Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:47:46 (6830)

2002-04-03 17:47:46# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta og formönnum þingflokka fyrir að hafa greitt fyrir því að þetta mál fengi að koma hér á dagskrá með afbrigðum þeim sem afgreidd voru áðan. Eðli málsins samkvæmt er brýnt að mál sem þetta fái skjóta afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Frv. sem ég mæli fyrir er um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., en í frv. er lagt til að gerð verði breyting á hinu almenna vörugjaldi af eldsneyti til lækkunar um 1,55 kr. á hvern lítra af bensíni.

Eins og margir í salnum muna eflaust var gerð sú kerfisbreyting á haustdögum 1999 að horfið var frá hlutfallslegri skattlagningu í vörugjaldi á bensíni, sem áður var 97 af hundraði, yfir í fasta krónutölu, 10,50 kr. pr. lítra. Þá var talið að slík aðgerð væri nauðsynleg til að draga úr sveiflum í bensínverði innan lands sem væru ærnar á heimsmarkaði þó að prósentuálagning skatta magnaði ekki þá breytingu hverju sinni, hvort heldur væri til hækkunar eða lækkunar.

Þessi skattlagning, 10,50 kr. á hvern lítra, hefur staðið óbreytt frá því þessi breyting var gerð en með þessu frv. er lagt til að skatturinn lækki niður í 8,95 kr. á hvern lítra til loka júnímánaðar næstkomandi. Ástæðan fyrir því að hér er lögð til tímabundin breyting er sú að verð á bensíni hefur farið hækkandi á heimsmarkaði og það er ljóst að áhrif slíkrar hækkunar á bensínverð hér innan lands geta verið umtalsverð og hugsanlega stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu. Þess vegna ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir þessari lækkun í trausti þess að olíufélögin mundu með sama hætti leggja sitt af mörkum í þessu máli. Það reyndist rétt því olíufélögin ákváðu um þessi mánaðamót að hækka ekki bensínverðið.

Á þessum árstíma er það gjarnan þannig að bensín hækkar á heimsmarkaði en lækkar síðan þegar líður fram á vorið og sumarið, og hér er í raun lagt til að væntanleg lækkun sé tekin út fyrir fram þannig að minni sveiflur verði hér í bensínverði. Þar með verður hvorki hækkun nú né sú lækkun sem vænta mætti þegar þar að kæmi. Auðvitað má segja að með þessu sé verið að taka ákveðna áhættu. Við vitum ekki fyrir víst að bensín muni lækka en ákveðin reynsla segir okkur það samt. Hins vegar eru óvissutímar á alþjóðavettvangi sem geta gert það að verkum að sú spá rætist ekki. Við þurfum að taka afstöðu til þess þegar þar að kemur, í lok þessa tímabils, hvort forsendurnar hafi staðist.

Við teljum að þessi lækkun vörugjaldsins sem mun koma í veg fyrir hækkun útsöluverðs um 1,90 kr. muni kosta ríkissjóð á tímabilinu um 80 millj. kr. Við teljum verjandi að ráðstafa fjármunum með þeim hætti í þeirri baráttu sem hér er háð við verðbólguna og til að tryggja verðlagsmarkmið kjarasamninganna.

Þetta er í örstuttu máli, herra forseti, kjarni þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Þetta er ekki stórt frv. eða flókið en vegna eðlis þess er brýnt að það fái hér skjóta afgreiðslu eins og ég gat um til að þau áhrif sem hér er um að ræða skili sér sem fyrst inn í það kerfi sem ríkjandi er varðandi þessa gjaldtöku.

Ég legg þess vegna til, herra forseti, að frv. verði að 1. umr. lokinni vísað til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr. og geri mér góðar vonir um að samstaða geti orðið um að afgreiða þetta mál mjög hratt í þinginu.