Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:13:30 (6769)

2002-03-26 18:13:30# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þá ágætu umræðu sem átt hefur sér stað í dag um utanríkismál og almennt þann góða hug sem hér hefur komið fram í garð utanríkisþjónustunnar og þess starfs sem þar er verið að vinna. Ég tel að skýrslan sem telur tæpar 100 blaðsíður sýni mjög vel umfangsmikið starf utanrrn. og utanríkisþjónustunnar. Ég tel að þar hafi verið afskaplega vel unnið eins og hér hefur komið fram. Ég er afskaplega þakklátur fyrir að komið hafi fram skilningur og góður hugur í garð þess fólks sem vinnur fyrir okkar hönd á erlendum vettvangi og hefur skilað góðum árangri í gegnum áratugina.

Í dag hafa Evrópumál að sjálfsögðu komið til umfjöllunar. Ég gerði þau ekki sérstaklega að umræðuefni í ræðu minni heldur sjálfbæra þróun. Ég tel mikilvægt að skoða sjálfbæra þróun með hliðsjón af utanríkismálum og að sá málaflokkur sýni e.t.v. betur en margir aðrir hversu nátengd innanríkismál og utanríkismál eru. Þar er ekki lengur um aðskilnað að ræða vegna þess að það sem við köllum utanríkismál tengjast í mjög ríkum mæli öllum innanríkismálum okkar. Hið sama má segja um Evrópumálin. Auðvitað tengjast þau í mjög ríkum mæli nánast öllum málaflokkum sem við fjöllum um á Alþingi. Þar af leiðandi eru skilin á milli utanríkismála og innanríkismála ekki lengur fyrir hendi.

[18:15]

Hér hefur allmikið verið fjallað um evruna og hugsanleg áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf ef hún yrði tekin upp. Nú er það alveg ljóst í mínum huga og ég heyri að það er einnig ljóst öðrum hv. alþingismönnum að upptaka evrunnar hér á landi þýðir aðild að Evrópusambandinu. Á því er enginn vafi. Það er ekki hægt að taka upp evruna nema það komi til.

Það liggur náttúrlega ljóst fyrir að meginkosturinn við það að hafa sjálfstæðan eigin gjaldmiðil er að hægt er að bregðast við ytri aðstæðum og hægt að aðlaga gengi að ytri aðstæðum. Nú er það hins vegar svo að það er stefna Seðlabankans og þar með talið Íslendinga að genginu sé beitt þannig að verðbólga sé sem minnst og verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. Það þýðir að sjálfsögðu að menn eru að búa sig undir að halda þeim aga á okkar efnahags- og fjármálalífi að við getum viðhaldið því verðbólgustigi jafnvel þótt við verðum fyrir ytri áföllum. Með því er verið að segja að við viljum ekki beita gengisbreytingum til að mæta ávallt ytri aðstæðum.

Það er náttúrlega ljóst að meginókosturinn við að vera með eigin gjaldmiðil, lítinn gjaldmiðil, er sá möguleiki sem er fyrir hendi að breyta genginu og þar með getur það haft áhrif á tiltrú og aga í efnahagskerfinu. Það er t.d. alveg ljóst í mínum huga að til þess að viðhalda gengi íslensku krónunnar, eins og við munum að sjálfsögðu gera og nota tiltæk ráð, eru engar líkur til annars en við þurfum að búa við hærra vaxtastig en í evrulöndunum. Þetta er m.a. stutt af útreikningum Þjóðhagsstofnunar í þessu máli sem ég gerði nýlega að umræðuefni á iðnþingi.

Á tímum frjálsra fjármagnsflutninga --- það er að sjálfsögðu atriði sem skiptir miklu máli í þessu sambandi því að engar hömlur eru á fjármagnsflutningum til og frá landinu --- er fremur ólíklegt að margfalt stærri gjaldeyrisforði en Seðlabankinn ræður nú yfir megnaði alveg að sefa þann ótta sem ávallt er meðal aðila um að gengisbreyting geti átt sér stað og það muni þess vegna ekki draga úr þessum vaxtamun. Þetta eru staðreyndir sem öll lítil hagkerfi þurfa að búa við. Meira að segja norska hagkerfið býr við þessar aðstæður. Svissneska hagkerfið gerir það ekki vegna þess að svissneski frankinn hefur um svo langan tíma verið alþjóðlegur gjaldmiðill.

Af því að við tölum um atvinnustigið í þessu sambandi þá hefur það verið rætt að líklegt sé að upptaka evrunnar þýddi miklu meira atvinnuleysi. Nú er náttúrlega ljóst að það skiptir miklu máli á hvaða tímapunkti slík breyting ætti sér stað. Á Bretlandi er t.d. talið að Bretar geti ekki gerst aðilar að evrunni um þessar mundir vegna þess hve gengi breska pundsins er hátt og það væri mikið glapræði fyrir Breta að ganga inn í samstarfið á þeim tímapunkti. Það er náttúrlega alveg jafnljóst að það hefði verið mikið glapræði af hálfu Íslendinga að ganga inn í slíkt samstarf þegar gengi íslensku krónunnar var afskaplega hátt og engin leið að verja slíka ákvörðun.

Hins vegar er líka ljóst að hærri fjármagnskostnaður og meiri óvissa dregur úr fjárfestingu og minni fjárfesting eykur möguleika á atvinnuleysi. Meiri fjárfesting verður til þess að atvinnustig verður almennt hærra. Hér um afskaplega flókið mál að ræða. Það eru engar einfaldar lausnir í því. Evran sem slík er engin lausn á íslenskum efnahagsmálum eða á framtíð Íslendinga. Þar spila mjög margir þættir inn í og við skulum fara varlega í að líta á upptöku hennar sem einhverja töfralausn.

Hins vegar er jafnframt ljóst í mínum huga að fjármagnskostnaður í litlu hagkerfi verður ávallt hærri en í stóru hagkerfi. Nú kann svo að vera að önnur atriði séu þess valdandi að rétt sé að sætta sig við það. Auðvitað þarf að vega það og meta. Það er líka ljóst að fjármagnskostnaður hefur mikið að segja í vöruverði. Vöruverðið myndast að nokkrum hluta vegna fjármagnskostnaðarins. Þetta eru atriði sem verða áfram til umræðu. Mér finnst nauðsynlegt að menn velti þeim fyrir sér. Hins vegar er rétt að hafa í huga að slíkt tengist þátttöku í þessu samstarfi í miklu ríkari mæli en er í dag. En það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að evran var tekin upp vegna innri markaðarins. Við erum fullir þátttakendur í innri markaðnum og evran hefði aldrei verið tekin upp nema vegna þess að þessar þjóðir starfa sameiginlega á innri markaði. Það hefur líka mikil áhrif í þessu sambandi hvaða ákvörðun Bretar, Danir og Svíar taka, en ekkert bendir til annars en þessar þjóðir stefni að því að verða fullgildir aðilar að þessu samstarfi.

Vegna umræðna um sjávarútvegsmálin vil ég aðeins vísa til þess sem ég hef sagt um þau mál. Ég er oft spurður um hver sé ástæðan fyrir því að Íslendingar geti ekki eða hafi ekki viljað gerast aðilar að Evrópusambandinu. Svarið er m.a. sjávarútvegsmál. Auðvitað spila ýmis önnur mál þar inn í, t.d. umræðan um fullveldi og sjálfstæði, landbúnaðarmál og ýmis önnur mál sem ég ætla ekki að fara út í hér. En menn vilja gjarnan vita hvað þurfi að koma til til þess að viðunandi lausn geti átt sér stað í þessu máli.

Hér hefur verið vitnað til Möltu. Malta er allt annað dæmi en Ísland. Malta er í Miðjarðarhafinu og landhelgin í kringum Möltu er ekkert sambærileg við landhelgina í kringum Ísland. Miðjarðarhafið er innhaf og þannig vill til að Möltubúar settu sér ákveðin samningsmarkmið í samningum sínum við Evrópusambandið. Þeir náðu þeim fram. Samningsmarkmið þeirra eru að sjálfsögðu allt önnur en Íslendingar kæmu til með að hafa.

Þess ber líka að geta að sjávarútvegur á Möltu er á engan hátt samsvarndi við sjávarútveg á Íslandi. Hann skiptir ekki eins miklu máli í þeirra þjóðarbúskap. Ég vil því ekki draga einhverjar ályktanir af því máli. Hins vegar er nauðsynlegt að taka fram í allri þessari umræðu að undanþága, bein undanþága frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, er eitthvað sem Evrópusambandsríkin hafa ekki léð máls á, a.m.k. ekki þegar ég hef spurt um það. Það þarf útfærslu á málum innan þessarar stefnu. En það þarf líka að taka það fram að Rómarsáttmálanum hefur verið breytt með Maastricht --- með Amsterdam --- og með aðildarsamningum margra ríkja sem eru viðbót við Rómarsamninginn. Það er að sjálfsögðu mögulegt að gera samninga sem ekki eru í samræmi við samninginn sem kenndur er við Róm því að honum hefur oft verið breytt.

Ég hef sett fram hugmyndir um hvernig hugsanlegt væri að slíkt gæti litið út innan sameiginlegu fiskveiðistefnunnar. Þar er um tvö lykilatriði að ræða, þ.e. hvað sé sameiginlegt og hvernig eigi að skilja orðið ,,sameiginlegt`` í þessu sambandi. Í þessari stefnu var ekki miðað við lönd eins og Ísland, enda eigum við í sáralitlum mæli sameiginlega fiskstofna með Evrópusambandinu. Síðan er það þróun nálægðarreglunnar sem er verið að taka inn í stofnskrá eða stjórnarskrá Evrópusambandsins, hvað sem á nú að kalla hana, sem gengur út á að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim sem við þær eiga að búa. Það þýðir náttúrlega að dregið verður úr miðstýringu, dregið úr ákvörðunum sem teknar eru fyrir hönd allra í Brussel eða hvar svo sem það er og það í auknum mæli fært út til ríkjanna, út til héraðanna. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þessi umræða og þessi stefnumörkun verður útfærð, en nú þegar er farið að taka tillit til þessa máls í dómum Evrópudómstólsins. Með þessu verður að sjálfsögðu mjög fróðlegt að fylgjast.

Herra forseti. Tími minn er þrotinn. Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir þessa umræðu. Það er ánægjulegt að þrátt fyrir allt ríkir mikil samstaða um grundvallaratriði íslenskrar utanríkisstefnu.