Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:37:22 (6757)

2002-03-26 17:37:22# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki ljóst, eftir því sem ég hef lesið, að Norðmenn mundu frá úthlutun langt inn í framtíðina miðað við þá reynslu sem þeir höfðu á einhverjum ákveðnum tíma í veiðum innan lögsögu sinnar. Þannig er ekkert sem tryggir í sjálfu sér að í framtíðinni verðum við einir um að fiska í íslenskri landhelgi ef við göngum inn í Evrópusambandið. Ég hef ekki getað lesið það.

Ég skal samt ekki fullyrða um það. Ég held að þetta sé í algjörri óvissu. Meðan þetta er í svo mikilli óvissu er ekki hægt að halda neinu öðru fram en að þetta sé alla vega mjög óklárt.

Mér hefur verið sagt að kvótahoppið hafi verið gríðarlega mikið, m.a. hafi Spánverjar eignast 20% af öllum breskum kvóta til ráðstöfunar. Hvað þýddi það fyrir Íslendinga ef 20% af íslenskum botnfiskkvóta færðist yfir til annars lands? Það þýddi 80.000 tonn. Hvaðan ættum við að taka þau 80.000 tonn?

Það gefur augaleið að það yrði mikil blóðtaka ef svo færi. Ég er ekki nógu kunnugur þessu til að átta mig á því hvers vegna þetta gæti ekki orðið 80%, ef út í það væri farið.