Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:58:45 (6761)

2002-03-26 17:58:45# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hér hafa um margt verið góðar og málefnalegar umræður í dag. En tíminn er takmarkaður og þess sér nú m.a. stað í því að t.d. Evrópuumræðan hefur kannski orðið meira um sjávarútveginn einan en ástæða væri til og efni standa til. Það er hins vegar ekki þannig að spurning um tengsl okkar við Evrópusambandið snúist bara um sjávarútvegsmál. Ég fór yfir og nefndi ein átta efnisatriði önnur sem skipta miklu máli. Ég nefndi landbúnað. Ég nefndi hagstjórn. Ég nefndi ferðaþjónustu og aðrar útflutningsgreinar sem tengdar eru gjaldeyrisskráningu. Ég nefndi tollmúra. Ég nefndi atvinnuöryggi og stöðugleika á vinnumarkaði. Ég nefndi lýðræði, spurningu um rétt fólks til að ákveða umhverfi sitt og um virkni og þátttöku í ákvörðunartöku. Og ég nefndi sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæðan samningsrétt. Við getum kallað það hluta af fullveldinu ef svo ber undir.

Varðandi hagstjórnina og gengisskráningu, vaxtaákvarðanir, peningastjórntæki, þá er það auðvitað þannig að það getur verið alveg jafnmikilvægt að gjaldmiðill geti styrkst, að vextir geti hækkað, að peningapólitíkin geti verið aðhaldssöm á þannig tímum eins og hitt að þetta geti gefið eftir og örvað allt efnahagslífið þegar það á við. Það má ekki bara horfa á þessa spurningu þannig að þetta snúist um að hægt sé að fella gengið. Það er enginn talsmaður þess og allra síst sá sem hér stendur að þetta eigi að vera til staðar bara til þess að hægt sé að fella gengið um einhverja tugi prósenta. Það er ekki svo.

En fram hjá hinu er ekki hægt að líta, og það verða talsmenn þess að taka upp evruna að taka með í reikninginn, að þetta verður ekki án fórna og án hættu því þá fara þessi sjálfstæðu stýritæki úr landinu í grófum dráttum og þá er fátt eftir sem getur tekið á sig sveiflurnar nema eftirspurnarstigið á vinnumarkaði. Ergo: Þetta vill leiða út í atvinnuleysi á tímum haglægða og öfugt. Þessu verða menn að svara.