Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:00:38 (6833)

2002-04-03 18:00:38# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[18:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum greiða fyrir því að þetta mál fái skjóta umfjöllun hér á Alþingi. Gerðar hafa verið breytingar á þessum lögum. Það er ekki svo ýkja langt síðan. En sú var tíðin að almennt vörugjald af bensíni var hlutfall af olíuverðinu þannig að tekjustreymið til ríkissjóðs sveiflaðist í takt við sveiflur á olíu á heimsmarkaði og þær sveiflur geta verið talsverðar eins og við þekkjum. Í gær bárust fréttir af því að verð á olíutunnunni hefði hækkað um hálfan annan dollar, hefði hækkað um 4%. Ég tel að það hafi verið skynsamleg ákvörðun á sínum tíma að færa vörugjaldið úr prósentugjaldi yfir í fasta krónutölu.

Nú er gerð tillaga um að lækka þessa krónutölu og enn er skírskotað til sveiflunnar. Hæstv. ráðherra bendir okkur á að á þessum tíma árs gerist það iðulega að olían hækki í verði, en þegar líður á sumarið þá fari það lækkandi og nú vilji menn taka á þessum kúf og vonist til þess að þegar fram líða stundir og líður fram á sumarið þá muni verðlagið að nýju fara lækkandi.

Ég held að sé rétt sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að vegna ástandsins í heimsmálunum og í ljósi þeirra yfirlýsinga sem komið hafa frá olíuframleiðsluríkjunum í hinum íslamska heimi þá geti allt gerst hvað þetta snertir, enda lagði hæstv. fjmrh. jafnframt áherslu á það í sínu máli að þarna væri mikil óvissa á ferðinni.

Eitt sem ég tel ástæðu til að leggja áherslu á er hvaða afleiðingar verðbreytingar af þessu tagi hafa á stöðu ríkissjóðs. Hér erum við að tala um tímabundna aðgerð, ákvörðun sem tekur til fáeinna mánaða, til júníloka mun það vera. En tekjur ríkissjóðs munu rýrna af þessum sökum um 80 millj. kr. Mér finnst því ástæða til þess að hafa þennan tíma ekki lengri en gert er ráð fyrir í frv. Þá horfi ég til stöðu ríkissjóðs, en ég er í hópi þeirra sem reisi talsvert háar kröfur á ríkissjóð, m.a. í þessum sal, um að standa myndarlega að margvíslegri þjónustustarfsemi sem er á ábyrgð hans.

Annað atriði sem mér finnst vert að íhuga er að þótt menn séu allir af vilja gerðir að komast undir hin rauðu strik sem svo eru nefnd og kjarasamningarnir hvíla á, þá megi þeir gæta sín á því að fara ekki út í hina gömlu vísitöluleikfimi eins og við þekktum fyrir tveimur áratugum eða svo. Í því sambandi nefni ég að Alþingi hafði heimilað hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins ekki fyrir svo ýkja löngu og okkur var lofað því sem gengum eftir því gagnvart fulltrúum ríkissjóðs, hæstv. fjmrh., held ég hafi verið, eða öðrum fulltrúum ríkisstjórnarinnar, að Ríkisútvarpinu yrði bætt þetta upp með fjárframlagi þar til afnotagjaldið yrði hækkað. Það hefur ekki komið til framkvæmda. Afleiðingarnar hafa orðið niðurskurður og uppsagnir hjá Ríkisútvarpinu. Það er þetta samhengi sem ég vil leggja áherslu á að við höfum jafnan í huga, að þegar við skerðum tekjur ríkissjóðs þá reiðum við niðurskurðarsveðjuna jafnframt til höggs. Þetta er atriði sem ég vildi leggja áherslu á.

Og meðal annarra orða, var ekki verið að birta tölur hagnaðartölur olíufélaganna nýlega? Voru þau svo óskaplega illa haldin? Er þeim einhver sérstök vorkunn þótt þau leggi meira af mörkum til að færa niður verð á olíu og bensíni en þau hafa lýst yfir vilja til.

Þessir þættir verða væntanlega til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þingsins sem fær þetta frv. til skoðunar að lokinni þessari umræðu.

Að lokum er eitt um handaflið og verðlagið. Ég er einn af þeim sem er svolítið gefinn fyrir handafl gagnvart verðlaginu og tel mjög mikilvægt að þjóðfélagið sameinist um að ná verðlagi niður, að koma böndum á verðbólguna, vegna þess að verðbólga er ávísun á kjararýrnum hjá því fólki sem býr við fasta launataxta. Það er því mjög mikilvægt markmið að þjóðin öll sameinist um að ná slíku fram. En við megum í þeirri viðleitni gæta okkar á því að einblína ekki á hitamælinn heldur skoða hitastigið í herberginu. Ef við förum að fúska með vísitöluna er hætt við því að einmitt þetta gerist og að gripið verði til ráðstafana sem miðist einvörðungu að því að hafa hemil á mælingu vísitölunnar en ekki verðlaginu almennt.

Það er það sem máli skiptir, verðlagsþróunin almennt, en ekki einvörðungu mælingin og alls ekki mælingin á þessu verðlagi. Sú mæling þarf að vera raunhæf. Mér finnst því miður margt hafa komið fram sem bendir til þess að menn séu að teygja sig aftur til áranna upp úr 1980 hvað þetta snertir. Sú var tíðin að bökurum var sagt að öll brauð mættu hækka nema franskbrauð og normalbrauð vegna þess að það voru brauðin sem voru inni í vísitölunni. Hitt rauk allt upp í bakaríunum. En þessi brauð stóðu ein í stað. Við eigum að forðast að fara út á þessa braut.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frv. Við munum greiða fyrir því að það fái skjóta en að sjálfsögðu vandaða umfjöllun hér í þinginu.