Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:50:46 (6799)

2002-04-03 10:50:46# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er búið að skýra afstöðu Norsk Hydro mjög vel í þinginu. Hæstv. iðnrh. hefur farið mjög vel yfir það mál, og allar þær upplýsingar sem við þurfum að hafa til þess að halda málinu áfram liggja alveg fyrir. Það liggur fyrir að hér er um mjög arðsama framkvæmd að ræða. Virkjunin er afar arðsöm og því er mjög nauðsynlegt að ljúka afgreiðslu þessa máls í Alþingi til þess að hægt sé að halda áfram að vinna málið. Menn verða að vita nákvæmlega hvað liggur fyrir þegar leitað er nýrra fjárfesta í álveri. Eins og kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, hefði afstaða hennar sem situr í hv. iðnn. og afstaða þingmanna Samfylkingarinnar til málsins ekki verið önnur þó að þessar upplýsingar hefðu legið fyrir þegar málið var afgreitt úr nefnd.

Ég held að þetta sé afstaða manna almennt í þinginu, hv. þingmanna, þannig að nú liggi ekkert annað fyrir en ljúka afgreiðslunni og þannig getum við flýtt fyrir því að þetta stóra og mikla verkefni geti orðið að veruleika sem fyrst.