en sjálfbær þróun er eitt helsta markmið og inntak Maastricht- og Amsterdam-sáttmálanna. Aðildarríki Evrópusambandsins hafa einnig samþykkt sérstaka áætlun, svonefnda Cardiff-áætlun, um aðlögun allra verkefna og stefnumörkunar sambandsins að markmiðum sjálfbærrar þróunar.``

Við eigum mjög takmarkaða aðkomu að þessari þróun og þeim viðræðum sem þarna eiga sér stað. Við hljótum því að velta fyrir okkur hvernig við getum aukið áhrif okkar. Þegar menn tala um að við getum ekki bundið okkur á klafa Evrópusambandsins, á klafa þessa samstarfs Evrópuríkjanna, þá gleyma þeir að við þurfum nú þegar að hlíta stærstum hluta þeirrar löggjafar sem þarna er samþykkt. Við þurfum að setja lög hér á landi í takt við samþykktir Evrópusambandsins nú þegar. Sé þetta klafi, að eiga í öflugu samstarfi við þær þjóðir sem við eigum mest viðskipti við erum við þegar bundin á þann klafa. Kannski, sem betur fer.

Eitt af því sem a.m.k. annar sá flokkur sem barist hefur hvað harðast gegn því að hér eigi sér stað almenn umræða, almenn og upplýst umræða um stöðu okkar innan Evrópu, hefur ekki áttað sig á er að við erum sterkari ef við vinnum saman. Við erum sterkari sameinuð en sundruð. Það er mun betra fyrir okkur að eiga aðkomu að þeim ákvörðunum sem teknar eru innan Evrópusambandsins en að hafa takmarkað um samþykktir þess að segja og búa við samning sem er veikur og verður veikari með hverjum mánuðinum og hverju árinu sem nær dregur að aðildarþjóðum sambandsins fjölgi.

Hér hefur verið farið yfir ýmsa þætti sem lúta að Evrópusambandinu og því samstarfi. Ég kom hingað, virðulegi forseti, fyrst og fremst til að ræða um Evrópuráðið og starfsemi þess. Það er stutt síðan fluttar voru starfsskýrslur starfsnefnda þingsins erlendis. Það var ekki mikil þátttaka í þeirri umræðu frekar en oft er. Vonandi er að það sýni ekki í reynd áhugann á þessum málum innan þingsins. Þá á ég ekki við, eins og ég sagði við þá umræðu, virðulegi forseti, stjórn þingsins því hún gefur þessum umræðum tíma á dagskrá þingsins, heldur fyrst og fremst okkur sjálf, hv. þm. Við getum ekki búist við að samstarfið verði öflugra en við gerum það, sem eigum að taka þátt í því og ræða það. Ég gat þess við þá umræðu sem ekki var viðstaddur nema einn hv. þm., virðulegur forseti, ásamt starfsmönnum þingsins og starfsmanni utanrrn.

Ég hefði t.d. gjarnan viljað heyra skoðun íslenskra þingmanna á því hvort það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma af Evrópuráðinu að reka ekki Rússana út en leyfa þeim að sitja þar áfram með atkvæðisrétt, þrátt fyrir að þeir hafi brotið þann sáttmála sem þeir eru aðilar að. Eins vil ég vita hvort við erum stolt af þeim nýju ríkjum sem bættust við Evrópuráðið síðast þegar fáni þeirra var dreginn að húni, Aserbaídsjan og Armeníu. Finnst okkur að þessi ríki séu í stakk búin til að þeim sé hleypt inn, jafnvel þó við viljum hliðra til og hleypa að ríkjum sem ekki uppfylla öll skilyrði sem Evrópuráðið setur? Finnst okkur þessi tvö ríki til að mynda, þau eru auðvitað fleiri, komin það langt að það sé hægt að ýta þeim á leiðarenda, þannig að þau uppfylli skilyrðin sem Evrópuráðið setur? Ég dreg það stórlega í efa, sérstaklega í ljósi þess að Evrópuráðið hefur ekki verið nógu afgerandi varðandi þær þjóðir sem þó hafa verið í ráðinu um tíma en uppfylla ekki enn þau skilyrði sem Evrópuráðið setur.

Evrópusambandið krefst þess að þau ríki sem sækja um aðild uppfylli þau skilyrði sem sett eru um aðild að Evrópuráðinu. Þess vegna hafa þau auðvitað sótt stíft eftir að komast þar inn. En ef Evrópuráðið ætlar sér að hafa sérstöðu á sviði mannréttindamála verðum við auðvitað að sjá til þess, og þau ríki sem eiga aðild að Evrópuráðinu, að því sé framfylgt þannig að virðing sé borin fyrir störfunum. Þannig verður það ekki ef tilslakanirnar eru miklar en ég er á þeirri skoðun að svo hafi verið á undanförnum árum.

En fleira vekur athygli í skýrslunni sem hæstv. utanrrh. lagði hér fram, þ.e. skörun verkefna milli ÖSE og Evrópuráðsins þar sem til að mynda er fjallað um kosningaeftirlit en ekki síður mansal. Ég sé, þegar ég les þessa skýrslu og skýrslur um þátttöku þingsins í starfsemi ÖSE, að þarna er um verulega skörun að ræða. Ég hef velt því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort ekki sé rétt að Ísland beiti áhrifum sínum til að þarna verði um ákveðna sérhæfingu að ræða þannig að við nýtum betur það fjármagn sem við höfum á hvorum stað. ÖSE hefur lagt mikla áherslu á baráttuna gegn mansali. Það hefur Evrópuráðið gert líka og lagt fram skýrslu. Jafnréttisnefnd Evrópuráðsins hefur á undanförnum missirum beitt sér fyrir skjótri úrlausn, eins og það heitir í skýrslunni, í þeim brýnu málefnum sem flokkast undir mansal og aðgerðir gegn mansali. Í þeirri skýrslu hefur Evópuráðið mælst til eða beint tilmælum til aðildarþjóða um aðgerðir gegn mansali, þar á meðal til okkar sem aðildarþjóðar sem ég sé ekki að hafi verið framfylgt nema að litlu leyti og jafnvel ekki. Þeim tilmælum hefur m.a. verið beint til aðildarríkja Evrópuráðsins að þau skilgreini baráttuna gegn mansali sem forgangsverkefni með tilliti til breytinga á löggjöf og jafnframt að stjórnvöld aðildarríkja beiti sér fyrir því að hver sú starfsemi sem tengist mansali verði gerð saknæm.

Þá hefur Evrópuráðið mælst til að aukið verði mjög á samstarf alþjóðlegra og evrópskra stofnana og frjálsra félagasamtaka í þessum málaflokki með það að markmiði að þolendum þeirra glæpa sem hér um ræðir verði veitt rík vernd og að almenningur verði upplýstur um afleiðingar mansals. Mansal verður auðvitað að skilgreina sem brot á mannréttindum, þ.e. með því er vegið að mannlegri reisn kvenna, ungmenna og barna sem í hlut eiga, en þessir einstaklingar eru oft í bráðri lífshættu. Með tilliti til réttinda þeirra sem í hlut eiga má segja að mansal vegi að undirstöðu mannréttinda, jöfnum rétti allra manna. Mansal á að skilgreina sem glæp gegn mannkyni.

Þetta segir m.a. í skýrslu Evrópuráðsins sem samþykkt var í lok janúar 2002. Þar er farið mjög ítarlega yfir stöðu þessara mála í Evrópu. M.a. kemur fram í skýrslunni að gríðarleg aukning á mansali helst óbeint í hendur við aukinn straum flóttafólks til Vestur-Evrópuríkja. En í skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar kom fram að á síðasta ári voru yfir 500 þúsund konur fluttar frá ríkjum Mið- og Austur-Evrópu til Vestur-Evrópu fyrir milligöngu aðila sem högnuðust á flutningi þeirra.

Í framhaldi af þessari skýrslu hefur þeim tilmælum verið beint til aðildarríkja Evrópuráðsins að berjast gegn mansali. Ég vildi beina til hæstv. ráðherra spurningunni: Hvað hefur verið gert til að framfylgja þeim tilmælum sem þar um ræðir?

Jafnframt er því beint til aðildarríkjanna að þau beiti sér fyrir því að settar verði sameiginlegar siðareglur fyrir þá sem starfa að friðargæslu. Af því að friðargæslan fær nú, sem eðlilegt er, veglegan sess í skýrslu hæstv. ráðherra, vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hann beiti sér fyrir því að samræmdar siðareglur verði settar á alþjóðavettvangi fyrir þá sem starfa að friðargæslu.