Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:35:43 (6878)

2002-04-04 10:35:43# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Einhvern tímann var sagt að hægt væri að ljúga með þögninni. Hv. þm. Hjálmar Árnason vísar í trúnaðarsamband og að menn hafi ekki risið undir trúnaði. Það hafa menn ekki gert gagnvart Alþingi Íslendinga og þingnefndum.

Hann talar um að það verði gert sem sjálfsagt er, að þetta ferli verði kortlagt. Tillögur okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vísa ekki aðeins aftur á við heldur einnig fram í tímann. Við höfum lagt til að Alþingi kjósi nefnd sjö þingmanna sem kanni hvernig megi best tryggja að umfjöllun um þingmál, störf þingnefnda og önnur þingstörf byggi ávallt á réttum og bestu fáanlegum upplýsingum. Nefndin kanni lagaákvæði og reglur sem um þetta gilda í nálægum þjóðþingum. Einnig hvort ástæða sé til að lögfesta hér reglur í þessu sambandi, þar með talin refsiákvæði ef Alþingi eða þingnefndum eru gefnar rangar eða villandi upplýsingar eða þessir aðilar leyndir mikilvægum upplýsinum sem varða efni eða kringumstæður þingmáls eða þingstarfa.

Á þessa leið hljóðar tillaga sem við höfum lagt fram og borin hefur verið upp í forsn. Alþingis og verður væntanlega tekin þar til afgreiðslu.

Ég vil að þetta komi fram á þessu stigi.