Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:31:05 (6771)

2002-03-26 18:31:05# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar afstöðu Danmerkur, Svíþjóðar og Bretlands upplifi ég ekki umræðuna þannig að hún sé fyrst og fremst pólitísks eðlis. Auðvitað er hún að einhverju leyti pólitísks eðlis og alls ekki efnahagslegs eðlis nema að því leytinu til að hér er um mikilvægt samkeppnismál að ræða, þ.e. fyrirtæki sem starfa í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi þurfa að standast samkeppni annarra fyrirtækja á innri markaðnum.

Það liggur alveg ljóst fyrir, t.d. að því er varðar Bretland þar sem ég hef fylgst með umræðum, að ýmis alþjóðleg fyrirtæki sem starfað hafa í Bretlandi, t.d. japönsk, hafa látið í það skína að ef Bretar taki ekki upp evruna verði þau að flytja starfsemi sína vegna þess að kostnaður sé meiri í Bretlandi en annars staðar á evrusvæðinu. Þetta er líka það sem Danir og Svíar óttast, kannski með sama hætti og Svíar óttuðust að ef þeir gengju ekki í Evrópusambandið mundu þeir missa úr landi mörg alþjóðleg fyrirtæki sem starfa í Svíþjóð, og sú umræða á sér enn stað að ef þessi fyrirtæki séu ekki samkeppnishæf og þurfi að starfa á öðrum grundvelli en önnur fyrirtæki á innri markaðnum lendi þau í verulegum erfiðleikum. Að þessu leytinu til held ég að þetta mál sé umfram allt samkeppnismál, samkeppnismál milli fyrirtækja og samkeppnismál meðal þeirra þjóða sem starfa á innri markaði Evrópu.