Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 21:49:49 (6842)

2002-04-03 21:49:49# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[21:49]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Kristján Möller hvort honum finnist ekki frekar ósanngjarnt, eins og fram kom í ræðu hans, gagnvart Norðmönnum að stilla þeim upp sem eins konar sökudólgum í þessu máli, vegna þess að við höfum öll vitað að taka átti ákvörðun um framgang verksins í tveimur áföngum, þ.e. 1. júní og 1. september. Ég tel mig sem iðnaðarnefndarmann alltaf hafa vitað að Norðmenn gætu á báðum þessum stigum gengið út úr verkefninu.

Síðan vil ég jafnframt spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki erfitt fyrir Austfirðinga að standa frammi fyrir málflutningi eins og þeim að þeir séu búnir að bíða nógu lengi, vegna þess að við höfum reynslu af svona málum, eins og t.d. í Eyjafirði þar sem voru svipaðar raddir uppi og þar sem menn sögðu að Eyfirðingar væru búnir að bíða eftir álveri í 15 eða 20 ár. Ég er þeirrar skoðunar að slík framsetning mála geti verið letjandi og haft mjög neikvæð áhrif. Menn verða að vera raunsæir og reynslan sýnir okkur að slík verkefni eru ekkert í hendi og hafa ekkert verið í hendi þó svo að við höfum unnið að þeim um áratuga skeið.

Það eru bara tvö verkefni sem hafa farið í gang og það er í Hvalfirði og í Straumsvík. (Gripið fram í.) Ég er að tala um okkur Íslendinga í einu lagi, ég geri mér grein fyrir að ég hef ekki unnið að því sem persóna. En þannig standa málin. Og ef við ætlum að halda áfram enn og hafa engar aðrar lausnir fyrir Austfirði eins og aðra landshluta þá held ég að það sé verra en að horfast í augu við þessi mál eins og þau raunverulega eru.