Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 22:20:16 (6847)

2002-04-03 22:20:16# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[22:20]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst gæta nokkurrar misvísunar í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Annars vegar segir hann að ríkið eigi ekki að vera sá aðili sem horft sé til þegar setja eigi niður stórframkvæmdir eða koma með lausnir í atvinnumálum, og að auki minntist hann á að ekki mætti horfa á þetta verkefni sem beint byggðaverkefni heldur ætti að horfa á það á breiðari grunni. Í lok máls síns sagðist hann hins vegar vona að yrði af þessu verkefni yrði það mikil lyftistöng fyrir viðkomandi landshluta sem ekki veitti af.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi gert sér grein fyrir því að Kárahnjúkavirkjun og það sem henni tilheyrir er í rauninni ein stærsta ríkisframkvæmd sem hefur verið á borði stjórnvalda í Íslandssögunni þar sem ríkið leggur bæði til fjármagn, eða ábyrgðir, og Landsvirkjun sem er í eigu opinberra aðila, bæði ríkis og sveitarfélaga, leggur allt sitt undir þannig að þarna er staðið fyrir stærstu opinberu framkvæmdinni. Ætli hv. þingmaður hafi gert sér grein fyrir því?

Ég tel einmitt varhugavert að ríkið gangi í að byggja upp atvinnurekstur, að fara beri varlega í það, en hér er á ferðinni ein stærsta ríkisframkvæmd Íslandssögunnar. Hefur hv. þm. gert sér grein fyrir því í raun?