Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:26:56 (6917)

2002-04-04 11:26:56# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:26]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyt. á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

(Forseti (HBl): Ég bið hv. ræðumann afsökunar á inngripi í ræðu hans en ég vil minna hv. þingmenn á að búist er við mörgum atkvæðagreiðslum fyrir matarhlé.)

Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta mál, og hún kallaði á fund til sín nokkra ágæta einstaklinga sem getið er um í nál. Þessu frv. er ætlað að lækka almennt vörugjald af bensíni tímabundið til loka júní á þessu ári til að vega á móti verðlagsáhrifum af hækkun á heimsmarkaðsverði bensíns.

Nefndin bendir á að ríkisstjórnin hefur gert ýmsar aðgerðir til þess að reyna að draga úr hækkun á verðlagi á þessu ári, t.d. hefur áfengisgjald ekki verið hækkað og ekki er reiknað með að það verði. Hætt var við hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins og eins hækkun á komugjöldum sjúklinga en allar þessar ráðstafanir saman þýða 750 millj. kr. í mínus fyrir ríkissjóð miðað við fjárlög. 80 millj. koma til viðbótar með þeim ráðstöfunum sem hér er verið að gera með lækkun vörugjalds af bensíni þannig að ríkissjóður hefur lagt allmikið af mörkum til að lækka verðlag þannig að markmið kjarasamninga geti haldið.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal vekur athygli á því að gleymst hafi að geta þess að breytingar voru gerðar á tollum á grænmeti. Það er rétt að það komi fram hér.

Virðulegi forseti. Öll nefndin skrifaði undir þetta álit en þó hafa þrír nefndarmenn ákveðna fyrirvara á þessu, og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson hafa viljað láta þessa lækkun á vörugjaldinu gilda til 1. nóv. í stað 30. júní. Þessir hv. þm. munu væntanlega gera grein fyrir fyrirvörum sínum á eftir.