Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:19:59 (6836)

2002-04-03 18:19:59# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[18:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðasta atriðið sem hæstv. ráðherra nefndi, þær gjaldtökur sem út af standa og ekki hafa enn komin til framkvæmda en eru fyrirhugaðar og ráðherrann hefur ekki alveg á reiðum höndum hér, óska ég eftir að ráðherrann hlutist til um að það verði lagt fyrir nefndina sem kemur saman á eftir. Þar þyrftu menn að sjá hvað stendur út af og efh.- og viðskh. getur þá metið það, af því að við erum hér að tala um þessa lækkun á bensíni með tilliti til þess að geta haldið okkur innan rauðu strikanna. Þess vegna er eðlilegt að nefndin fái allt sem hugsanlega gæti verið uppi á borðum um hækkanir á gjöldum, hvers konar gjöldum, síðar á árinu. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að það liggi fyrir nefndinni nú á eftir.

Varðandi heimildarákvæðið til lækkunar sem ráðherrann mótmælir ekki en dregur í efa að standist, væntanlega stjórnarskrána, ætla ég ekkert að deila við hæstv. ráðherra hér úr ræðustólnum. Við munum væntanlega skoða það í efh.- og viðskn. En ég held að slíkt ákvæði sé með öðrum hætti en hæstv. ráðherra nefndi. Slík heimild mundi hafa lagastoð í ákvæði til bráðabirgða miðað við að tilteknar aðstæður væru uppi. Þá hefði Alþingi veitt ríkisstjórninni heimild til að framlengja þessa lækkun miðað við að tilteknar aðstæður væru fyrir hendi. Það þarf bara að skoða í nefndinni hvort það gangi gegn stjórnarskránni. Ef svo reynist ekki vera tel ég fulla ástæðu til, herra forseti, að skilja ekki málið eftir í þeirri óvissu að olíufélögin geti haft málið í sinni hendi og náð aftur þeirri lækkun sem þeir eru að boða núna. Gildistími þessa vörugjalds yrði þannig lengri en til loka júni, jafnvel til áramóta.