Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 13:31:00 (6804)

2002-04-03 13:31:00# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (frh.):

Herra forseti. Það var ekki langt eftir af máli mínu. Ég hafði nýlokið við að vitna í orð fyrrv. hæstv. umhvrh., Júlíusar Sólnes, og Ólafs Jóhanns Ólafssonar skálds, þegar hlé var gert á fundi. En í hinu eiginlega niðurlagi langar mig til að hnykkja á því sem ég áður hef sagt um spurninguna um það hvort vatnsorka og nýting hennar á þeim nótum sem hér er um fjallað sé í raun sjálfbær nýting eða ekki.

Þannig háttar til, herra forseti, að á síðasta ári skilaði vinnuhópur á vegum Norðurlandaráðs af sér skýrslu undir fyrirsögninni ,,Vatnsorka -- minna umhverfisvæn``. ,,Betri verndun vatnsfalla á Norðurlöndum``, heitir skýrslan. Það birtist frétt um þessa skýrslu í Morgunblaðinu 18. janúar sl. og í henni segir, með leyfi forseta:

,,Vinnuhópur á vegum Norðurlandaráðs segir að bygging vatnsorkuvera hafi valdið vatnakerfum í norrænum byggðum meiri skaða en nokkuð annað. Sé það þverstæða staðhæfinga um að vatnsorka sé hreinn og umhverfisvænn orkugjafi.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Í fréttinni er þess getið að ætíð hafi áform um byggingu vatnsorkuvera leitt til mikla deilna. Virkjun árinnar Alta í byrjun níunda áratugarins hafi hleypt afar illu blóði í Sama og Norðmenn og komið hafi til umfangsmikilla mótmæla gegn framkvæmdunum. Hafi þær markað vatnaskil í norskum umhverfismálum og í millitíðinni hafi mörg vatsnföll verið vernduð á Norðurlöndunum öllum.

Vinnuhópurinn`` --- sem ritaði þessa skýrslu: ,,Betri verndun vatnsfalla á Norðurlöndum`` --- ,,leggur til í skýrslu sinni að einstök Norðurlönd setji strangari reglur um verndun einstakra vatnsfalla.``

Herra forseti. Ég tek undir þá kröfu. Ég tel að það sé fulltímabært á Íslandi að fjalla um verndun vatnsfallanna og þess vegna hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagt ofuráherslu á það að mönnum sé gefinn tími og svigrúm til að vinna rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þar sem verndarsjónarmiðum verða gerð skil og það verður ákveðið til langs tíma í hvað við ætlum að nýta orkuna sem fólgin er í vatnsföllunum og hvaða vatnsföllum við ætlum að fórna til þeirrar nýtingar.

Herra forseti. Vegna þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór um það í ræðu sinni nokkrum orðum hvernig stefna Framsfl. í þessum málum hefði verið á árum áður þegar fyrstu stóriðjusamningarnir voru að koma til sögunnar þá langar mig í niðurlagi máls míns að vitna í grein sem Eysteinn Jónsson, fyrrverandi hæstv. ráðherra og alþingismaður, skrifaði í Tímann sunnudaginn 24. apríl árið 1977. Þar skrifaði Eysteinn Jónsson undir fyrirsögninni ,,Iðnþróun, náttúruvernd, orkustefna``, um ný sjónarmið í umhverfismálum, um nýtt verðmætamat fólks og um iðnrekstur sem hann vildi að væri í höndum Íslendinga sjálfra en ekki útlendinga. Hann skrifaði um orkustefnu og úttekt á vatna- og jarðhitasvæðum, einhvers konar forvera rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Eysteinn Jónsson mælti í þessari grein, herra forseti, af miklum stórhug og ég verð að segja á aðra lund heldur en hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Framsfl. gera í dag. (SJS: Hvar eru þeir? Er ekki ástæða til þess að fá þá hingað í salinn?) Það væri gaman, herra forseti, ef ráðherrar Framsfl. væru hér til að hlýða á orð síns gamla leiðtoga, Eysteins Jónssonar. Í þessari grein, sem er 30 ára gömul en á fullt erindi við okkur og kannski ekki síst framsóknarmenn í dag, segir, með leyfi forseta:

,,Er það t.d. raunsætt að gera ráð fyrir að fylla vatni ýmsar mestu lægðir á hálendinu á stórum landsvæðum, en þar er gróðurinn og dýralífið mest, eða flytja stórfljót milli byggðarlaga o.s.frv.? Ég held ekki.`` --- Þetta segir Eysteinn Jónsson 1977, og hann heldur áfram, herra forseti: ---- ,,Áreiðanlega hafa menn ekki enn getað áttað sig á hvað af þess háttar gæti leitt í landspjöllum, t.d. ágangi vatns, veðurfarsbreytingum o.fl. Hér er því brýnt að fara með gát. Og í hvaða skyni ætti að færa slíkar fórnir, umturna landinu með þvílíku móti? Til þess að koma upp orkufrekum iðnaði útlendinga?`` --- spyr Eysteinn Jónsson, herra forseti. --- ,,Ekki geri ég ráð fyrir að landsmenn vilji það í raun og veru.

En þá er líka vissara að kryfja þessi mál til mergjar í tæka tíð og taka þá með í reikninginn að okkur ber skylda til að koma barnabörnum okkar eða þeirra börnum ekki í þá klípu að þau telji sig tilneydd að vinna stórskemmdir á landinu til þess að afla sér orku í lífsnauðsyn.``

Herra forseti. Undir þessi orð er rétt að taka hér úr ræðustóli Alþingis 2002 þegar Alþingi með forustu Framsfl. í broddi fylkingar er að vaða út í það fen sem ég hef lýst í ræðu minni í umfjöllun um þetta mál. Ætlum við sem nú sitjum sem fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga að heimila viðskrh. að gefa út leyfi til að hefja framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun, virkjun sem veldur meiri spjöllum á verðmætri náttúru Íslands en nokkur önnur framkvæmd í sögunni, virkjun sem Skipulagsstofnun hefur lagst gegn að reist verði vegna gífurlegra óafturkræfra umhverfisáhrifa, virkjun sem svindlað hefur verið í gegnum framhaldsmat á borði hæstv. umhvrh. sem með pólitískri valdbeitingu ógilti úrskurð Skipulagsstofnunar, virkjun sem er úr öllu korti miðað við gildandi skipulag miðhálendisins og eyðir auk þess stórum hluta friðlýsts svæðis á Kringilsárrana, virkjun sem 1997 var hugsuð sem einkaframkvæmd á forsendum lögmála markaðarins en hefur nú verið breytt í rándýra ríkisframkvæmd, virkjun sem er langt frá því að geta talist arðbær framkvæmd ef allir þættir eru reiknaðir inn í stofnkostnað hennar, virkjun sem enginn veit í dag hvort nokkurn tíma verður hægt að selja orkuna úr, virkjun sem eyðileggur möguleika okkar eða barnanna okkar á að stofna metnaðarfullan þjóðgarð elds og ísa, þann stærsta í Evrópu, þjóðgarð sem gæti verið lyftistöng atvinnulífs um langa framtíð? Herra forseti. Ég segi nei. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð segir nei. Við viljum bjarga framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls, ekki farga. Við viljum fjölbreytt gróskumikið atvinnulíf í landinu sem byggir afkomu sína á náttúruauðlindum landsins um langa framtíð, ekki með þau skammtímasjónarmið að leiðarljósi sem einkenna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að náttúruauðlindum sem felast í vatnsföllunum sé fórnað og lifað á leifum þeirra um stutt skeið. Slíka stefnu getur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ekki stutt. Sýn okkar á framtíðina leyfir það ekki, herra forseti.