Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 21:34:49 (6841)

2002-04-03 21:34:49# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[21:34]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Í því frv. til laga sem við erum að ræða, um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, hefur margt verið sagt úr þessum ágæta ræðustól. Sitt sýnist hverjum þó að við 2. umr. þessa máls hafi ýmislegt verið að skýrast enn frekar og koma meira og meira í ljós, sumt jákvætt, annað neikvætt.

Ég ætla, herra forseti, ekki að lengja þessa umræðu mikið en vil samt sem áður segja mitt álit á þeirri stöðu sem uppi er og á þeim virkjunum sem hér er verið að fjalla um sem eru vegna hugsanlegrar byggingar álvers í Reyðarfirði. Afstaða mín er skýr, ég er hlynntur þessu verki og þessari framkvæmd af tveimur ástæðum, annars vegar vegna þess að þetta er þjóðhagslega hagkvæmt og þetta er þjóðhagslega nauðsynlegt fyrir efnahagslíf landsmanna, og í öðru lagi vegna þess að þetta er byggðalegs eðlis. Þetta yrði geysilega mikil lyftistöng fyrir þann landsfjórðung sem álverið á að byggja á, þ.e. Austurland og íbúa Austurlands, þó að landfræðilega sé það kannski ekki fyrir alla. Verkefnið verður þó klárlega til hagsbóta, sérstaklega fyrir íbúa Miðausturlands.

Ég viðurkenni að mér finnst nokkurt áfall að Norsk Hydro telji sig ekki geta tekið ákvörðun miðað við þá tímaáætlun sem sett var upp en er samt ekki búið að segja sig frá verkinu. Sem betur fer eru málin þannig tengd, eins og reyndar kemur fram í athugasemdum við lagafrv., að frv. er flutt til þess að afla lagaheimilda til að byggja Kárahnjúkavirkjun og stækka Kröfluvirkjun vegna stóriðjuframkvæmda sem áformað er að ráðast í á næstu árum á Austurlandi. Ég ætla að gera ráð fyrir að af þessari framkvæmd verði þrátt fyrir síðustu áföll. Að mínu mati er algjört skilyrði fyrir virkjun á þessu svæði að orkan sé notuð til þess að byggja upp og nota við stóriðju á Austurlandi. Það segir sig líka sjálft, herra forseti, að allar vangaveltur um að reisa þessa virkjun og flytja orkuna í einhverja aðra landsfjórðunga gerir það að verkum að arðsemi virkjunarinnar minnkar allverulega ef hún ekki hverfur alveg þannig að þetta er algjört grundvallaratriði til að hafa í huga.

Ég sagði áðan, herra forseti, að önnur ástæða mín fyrir stuðningi við þetta frv. og þessa framkvæmd væri sú að þetta er þjóðhagslega nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að efla útflutningstekjur og skjóta frekari stoðum undir atvinnulíf okkar, og það að nýta vatnsorkuna, þá náttúruauðlind, er hlutur sem við getum ekki horft fram hjá. Við Íslendingar erum ekki það rík af náttúruauðlindum öðrum en þessu og því sem kemur upp úr sjónum en við byggjum auðvitað alla okkar afkomu á þeim.

Það kemur fram í frv. að arðsemi virkjunar er mikil og ég ætla ekki að draga það í efa þó að ég viðurkenni líka að ég hef ekki allar forsendur til að leggja mat á hana. Ég veit t.d. ekki um orkuverð, það er trúnaðarmál við iðnaðarnefndarfólk og aðra, og ég geri ekki heldur kröfu um að fá endilega að vita það. Ég treysti mínu fólki í þessum nefndum til að vega það og meta, og ég segi þetta eingöngu vegna þess að þarna er um svo stór mál viðskiptalegs eðlis að ræða að þessum viðskiptaupplýsingum er ekki hægt að flagga úti um borg og bæ, allra síst í upphafi máls, þ.e. sýna þá viðsemjendum hvaða spil við höfum á hendi og arðsemi og annað slíkt sem gæti orðið til þess að kaupendur að orkunni gætu krafist þess að fá hana á lægra verði. Þetta er önnur aðalástæðan fyrir stuðningi mínum, herra forseti.

Ég sagði líka áðan að í byggðalegu tilliti styrkti þessi framkvæmd þennan landshluta mjög verulega. Ég hef gagnrýnt núv. hæstv. ríkisstjórn fyrir aðgerðaleysi í byggðamálum í mörgum ræðum og bent á ótal atriði en þarna á þó að grípa til aðgerðar sem mark er takandi á. Það að ætla að reisa þetta álver á Austurlandi og nýta orkuna þar í næsta nágrenni við virkjunarsvæðið gerir það að verkum að þetta er fýsilegur kostur í byggðastefnu og byggðaþróun. Við þurfum ekki nema að skoða söguna, fara nokkra áratugi aftur á bak til þess tíma þegar síldin var að hverfa og miklir erfiðleikar í efnahagsmálum gengu yfir íslenska þjóð. Þá er ég auðvitað að tala um það tímabil þegar við Íslendingar fórum af stað og byggðum álverið í Straumsvík og þær virkjanir á Suðurlandi sem þar voru reistar sem, eins og fram hefur komið í ræðum hjá nokkrum þingmönnum, eru sennilega álíka stórt dæmi og það sem við erum að tala um hér og nú.

Við erum að tala um risastórt verkefni. Við þurfum ekki að fara nema nokkur ár aftur í tímann og horfa á Norðurál uppi í Hvalfirði og sjá hvernig það hefur orðið til að styrkja atvinnulíf á því svæði, hvað bygging Norðuráls og álverksmiðjan þar hefur lyft miklu grettistaki þar sem eru um 200 manns í vinnu núna. Norðurál átti á síðasta ári viðskipti við 60--70 þjónustuaðila í nágrenni sínu og því liggur í augum uppi þegar Norðurál er skoðað að það er mikilvægt í atvinnulegu tilliti. Ég kann ekki að segja hverjar útflutningstekjur af Norðuráli eru en ég hlustaði á það nýlega að hagnaður þess fyrirtækis á síðasta ári var einn milljarður kr. (Gripið fram í: Rúmlega.) Rúmlega einn milljarður kr. Og ég veit ekki annað en að starfsmenn þar séu mjög ánægðir með kaup og kjör og hafi jafnvel fengið stóra og mikla bónusa fyrir ýmiss konar hagræðingarvinnu. Þessi tvö atriði, herra forseti, staðfesta það sem ég nefndi hér sem aðalrökin fyrir því að ég er hlynntur þessu verki.

Norðurál á, eins og ég sagði áðan, í viðskiptum við milli 60 og 70 þjónustuaðila í nágrenni verksmiðjunnar á Vesturlandi. Þjónustan er auðvitað geysilega mikil, sama hvort það er í rafmagnsiðnaði, járniðnaði, tölvubransanum eða öðru. Eiginlega má nefna hverja einustu starfsgrein sem til er, hún hefur einhvers konar hag af því að vera í nágrenni við þetta fyrirtæki. Þetta er, herra forseti, aðalástæðan fyrir því að ég er mjög hlynntur þessu verki, eins og ég hef áður sagt.

Síðan langar mig í örfáum orðum að ræða um að þetta stóra og mikla verkefni geti sett allt á annan endann í efnahagsmálum okkar Íslendinga, og það þurfi ofboðslegar mótvægisaðgerðir ef þetta verk fer í gang. Það þarf örugglega mótvægisaðgerðir en ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt, og hafi ekki verið hægt á þeim tímapunkti þegar verið var að ræða um þetta og menn héldu að allar tímaáætlanir mundu standa, að fara að kortleggja einhverjar mótvægisaðgerðir í dag gegn því sem gerist árið 2005 ef verkið verður þá hafið og mesti krafturinn í því eins og það gæti litið út nú. Í dag er ekki tími til að segja til um það. Núna er hins vegar tími til að stjórnvöld viðurkenni það og segi að þegar þetta verkefni fer í gang þurfi þáverandi stjórnvöld að vera tilbúin með mótvægisaðgerðir til að sporna gegn þenslu og öðru slíku í þjóðfélaginu. Og það er gott ef allir eru meðvitaðir um það í dag.

Ég hef oft spurt mig þessa: Hverjar voru mótvægisaðgerðirnar við hin og þessi stórverkefni sem unnin hafa verið á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. hafa sogað til sín fólk af landsbyggðinni? Þar voru engar mótvægisaðgerðir gerðar, e.t.v. því miður.

Þetta vildi ég segja um þau efnahagslegu mál sem þarna var talað um. Rétt í lokin vil ég koma að hinni nýju stöðu í þessu máli sem kom upp í lok mars, rétt fyrir páska, þar sem fram kom hjá Norsk Hydro að þeir geti ekki staðið við þær tímaáætlanir sem þeir voru búnir að gefa, þ.e. um 1. júní og síðan aftur 1. sept., vegna fjárfestinga í gamalli álverksmiðju í Þýskalandi.

[21:45]

Mér finnst hafa verið staðið þokkalega vel að eftir að sú staða kom upp. Ég lít ekki svo á að Norsk Hydro sé búið að segja sig frá verkefninu. Ég er hins vegar sammála því að mjög slæmt er hvernig Norsk Hydro hefur komið í bakið á okkur Íslendingum hvað þetta varðar. En það er ekki þannig sem betur fer að þeir séu búnir að segja sig alfarið frá verkefninu og þess vegna hlýtur það að vera verkefni númer eitt, tvö og þrjú hjá stjórnvöldum í dag að finna og fá nýjan aðila inn í þetta arðbæra stórverkefni og ég vona að sú leit og sú skoðun beri árangur sem allra fyrst.

Mér finnst það heldur ekkert slæmur kostur þó að nýr aðili komi inn í eignarhald álverksmiðjunnar á einhvern hátt, minnki jafnvel hlut okkar Íslendinga, minnki þess vegna hlut Norsk Hydro og þannig verði þetta byggt upp. Ég vona að sú leit taki ekki langan tíma og vil hvetja hæstv. iðnrh. til að láta sína menn sem vinna við þetta og hina nýskipuðu nefnd, sem sagt hefur verið frá, vinna hratt og vel í þessum efnum.

Herra forseti. Þess vegna held ég og er þeirrar skoðunar að við eigum að klára það mál sem við ræðum nú, þ.e. virkjunarleyfið. Ég tel að við séum ekkert að skjóta okkur í fæturna þó að við samþykkjum það núna. Ég tel það reyndar vera vinnubrögð til fyrirmyndar á Alþingi að þetta verði unnið í tæka tíð og með góðum fyrirvara. Þá er hægt að flagga því að þetta sé allt saman klárt, umhverfismatið og virkjunarleyfið, þegar leitað er að fjárfestum.

Þetta vildi ég segja í lokin, herra forseti, um leið og ég vil ljúka máli mínu með því að segja að ég vona svo sannarlega og ítreka það sem ég segi, að þetta verkefni fari í gang sem allra fyrst því að nóg eru Austfirðingar búnir að bíða eftir þessu verkefni. Það muna þeir sem eru eldri en ég og geta talið það í árum, en ég hef heyrt menn tala um 20 ára bið, 20 ára vonbrigði jafnvel hjá Austfirðingum vegna stóriðjuáforma sem mörg hver hafa dottið upp fyrir á ýmsum vinnslustigum. Þess vegna trúi ég því ekki að það verði svo með þetta verkefni, enda held ég að það sé fýsilegur kostur að byggja álver á Íslandi sem notar vistvæna orku sem hér á að framleiða. Við getum hugsað þetta hnattrænt, ef svo má að orði komast, heimurinn þarf meira ál.

Við skulum hafa það í huga að samdráttur í efnahagslífi heimsins sem hófst í mars eða apríl árið 2000 og stöðugur samdráttur í heiminum í efnahagsmálum sem fékk heldur betur högg, 11. september sl. þegar glæpasamtök gerðu árás á hinn vestræna heim og vestrænt efnahagslíf, að í rauninni er ekkert óeðlilegt að svo stór framkvæmd eins og þessi skuli fara í ákveðinn bakkgír, ef svo má að orði komast, í framhaldi af því að heimurinn er að jafna sig af því sjokki sem þá varð og þessu efnahagssjokki. Þess vegna segi ég alveg hiklaust og vil enda orð mín á því að ég vona að Austfirðingar þurfi ekki að bíða allt of lengi og við Íslendingar eftir því að framkvæmdir við byggingu Kárahnjúkastíflu og þess sem þar þarf og álvers á Reyðarfirði, sem er algjör forsenda fyrir að nýta þá orku og það verði sem allra fyrst og sú bið verði ekki mörg ár.