Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:55:13 (6759)

2002-03-26 17:55:13# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort ég væri því sammála að Alþingi ályktaði um málefni Palestínu. Mér finnst sjálfsagt að Alþingi álykti um þau málefni sem Alþingi kemur sér saman um að álykta og ég veit að það er til umfjöllunar að álykta um málefni Palestínu og ég hef ekkert nema gott um það að segja að svo verði gert. Það hefur verið gert áður og ég tel að full ástæða sé til þess nú.

Að því er varðar heimboð til Ísraels og Palestínu þá komu í gær hugmyndir um dagsetningar í lok maímánaðar, sem að vísu verður akkúrat þegar hér verða kosningar sem ég tel nú ekki alveg heppilegt. Ég tel því að það yrði betra strax að loknum sveitarstjórnarkosningum hér á landi. Ég tel mig eiga erfitt með það sem formann stjórnmálaflokks að vera fjarverandi þegar sveitarstjórnarkosningar fara fram hér á landi. Ég er vanur að greiða atkvæði hér á landi og vil halda þeim sið.

Hins vegar er þetta til athugunar og ekki er meira um það að segja að svo komnu máli.

Að því er varðar bókun við varnarsamninginn þá hafa engar formlegar viðræður hafist milli aðila. Við bíðum átekta í þeim efnum. Það liggur ljóst fyrir hvað við Íslendingar viljum í sambandi við þau mál. Við teljum nauðsynlegt að hafa hér nánast óbreyttan varnarviðbúnað í landinu og höfum komið því skilmerkilega á framfæri. Hins vegar er ýmislegt að gerast í þessum málum sem væri vert að fara yfir. Af hálfu Bandaríkjamanna á sér stað endurskipulagning á þeirra skipulagi, skipulagi varnarmála sem getur haft veruleg áhrif hér á landi. En ég hef ekki tíma til að fara hér út í það á þessu stigi.