Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:24:14 (6751)

2002-03-26 17:24:14# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að búið sé að láta mikið á það reyna af Norðmönnum. Norðmenn létu fara fram mjög mikla könnun á þessu fyrir sig. Þeir töldu sig hafa náð góðum samningi sem þegar grannt var skoðað af hagsmunasamtökum ásamt mörgum öðrum heildarsamtökum í Noregi reyndist hann haldlítill hvað varðaði sjávarútveginn.

En vissulega er sjávarútvegurinn ekki nærri eins mikilvægur fyrir Norðmenn og okkur, þannig að það er kannski engu saman að jafna. Sjávarútvegurinn skiptir sköpum fyrir okkur. Ef við töpum höndunum af sjávarútveginum, þá erum við sem þjóð í hættu og það er náttúrlega ekkert skrýtið þó menn hafi það sem útgangspunkt.

Þó er auðvitað annað sem mér finnst koma vel inn í þá umræðu og það er hin sameiginlega mynt. Ég geri ráð fyrir því að ef menn á annað borð ganga inn í Evrópusambandið, þá munu þeir líka taka upp evruna. En eins og margoft hefur komið fram er efnahagur okkar þannig að hann byggist á allt öðrum takti en annarra þjóða Evrópusambandsins og því mjög erfitt fyrir okkur að taka upp sameiginlega mynt.

Ég er viss um að ef við færum inn í Evrópusambandið, þá held ég að margt mundi breytast hjá okkur sem við mundum ekki endilega getað séð fyrir, þess vegna var ég nú að tala um að svona samningar eru mjög flóknir og erfitt að sjá hvernig þeir þróast.

Ég er ekki að segja að svartsýnustu spár séu þær einu réttu, en ég held að raunsæi, ef maður notar raunsæja hugmyndafræði í þessu, þá er innganga í Evrópusambandið óraunhæfur kostur fyrir Íslendinga um ókomna framtíð.