Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 21:54:07 (6844)

2002-04-03 21:54:07# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[21:54]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Kristjáni Möller á að Vinstri grænir voru ekki til þegar verkefni eins og Keilisnes fór upp fyrir. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð var ekki til þegar álviðræðunefndir voru sendar í stríðum straumum norður í Eyjafjörð til þess að skoða lóðir undir álver, síðast í Dysnesi. Ætli það hafi ekki verið fimm aðilar sem komu þar að?

Ég vil einnig benda hv. þm. á að Austfirðingum hefur verið það ákaflega ljóst alveg frá upphafi að við vildum annars konar atvinnuuppbyggingu þannig að menn ganga ekkert gruflandi að því. Þess vegna finnst mér dálítið einkennilegt og vil spyrja þingmanninn enn og aftur hvort hann telji þetta ekki óheppilega framsetningu mála að kenna samstarfsaðilanum eða aðilanum sem er verið að semja við, Norsk Hydro, um væntanlega seinkun og síðan að reyna, eins og þráfaldlega er gert, að kenna Vinstri grænum um það að menn hafi ekki komist áfram með málið. Sagan sýnir að það að koma upp álveri eða semja um slíka atvinnuuppbyggingu hér á landi hefur tekið mörg ár og það hefur bara tekist að koma því í framkvæmd í tveimur tilfellum, í Straumsvík og í Hvalfirði. Og það er búið að reyna, eins og ég segi, margsinnis. Ég vil því spyrja þingmanninn enn og aftur hvort hann telji ekki að það að berja hausnum við steininn, halda áfram að gefa Austfirðingum von og þar af leiðandi að grípa ekki til hliðarráðstafana, sé verst fyrir fjórðunginn í raun og veru þegar upp er staðið.