Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:05:46 (6765)

2002-03-26 18:05:46# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Oft getur verið erfitt að eiga í orðræðum við menn sem hafa yfirburðaþekkingu eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur í Evrópumálunum. Hann hefur lagt sig í líma við að benda áhorfendum á að Sjálfstfl. og þeir þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hafi ekki hundsvit á henni. Það er náttúrlega fallega sagt af hv. þm.

Aftur á móti eru þau rök sem liggja fyrir að aðild að Evrópusambandinu er augljós. Það getur hvaða maður sem er tínt þau til hér, hvort sem þau eru þrjú eða 30. Þau eru fjölmörg þannig að ég ætla bara að hafna þeim palladómum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson fellir um þingmenn Sjálfstfl. sem hafa tekið þátt í umræðunni. Umræða okkar hefur verið breiðari en svo að við höfum talað eingöngu um Evrópusambandið. Talað hefur verið um sjávarútvegsmálin í breiðum skilningi, enda er það sá höfuðatvinnuvegur sem skiptir okkur öllu.

Ég ætla ekki að tefja þetta meira, herra forseti. Ég vil benda á að ein helsta röksemdin sem mér fannst vera hjá hv. þm. og skiptir kannski öllu í hans huga er að Evrópusambandið væri vinalegur risi. Það er kannski það sem dugir, ég fer að halda það.