Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:53:41 (6888)

2002-04-04 10:53:41# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta hálmstrá sem hæstv. iðnrh. hefur reynt að nota í krappri vörn sinni undanfarna daga um að þrátt fyrir upplýsingar um breytta stöðu hafi ákvarðanir ekki verið teknar hjá Norsk Hydro, það heldur ekki. Þórður Friðjónsson lýsir þessu þannig í viðtali við fjölmiðla að í lok febrúar hafi ákvarðanir verið teknar hjá Norsk Hydro og það liggur fyrir og hefur komið fram opinberlega (Iðnrh.: Þetta er ekki rétt.) að fundahöldin sem leiddu til þess að í stjórnkerfi Norsk Hydro var hin nýja stefna tekin, fóru fram í síðustu vikum febrúar. Málið er a.m.k. það alvarlegt að mati aðila að það er aðalsamningamaður Norsk Hydro sem lætur formann íslensku samráðsnefndarinnar vita og sá fer beint til ráðherra þannig að það var ekki litið svo á að hér væri um einhver aukaatriði sem ekki vörðuðu málið með beinum hætti og alvarlega að ræða. Þannig er nú það, herra forseti.

Já, ég kalla það metnaðarleysi fyrir hönd Alþingis sem stofnunar þegar fyrir liggur að mikilsverðum upplýsingum hefur verið haldið frá Alþingi, að taka það mál ekki alvarlega. Ég fullyrði að í öllum nálægum þjóðþingum, rótgrónum þingræðisríkjum, væri svona atburður litinn mjög alvarlegum augum og víða er það þannig að það er saknæmt og refsivert svo nemur jafnvel allt að 20 ára fangelsi að greina þingnefndum rangt frá eða villa fyrir þeim með röngum upplýsingum. (Gripið fram í.) Þannig er nú það. (Utanrrh.: ... þig í tukthús.) Hér eru að sjálfsögðu engar slíkar reglur í lögum, herra forseti, en það er auðvitað eitt sem á að athuga (Utanrrh.: Að setja okkur í tukthús?) til þess að undirstrika alvöru málsins. (Gripið fram í: Ráðherrann í tukthús.) Það er að vísu svo illa veitt fé til tukthúsa að þau eiga öll að vera tóm í sumar, það á að sleppa öllum út, þannig að menn sætu a.m.k. ekki inni yfir sumarmánuðina, (Gripið fram í.) en, herra forseti, ég heyri að hæstv. utanrrh. er órótt og það er ekki í fyrsta sinn þegar þessi spilaborg hæstv. utanrrh. er hrunin, þá er von að hæstv. utanrrh. sé órótt, þegar spilaborgin er hrunin ofan á hausinn á honum. (Utanrrh.: Það er eins gott að þú hafir ekki lögregluna til yfirráða.)