Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:31:07 (6738)

2002-03-26 16:31:07# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég svaraði þessu nýlega á Alþingi þar sem kom fram að Evrópusambandið hefur lýst sig reiðubúið til að standa að breytingum á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en hins vegar hafa yfirlýsingar þeirra gengið í þá átt að þeir væru ekki tilbúnir til þeirra starfa fyrr en að stækkunarferlinu loknu. Ég tel það allsendis ófullnægjandi vegna þess að í fyrsta lagi mun það starf taka nokkurn tíma og þá er eftir fullgildingarferli sem mun taka mörg ár, án þess að ég ætli að skilgreina hversu langur tími það verði. Miðað við þær aðstæður getum við gert ráð fyrir því að búa við alveg óbreyttan samning að þessu leytinu til margra ára.

Hv. þm. spurði jafnframt um samstarf milli ÖSE og Evrópuráðsins. Meðan við Íslendingar gegndum formennsku í Evrópuráðinu gegndu Norðmenn formennsku í ÖSE og við beittum okkur fyrir því að verulegt starf var sett af stað til að samræma starf þessara stofnana og þar varð okkur nokkuð ágengt. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að þar þurfi að ganga lengra, en þar var a.m.k. stigið skref í rétta átt.

Að því er varðar mannréttindamál og mansal og slíka hluti sem komu fram hjá hv. þm., vil ég vitna til skýrslunnar á bls. 48, þar sem kemur fram að nýverið fullgilti Ísland tvær viðbótarbókanir við alþjóðasamninginn um réttindi barnsins og er eitt af fyrstu ríkjum til að gera svo. Þessar bókanir varða annars vegar þátttöku barna í vopnuðum átökum og hins vegar sölu á börnum, barnavændi og barnaklám, þannig að stöðugt er unnið að þessum málum. Við reynum að taka fullan og virkan þátt í þessu starfi því þetta er að sjálfsögðu það alversta sem maður sér meðal siðaðra þjóða og það er skylda okkar að berjast af mikilli hörku gegn því með öðrum þjóðum.