Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:26:57 (6838)

2002-04-03 18:26:57# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Kannski mundu einhverjir halda sem fylgst hafa með umræðum á hinu háa Alþingi um þetta mál að umræðan um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun væri tæmd. Ég tel þó svo ekki vera og ætla að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins í eins stuttu máli og mér er unnt. En áður en ég hef mál mitt vil ég þó gera athugasemd við ummæli sem féllu hér fyrr í dag.

Svolítils misskilnings gætti í andsvari frá formanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafði einhverjar áhyggjur af því að fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. iðnn. beittu sér ekki sem skyldi, en ég vil halda því til haga að fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn. báðu sérstaklega á fundi í morgun um fundi sem haldnir verða í fyrramálið og einnig í efh.- og viðskn. vegna málsins og vegna þeirra atburða sem orðið hafa og þeirra frétta af upplýsingaflæði og meintri upplýsingaleynd sem við höfum rætt hér fyrr í dag. Best að hafa staðreyndirnar á hreinu þegar menn koma hingað upp með slíkar ábendingar, herra forseti.

Við 1. umr. málsins gerði ég grein fyrir helstu fyrirvörum sem ég hef gert við frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Þeir fyrirvarar mínir hafa í engu breyst og ég mun ekki sjá mér fært að styðja þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar. Fyrst og fremst af umhverfisástæðum. Eins og áður hefur komið fram við umræðurnar og ég gerði grein fyrir í fyrstu ræðu minni um málið tel ég, þrátt fyrir framhaldsúrskurð umhvrh. og þau skilyrði er þá voru sett, að hin óafturkræfu umhverfisáhrif sem verða við það að virkja við Kárahnjúka séu óviðunandi. Ekkert í þeirri röksemdafærslu sem fram hefur komið í málinu og því sem fært hefur verið fram í umræðum á þingi frá því hún hófst fyrir einhverjum dögum eða vikum hefur sannfært mig um hið gagnstæða. Í raun er þetta að því leyti til í engu breytt frá því fyrir nokkrum vikum þrátt fyrir að ýmislegt hafi gerst í samtölum á milli hugsanlegra fjárfesta og ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnrh. Grundvallarspurningin er ein og hin sama: Viljum við virkja með þeim hætti sem lagt hefur verið til við Kárahnjúka þegar fyrir liggur að framkvæmdin sem slík fékk ekki jákvæða afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun og þótt hæstv. umhvrh. hafi látið framkvæma einhvers konar framhaldsmat? Ég vil taka skýrt fram, herra forseti, að ég deili ekki um lögmæti matsins sem slíks en ég hef áður sagt að skilyrðin sem hæstv. umhvrh. setti hafa ekki breytt afstöðu minni til málsins og um lögmæti framhaldsúrskurðarins munu aðrir kveða upp úr um. Það er dómsvaldsins að afgreiða það mál en ekki hins háa Alþingis.

En umhverfisáhrifin eru hin sömu, herra forseti, og því hefur afstaða mín til málsins í engu breyst á liðnum vikum. Það sem hefur kannski breyst í umræðunni er að mörgum þykir óvissan nú enn meiri, þó að óvissan hafi löngum verið mikil í þessum málum, og sumum þyki hún jafnvel algjör. En ég held að það sé ekki aðalatriðið, heldur það að við stöndum frammi fyrir þessari ákvörðun og fyrir liggur að hér er ein stærsta framkvæmd sem ráðist hefur verið í í Íslandssögunni. Náttúruspjöllin eru eða munu verða með þeim hætti sem fyrir liggja, herra forseti, og hin aðalaástæðan fyrir því að ég get ekki greitt frv. atkvæði mitt er að ekki var hægt að bíða eftir því að klára gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á Íslandi. Þau vinnubrögð finnast mér hreint út sagt ekki tæk, ekki síst í ljósi þess, herra forseti, að fyrir liggur og hefur legið fyrir um nokkurn tíma að einhvers konar frumdrög þeirrar áætlunar, rammaáætlunarinnar, munu líta dagsins ljós í þessum mánuði líklega, jafnvel á næstu dögum. Vissulega munu þó ekki allir virkjanakostir landsins vera lagðir fram eða metnir, en einhverjir og kannski þeir stærstu og bestu, ég veit það ekki, herra forseti, en a.m.k. eru einhvers konar drög í farvatninu.

Mér finnst býsna hart, herra forseti, að standa frammi fyrir því eina ferðina enn að hér skuli vera uppi mikil deila um virkjun á Austurlandi. Okkur er öllum í fersku minni deilan á Alþingi fyrir tveimur árum um Fljótsdalsvirkjun og enn stöndum við í raun í sömu sporum. Enn höfum við ekki getað eða rætt áætlanir til langrar framtíðar um það hvernig við viljum virkja og hvernig við ætlum að fara að því að velja bestu kostina. Forgangsraða bestu kostunum til virkjunar vatnsafls og jarðvarma. Það eru þau faglegu vinnubrögð sem mér þykir að auki pólitískt rétt vegna þess að þau stuðla að sáttum og sameiningu um niðurstöðu, en ekki að eilífum deilum um virkjanir með þeim hætti sem við höfum séð á liðnum missirum.

Ég er þeirrar skoðunar að hvar í flokki sem við stöndum og hvort sem við styðjum þessa virkjun eða ekki séum við öll þeirrar skoðunar að virkja eigi bestu og hagkvæmustu kostina. Og til þess að vita hverjir eru bestu og hagkvæmustu kostirnir verður að liggja fyrir einhvers konar samanburður, herra forseti, faglegt og ítarlegt mat byggt á rannsóknum okkar færustu vísindamanna þar sem tekið er tillit til eins margra atriða og í rauninni hægt er í slíkri vinnu því ef við byggjum ákvarðanir okkar á slíkri vinnu, þá segir mér svo hugur að niðurstaðan verði okkur til framdráttar og komandi kynslóðum til gæfu, en því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekist að vinna með þeim hætti. Hafandi sagt þetta, herra forseti, þá liggur það sem sagt fyrir að drögin, eða fyrstu drög eins og mér skilst að það heiti að títtnefndri rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, muni líta dagsins ljós jafnvel í næstu viku, a.m.k. í þessum mánuði, aprílmánuði 2002. Þá mun líklega hafa verið búið þannig um hnútana, herra forseti, að þetta mál hafi verið afgreitt af hinu háa Alþingi. Mér er auðvitað fullljóst að fyrir virkjuninni er meiri hluti hér á hinu háa Alþingi.

Það er líka ágætt að nota þetta tækifæri til að eyða nokkrum orðum á ferlið undanfarnar vikur og það laumuspil sem ég vil ég kalla, herra forseti, sem forsvarsmenn framkvæmdanna og aðrir sem að þeim koma hafa orðið uppvísir að. Menn hafa sakað hver annan um að fara með ósannindi. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni. Ég hygg hins vegar að það sé okkur holl lexía sem gerst hefur, þá á ég sérstaklega við samskipti ríkisvaldsins við hugsanlega fjárfesta í formi norska fyrirtækisins Norsk Hydro, og sýni okkur öllum og ekki síst okkur sem hér störfum í þessum sal að það er alltaf betra að hafa allar upplýsingar uppi á borði við afgreiðslu slíkra mála og reyna ekki að leyna neinu því slíkt kemur í bakið á fólki, hvort sem það er gert af einhvers konar samningatæknilegum ástæðum ellegar til að styrkja stöðuna, af því það mun ekki styrkja stöðuna þegar það kemur í bakið á fólki eins og gerst hefur hér á undanförnum dögum.

Fjárfestarnir virðast ekki í augsýn, búið er að fresta álversframkvæmdunum. Auðvitað vitum við að frv. um virkjun Kárahnjúka væri ekki til umfjöllunar ef ekki væri ráðgert að byggja upp álver í Reyðarfirði. Ég gleðst ekkert sérstaklega yfir því að ekki skuli hafa tekist að semja við fjárfesta eða ekki skuli vera hægt að finna fjárfesta sem vilja festa fé sitt hér á landi. Ég held að við ættum með öllum ráðum að reyna að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi. En það segir okkur hins vegar eitthvað um stærð verkefnisins og hugsanlega hagkvæmni þess og hugsanlega arðsemi þess að enn og aftur skuli vera komið babb í bátinn. Líklega er það þá þannig að fjárfestarnir telja fé sínu ekki nógu vel varið til framkvæmda sem þessara og þá hlýtur maður að spyrja: Því ætti íslenska ríkið að telja fé sínu nógu vel varið til framkvæmda sem þessara?

Byggðastefnan í þessu máli, herra forseti, er auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Ég ætla ekki að fara um hana löngu máli, en vil þó nota tækifærið til að lýsa þeirri skoðun minni að sú byggðastefna sem rekin hefur verið á Íslandi síðustu 30 ár eða svo, lengst af undir forustu Sjálfstfl. og Framsfl., hefur ekki orðið þjóðinni til hagsbóta, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hér hafa menn farið af stað með hverja heildarlausnina á fætur annarri, ausið fé úr sjóðum í misgóðar framkvæmdir sem margar hverjar hafa síðan orðið gjaldþrota og í raun aldrei borið þann árangur sem að var stefnt, þ.e. að treysta byggðina í hinum dreifðu byggðum landsins. Af því má læra að e.t.v. hefði þó ekki væri nema einhverjum hluta fjárins verið betur varið a.m.k. hin síðustu ár, síðasta áratug eða svo, til að treysta innviðina í samfélaginu utan höfuðborgarsvæðisins, treysta uppbyggingu menntastofnana, treysta uppbyggingu heilsugæslu og sjúkrahúsa, félagsþjónustunnar og allt það sem gerir það að verkum að fólki er gert kleift að búa þar sem það vill búa, fá þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög eiga að veita lögum samkvæmt og starfa við það sem það kýs að starfa og byggja upp þá atvinnu sem það kýs að byggja upp.

En þannig hefur það ekki verið gert. Ég ætla að leyfa mér líka að benda á, herra forseti, að byggðastefnan hefur auðvitað að stærstum hluta verið afskaplega karlamiðuð. Að öllu leyti, herra forseti. Því miður er það þannig með þetta verkefni, þó svo að störf í álveri bjóði upp á fjölbreytta vinnu og kannski fjölbreyttari en margir hafa viljað halda fram, þá er það enn svo að þorri þeirra sem starfa í verksmiðjum af þessu tagi eru karlmenn. Menn verða að horfast í augu við það að vilji þeir treysta byggð á landsbyggðinni, hvort sem það er á Austurlandi eða annars staðar, þá verður að byggja upp starfsumhverfi og atvinnu sem hentar bæði körlum og konum. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, þó svo að sumum okkar líki það ekki vel að atvinnumarkaðurinn er mjög kynskiptur enn þann dag í dag. Og það er tómt mál að tala um atvinnuuppbyggingu úti á landi ef hún horfir algjörlega fram hjá öðru kyninu.

En aðalatriði málsins, herra forseti, er í raun og veru það að hér á að samþykkja leyfi sem hæstv. iðnrh. fær síðan í hendur, leyfi til tíu ára eða svo, það er okkar verkefni, ég deili ekki um það. En ég tel það hið mesta óráð að gera það með þessum hætti að því gefnu sem ég hef áður minnst á að ekki sé búið að ræða, leggja fram, ræða og afgreiða, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á Íslandi og að fengnum niðurstöðum umhverfismats. Og þá skiptir það engu máli eða gildir einu í mínum huga, herra forseti, hvort heldur við erum að tala um neikvæða niðurstöðu skipulagsstjóra ellegar jákvæða niðurstöðu hæstv. umhvrh.

Hin stórkostlegu óafturkræfu umhverfisáhrif eru hin sömu. Lónið er jafnstórt, vatnsborðssveiflan er jafnmikil, stíflan er jafnhá. Það er verið að skera hálendið norðan Vatnajökuls í tvennt. Það er sama hvernig menn reyna að deila í eða margfalda eða leggja saman, þar með er búið að rjúfa skarð í stærstu ósnortnu víðerni í Evrópu.

Að lokum, herra forseti, vil ég benda hv. þingmönnum á að á borðum okkar liggur frv. til raforkulaga sem enn hefur ekki verið tekið til umræðu. Það mun gjörbreyta umhverfi raforkurekstrar hér á landi. Og þetta er líklega síðasta virkjunin sem fer hér í gegn, ef frv. hæstv. iðnrh. verður samþykkt, með þeim hætti sem við höfum þekkt og við þekkjum núna. Það er margt að breytast í umhverfinu, í umhverfi raforkubúskaparins, bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu. En það er ekki nóg með það, heldur þurfum við einnig að afgreiða þetta mál án þess að geta byggt á auðlindapólitík, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur margoft bent á, auðlindapólitík sem er úthugsuð, vel grunduð og byggir á því að allir eigi jafnan aðgang að auðlindunum, sameiginlegum auðlindum landsmanna, og borgi auðlindarentu ef því er að skipta. Þess vegna mun það land fyrir norðan Vatnajökul, ef af verður, verða afhent án endurgjalds, eða ég get ekki betur séð, herra forseti.

Í þriðja lagi höfum við heldur ekki til hliðsjónar neitt er kalla mætti langtímastefnumótun í ferðaþjónustu, þeirri atvinnugrein sem er í örustum vexti á Íslandi og þeirri atvinnugrein sem við í raun getum byggt á til mjög langrar framtíðar. Hingað munu ferðamennirnir vonandi enn þá vilja koma eftir 70, 80, 90 ár, þótt Hálslón verði orðið fullt af aur en það verður kannski ekki eins fagurt um að litast á Vestur-Öræfum þá.

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert grein fyrir þeim tveimur aðalástæðum sem liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu minni að styðja ekki frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár á Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

[18:45]

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að gerð rammaáætlunar ætti að vera leið úr sjálfheldu eins og verkefnisstjóri hennar orðaði það svo ágætlega í viðtali við Morgunblaðið fyrir einu og hálfu ári, leið frá þeim gamaldags og í raun ótæku vinnubrögðum sem hér hefur verið lögð stund á árum og áratugum saman þegar kemur að auðlindanýtingu á Íslandi. Þess vegna get ég ekki samþykkt þetta frv. og eins og ég hef áður sagt breytir það engu í mínum huga þótt sett hafi verið ákveðin skilyrði, 20 talsins minnir mig, af hæstv. umhvrh. til þess að minnka umhverfisáhrifin. Þau eru samt sem áður stórkostleg og algjörlega óafturkræf, herra forseti.

Við upphaf þessarar umræðu, líklega einhvern tíma fyrir páska, stigu nokkrir hv. þm. hér á stokk og fóru mikinn um sögu lands og þjóðar, sérstaklega þær stórstígu framfarir sem hér hafa orðið á sl. 100 árum, svo ekki sé talað um síðustu 50, frá því að lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944. Iðnbyltingin kom mun seinna til Íslands en til annarra landa og við vorum enn í moldarkofunum, langflest, um aldamótin 1900. Þess vegna hafa allar framfarir orðið miklar frá þeim tíma. Með nýtingu þeirra auðlinda sem við búum yfir og með því að mennta þjóðina höfum við komist þangað sem við erum í dag.

Og ég lýsi eftir því við þessa umræðu að fólk, hv. þingmenn, stilli sig um að horfa endalaust um öxl, 100 ár aftur í tímann, og reyni einu sinni að horfa 100 ár fram í tímann, reyni að ímynda sér hvernig íslenskt samfélag muni líta út þá, hvernig landið muni líta út og náttúrugæðin, og ekki bara ímynda sér það, herra forseti, heldur mynda sér skoðun á því hvernig við viljum hafa hlutina. Það er jú okkar ábyrgð á hinu háa Alþingi, ekki bara hvernig við ætlum að hafa hlutina á þessu kjörtímabili, sem lýkur innan 13 mánaða, heldur til langrar framtíðar af því að ábyrgð okkar er ekki bara gagnvart lifandi Íslendingum heldur líka þeim sem ófæddir eru og öllum þeim öðrum sem hingað munu koma og vilja búa.

Mín framtíðarsýn, herra forseti, er ekki Hálslón árið 2102 barmafullt af jökulleir. Ég vil miklu frekar að við eyðum tíma okkar hér í að skipuleggja og móta stefnu til langs tíma um ferðaþjónustu í landinu, að sjálfsögðu um auðlindanýtingu og um það hvernig við ætlum að virkja þær náttúruauðlindir sem við búum yfir, hvort heldur það er vatnsafl eða jarðvarmi. Ég vil að við gerum það þannig að sú pólitík hangi saman og það sé eitthvert vit í henni þegar til lengri tíma er litið.