Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:07:34 (6766)

2002-03-26 18:07:34# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég horfi til Evrópusambandsins fer auðvitað ekki hjá því að við mér blasir að þar hafa menn verið að berjst fyrir félagslegum umbótum sem hafa m.a. leitt til þess að helstu félagslegu ávinningar seinni ára sem launafólk á Íslandi hefur fengið í sinn skerf eiga uppruna sinn hjá Evrópusambandinu. Hvers vegna? Vegna þess að því er stjórnað meira og minna af jafnaðarmönnum.

Ég sagði kannski ekki að hv. þm. Sjálfstfl. hefðu ekki hundsvit á þessum málum en mér finnst að sumir þeirra hafi orðið uppvísir að grófri vanþekkingu. Ég hef hlustað á tvo hv. þm. Sjálfstfl. hér og í sjónvarpi á síðustu dögum halda því fram að aðild að Evrópusambandinu mundi leiða til þess að togarar erlendra þjóða mundu koma hingað til Íslands. Nú er það svo að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins byggir á því sem sameiginlegt er, sameiginlegri nýtingu sameiginlegra fiskstofna innan sameiginlegrar efnahagslögsögu. Undir þessu er ákveðin kvótareynsla sem fótur. Málið er einfaldlega þannig að það er engin sameiginleg efnahagslögsaga, engir sameiginlegir stofnar og engin kvótareynsla sem menn hafa notað, t.d. í tilviki Norðmanna eða Spánverja. Það er einfaldlega þannig að ekkert ríki er á þessari kringlu sem í krafti þeirrar reynslu getur óskað eftir veiðiheimildum innan lögsögu okkar. Svo einfalt er það nú. Þetta er því ekkert annað en hrein og klár vanþekking en ég tek fram að ég er ekki að gera hv. þm. Kristjáni Pálssyni hana upp.

Þegar við höfum síðan ríki eins og Möltu og Noreg þá blasir við grundvallarmunur á stöðu þeirra og okkar. Hver er sá grundvallarmunur? Þessi ríki eiga bæði sameiginlega efnahagslögsögu með Evrópusambandinu og þess vegna hafa þau neyðst til þess að veita veiðiheimildir innan lögsögu sinnar.