Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:56:30 (6889)

2002-04-04 10:56:30# 127. lþ. 109.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir og snýst um veitingu virkjunarleyfis vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Austurlandi nýtur stuðnings meiri hluta þingflokks Samfylkingarinnar, en sá stuðningur er með tilteknum fyrirvörum sem rétt er að gera grein fyrir.

Í fyrsta lagi styðjum við málið í trausti þess að áætlanir um arðsemi framkvæmdarinnar standist.

Í öðru lagi að land norðan Vatnajökuls verði verndað í kjölfar virkjunar með þjóðgarði.

Í þriðja lagi að tryggt sé að þjóðhagsleg áhrif framkvæmdarinnar séu jákvæð þegar og ef út í hana er farið.

Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa lýst yfir andstöðu við framkvæmdina gera það vegna umhverfissjónarmiða. Við virðum þá afstöðu. Að öðru leyti greiðir þingflokkur Samfylkingarinnar atkvæði með frv.