Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 22:24:31 (6849)

2002-04-03 22:24:31# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[22:24]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni að ég teldi að horfa ætti til þess að styrkja eða flýta þeim framkvæmdum sem væru fyrirhugaðar á Austurlandi og hafa dregist um of. Hv. þm. taldi hins vegar í sinni ræðu að þetta ætti ekki að vera neinn sérstakur hvati að því. Það má vel vera. En ég benti einmitt á jarðgangagerðina --- áætlanir um hana hafa legið fyrir um árabil --- og er gefið mál að jarðgöng mundu styrkja byggð og atvinnulífsmöguleika. Í sjálfu sér er ekki langvarandi atvinna að byggja jarðgöng en þau skaffa atvinnuumgjörð, og ég tel einmitt að hið opinbera eigi að kanna með hvaða hætti það getur gert það. Og því er ekki að leyna að fyrirhugaðar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers á Reyðarfirði eru fjær nú en Austfirðingar bjuggust kannski við fyrir tveim til fimm mánuðum, og þar höfðu miklar væntingar hlaðist upp.

Hv. þm. sagði að hann teldi ekki rök fyrir slíkum framkvæmdum að verið væri að bjarga einhverri byggð eða styrkja hana. Þau rök hafa samt einmitt verið keyrð fram sem ein meginröksemdin í álmálinu sem þarna er verið að vinna að. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um að nú sé enn ríkari nauðsyn til að taka ákvörðun og fara í framkvæmdir sem eru búnar að vera á döfinni árum saman og hafa lent í undandrætti, m.a. fyrir slælega framgöngu eða ranga forgangsröðun hjá þingmönnum Austurlands.