Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 19:03:19 (6788)

2002-03-26 19:03:19# 127. lþ. 105.13 fundur 636. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál. 17/127, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál vegna setu minnar í hv. umhvn. Eins og fram kemur í greinargerð tillögunnar lagði hæstv. umhvrh. í fyrra fram frv. til laga um úrvinnslugjald en það náði ekki fram að ganga. Nú hafa greinilega orðið nokkrar breytingar í nálguninni við þetta mál hjá hæstv. ríkisstjórn og mér sýnist að þrjú ráðuneyti komi hér við sögu, umhvrn. sem í samráði við fjmrn. hefur ákveðið að skipa nefnd sem hefur fengið það hlutverk að vinna tvö frv., annars vegar um úrvinnslugjald, spilliefnagjald og skilagjald sem lagt yrði þá fram af hálfu hæstv. fjmrh., og hins vegar um skipulag og framkvæmd þessara þátta sem lagt yrði fram af hæstv. umhvrh. Einnig er á það bent að ökutækjum þarf samkvæmt tilskipuninni að fylgja sérstakt eyðingar- og endurvinnsluskírteini. Slíkt skírteini yrði þá gefið út af dómsmrn. Ég kem hingað einvörðungu til að vekja athygli á því, herra forseti, að í þessu máli er greinilega þó nokkur vinna eftir við nauðsynlega lagasetningu sem þessi tilskipun kveður á um, og hér kemur fram að um þetta er gefinn stjórnskipulegur fyrirvari af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hins vegar er alveg ljóst að við munum ekki vera innan tímamarka í þessu máli og held ég að það sé mjög brýnt að undirbúningi verði flýtt eins og verða má í umhvrn., fjmrn. og dómsmrn. þannig að ákvæði tilskipunarinnar geti sem fyrst gengið í lög, helst á þessu ári, enda sýnist mér, hæstv. forseti, að hér sé um þjóðþrifamál að ræða.