Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:41:04 (6881)

2002-04-04 10:41:04# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Áfram halda menn að berja höfðinu við steininn, hv. þm. Vinstri grænna. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heldur því hér fram að á fundum iðnn. hafi fulltrúar ráðuneytisins, ráðuneytisstjóri, ekki andað út úr sér breytingum í þessu máli á nefndarfundi.

Nú ætla ég að fara yfir það að ráðuneytisstjóri minn mætti á tvo fundi í iðnn., í fyrsta lagi 21. febrúar. Þá höfðu engar upplýsingar borist og þann sama dag fór ég meira að segja með minnisblað inn í ríkisstjórn sem varðar þetta verkefni og af því má sjá að engin breyting hafði komið fram. Síðari fundurinn er 18. mars. Þá er komin frétt í Morgunblaðinu og er fjallað um þá frétt á nefndarfundi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fer hér með rangt mál þegar hann talar um að ekki hafi verið andað út úr sér upplýsingum um breytingar, enda mætti hann ekki á þennan fund í morgun og veit greinilega ekki hvað þar fór fram.

Ég held að þetta sé aðalatriði málsins. Það að hér skuli aðeins einn þingflokkur stöðugt halda fram lygum í þessu máli segir sína sögu. Það segir að þessir hv. þm. taka ekki rökum. Þeir hafa ákveðið að halda fram ósannindum og munu halda því áfram. Við getum bara haft þetta svona þangað til þingið fer heim í vor.