Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:09:41 (6767)

2002-03-26 18:09:41# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekkert ríki heims í raun í sambærilegri aðstöðu og við, hvorki Malta né Bretar. Þess vegna er þetta miklu snúnara og erfiðara mál fyrir okkur heldur en nokkurn annan. Við erum búnir að rekja það allt saman.

Ég ætla að endingu minna á þetta svokallaða kvótahopp sem rændi Breta 20% af veiðiheimildum sjómannanna þar. Það var bara keypt yfir á næsta land. Það þótti náttúrlega ekkert allt í lagi en þetta gerðist. Það er ekkert sem ég hef séð sem bendir til þess að svona kvótahopp gæti ekki orðið ef við gengjum í Evrópusambandið. Ég hef alla vega ekki séð það. Hv. þm. getur kannski leiðrétt mig með það.

Ég er heldur ekki búinn að sjá að þetta geti ekki orðið miklu meira. Auðvitað hlýtur þetta að vera skoðað í ljósi þeirrar miklu umræðu sem hefur farið fram þannig að menn geti kannski rennt frekari stoðum undir þetta allt saman. En það er alveg augljóst að óvissan í kringum þetta mál og þeir samningar sem gerðir hafa verið eru þess eðlis að umsóknaraðild okkar að ESB er nánast óhugsandi.