Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:54:35 (6784)

2002-03-26 18:54:35# 127. lþ. 105.10 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið hyggilegt að gera það jafnvel enn betur. Mönnum hefur nú tekist að misstíga sig í hinum varkáru skrefum. Einkavæðing Landssímans hefur nú ekki gengið svo glæsilega. (Utanrrh.: Hefur þú aldrei misstigið þig þó ...) Jú, en það á nú að vera minni hætta á því, hæstv. ráðherra, ef maður gengur varlega, ef maður stígur varlega til jarðar og þreifar fyrir sér í hverju skrefi. Mér fannst hæstv. ráðherra eiginlega vera að lýsa því yfir að það hefðum við (Utanrrh.: ... oft þannig.) Íslendingar gert. En okkur hefur nú samt tekist að misstíga okkur.

Svo er ég tilbúinn til þess að bjóða hæstv. ráðherra út að hlaupa hvenær sem er og við munum örugglega klára það án þess að detta á hausinn.

Ég held að það sé nú rétt að gera skýran greinarmun á annars vegar einhverri einkarekstrarþróun á sviði viðskipta sem ríkisstjórnir eða ríkisfyrirtæki í einstökum löndum eru að sleppa lausri og hinu að hér var um að ræða alþjóðasamstarf á vegum hins opinbera, merkt og ágætt alþjóðasamstarf á sviði fjarskipta. Þetta var samstarfsvettvangur þjóðanna. Þetta var eftirlitsaðili með vissum hætti og svo ákveðinn framkvæmdaraðili eða stóð fyrir ákveðnum rekstri, ákveðinni uppbyggingu, ákveðinni fjárfestingu.

Ég tel að mjög gild rök þurfi til þess að leysa slíkt upp eða sundra því. Í öllu falli sýnist mér ljóst að það geti skapað ýmis vandamál, tímabundin ef ekki varanleg, samanber það að menn setja á fót eftirlitsstofnun og segja sem svo að það verði nú að reka hana a.m.k. enn um sinn, kannski í 12 ár, og að svo eigi að sjá til, af því að menn viðurkenna í raun að þarna eru þættir á ferðinni sem er ekkert tímabært eða mögulegt að setja í hendur einkaaðila. Það er glórulaust.

Ég er fyrst og fremst að tala fyrir og biðja um, svo ég noti nú orð sem kom við sögu hér fyrr í dag, ,,ofstækislaust viðhorf`` í þessum efnum, þ.e. að menn blindist ekki af einhverri einkavæðingarþráhyggju.