Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:04:26 (6764)

2002-03-26 18:04:26# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég segi það eitt að þessi staða hefði auðvitað aldrei komið upp ef aðrir flokkar hefðu verið í ríkisstjórn. Hvers vegna? Vegna þess eins og ég sagði: Hæstv. utanrrh. varaði við því. Hv. þm. Jón Kristjánsson, þáv. formaður fjárln., varaði við því. Hver einasta sérfræðistofnun innlend og erlend varaði við því. Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa rætt um þetta mál vöruðu við því. Það lá bara í stöðunni að þetta mundi gerast.

Andvaraleysi, glannaskapur, aulaháttur. Menn geta valið þessu hvaða nöfn sem er, en fram kom hjá einum af gúrúum ríkisstjórnarinnar í þingmannaliðinu í dag að nauðsynlegt væri að hafa þetta til að geta gripið inn í þegar viðskiptahallinn væri orðinn slíkur til að bjarga málunum. Því hafna ég alfarið, herra forseti.

Ég tel að það séu vond rök að vilja hafa okkar litla hagkerfi einangrað með þeim hætti til að geta gripið til hagstjórnaraðgerða af þessu tagi sem flytja í reynd byrðarnar allar yfir á axlir almennings í landinu.