Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:28:37 (6753)

2002-03-26 17:28:37# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ef við ákveðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þá gerum við það vegna þess að við ætlum að ganga inn í það. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Þá værum við búin að ákveða það t.d. hér í þinginu að það væri það sem við vildum og við vissum þá nokkurn veginn hvað stæði til boða. (Gripið fram í: Nei.) Það er nokkurn veginn ljóst hvað stendur til boða.

Þess vegna held ég að allt annað sé blekkingaleikur. Verið er að afvegaleiða fólk með því að segja að einhverjir samningsfletir séu á sjávarútvegsmálunum (BH: Hvað með Norðmenn?) Norðmenn náðu t.d. ekki neinum samningum sem skipti máli fyrir þá. (BH: Þeir höfnuðu samningnum.) Norðmenn höfnuðu samningnum einmitt vegna þess að það sem kom út úr samningaferlinu var ekki ásættanlegt og þá sérstaklega í sjávarútvegsmálum. (Gripið fram í.)

(Forseti (GuðjG): Ekki samtal.)

Fyrirgefðu, herra forseti. En svona fór um sjóferð þá hjá Norðmönnum og þeir hafa lært af reynslunni.

En hv. þm. talaði um að EES-samningurinn hefði ekki verið allra. Það er alveg rétt og Sjálfstfl. var áður á níunda áratugnum, eða hluti hans kannski, ekki sammála þeim samningi en Sjálfstfl. kom heill inn í þá umræðu 1991 og var sá flokkur sem leiddi þá umræðu ásamt Alþýðuflokknum til lykta og það er enginn sem ber á móti því. Ég hef sagt það áður að Sjálfstfl. hefur verið mjög farsæll í ákvörðunartökum sínum í utanríkismálum og alþjóðamálum og má þar benda á m.a. NATO, Sameinuðu þjóðirnar og EES.