Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:41:17 (6828)

2002-04-03 17:41:17# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef verið borin þungum sökum af hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hann hefur farið hér með rangt mál þegar hann segir að ég hafi staðfest að þingnefnd hafi verið leynd upplýsingum vegna þess að það er ekki rétt. Ég er nokkuð oft búin að greina þinginu frá því hvert þetta ferli var og er sem hér er til umfjöllunar. Sá tímapunktur sem hv. þm. vitnar til að nefndarfundur hafi verið haldinn í efh.- og viðskn. og að upplýsingar hafi ekki borist um að efasemdir væru uppi um að Norsk Hydro ætlaði að standa við tímasetningar var mjög viðkvæmur. Hér erum við að fjalla um mjög viðkvæmt mál og á þeim tíma þegar sá nefndarfundur var haldinn var ekki hægt að ætlast til þess að þingnefnd, eða hv. Alþingi, sé gerð nákvæm grein fyrir stöðu mála. Einfaldlega vegna þess að málið er viðkvæmt og fleiri samtöl eiga eftir að eiga sér stað við forsvarsmenn þessa fyrirtækis. Fyrirtækið hefur haldið því fram, bæði í íslenskum fjölmiðlum og eins við mig sem ráðherra, að engin ákvörðun hafi verið tekin um breytingar en hins vegar séu uppi efasemdir um að hægt sé að standa við ákveðnar tímasetningar. Hv. þm. hefur því farið með rangt mál og þess vegna vildi ég, hæstv. forseti, fá að koma hingað og bera af mér sakir.