Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:10:43 (6810)

2002-04-03 14:10:43# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Eitt er afstaða manna til mála, og þá er það eins og gengur að stjórnarandstöðuflokkar í heild eða hver í sínu lagi styðja iðulega talsvert af málum frá ríkisstjórnum og það er alþekkt. Það hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ekkert síður gert en aðrir flokkar. Við studdum t.d. að mestu leyti nýlegt fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar þegar Samfylkingin sat öll hjá eins og hún lagði sig allan tímann svo nýlegt dæmi sé tekið.

Annað er það, herra forseti, að stjórnarandstaða er almennt í því hlutverki að veita ríkisstjórn og meiri hluta aðhald, að halda þeim við efnið í sambandi við vinnubrögð, að taka upp hanskann fyrir þingið og verja stöðu þess gegn ásælni framkvæmdarvaldsins. Það hefur verið ömurlegt upp á að horfa hvernig Samfylkingin hefur ekki látið sér nægja, sá hluti hennar sem ætlar að styðja málið, að gera það heldur hleypur til varnar ámælisverðum vinnubrögðum ríkisstjórnar, ráðherra og meiri hlutans hér á þingi og lætur sér fátt um finnast þó að þingnefndir séu leyndar upplýsingum o.s.frv. Það var sú stjórnarandstaða, ef stjórnarandstöðu skyldi kalla, sem ég er m.a. að tala um, herra forseti.