Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:29:43 (6918)

2002-04-04 11:29:43# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hefði óskað eftir því að hv. formaður efh.- og viðskn. hefði gert grein fyrir afstöðu sinni til þessa sem hann lýsti síðast, þ.e. þeirrar brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni við þetta mál um að gildistaka þessarar lækkunar verði lengri en áformað er í frv. Ekki síst var tekist á um þetta atriði eða um fjallað í hv. efh.- og viðskn.

[11:30]

Eins og fram hefur komið er frv. liður í þeirri viðleitni að leggja til aðgerðir til að hin margfrægu rauðu strik í maímánuði haldi og styðjum við þingmenn Samfylkingarinnar að sjálfsögðu frv. þó að við teljum að þar hefði átt að gera betur en lagt er til í frv.

Ég vil aðeins gera nánari grein fyrir afstöðu gesta sem komu á fund nefndarinnar og viðhorfa þeirra til þessa máls, heldur en kom fram í máli formanns, en þeir sem komu á fund nefndarinnar voru auk fulltrúa frá fjmrn., Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ, Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Edda Rós Karlsdóttir frá Búnaðarbanka Íslands, Reynir Guðlaugsson frá Skeljungi og Magnús Ásgeirsson frá Olíufélaginu.

Bundnar eru þó nokkrar vonir við, eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. þegar mælt var fyrir málinu í gær, að olíufélögin legðu líka sitt af mörkum að því er varðar lækkun á bensíni og að þau hækki ekki verð á bensíni þrátt fyrir þá hækkun sem orðið hefur á heimsmarkaðsverðinu.

Ég verð að segja, herra forseti, að í umfjöllun nefndarinnar í gær um þann þátt málsins sem snýr að olíufélögunum varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með viðbrögð olíufélaganna og afstöðu þeirra til málsins. Jú, það er rétt og var staðfest að þau koma til móts að því leyti að þau munu ekki hækka bensínverðið í tilefni hækkunar á heimsmarkaðsverðinu nú en þegar gengið er á fulltrúa olíufélaganna um hversu lengi þeir muni halda verðinu óbreyttu eða hækka ekki, þá er fátt um svör. Reyndar er það svo að annar fulltrúi olíufélaganna treystir sér í rauninni ekki til að gefa nein fyrirheit um það að slíkt mundi halda lengur en út aprílmánuð. Það veldur nokkrum vonbrigðum vegna þess að ég stóð í þeirri trú að olíufélögin mundu a.m.k. þann tíma sem hér er lagt upp með í frv. halda bensínverðinu óbreyttu, en þau telja að þau þurfi að stilla sig af miðað við heimsmarkaðsverð og gengi. Það veldur því vissulega vonbrigðum þó að það sé út af fyrir sig þakkarvert að olíufélögin hækki ekki bensínið þessa stundina í tilefni af hækkun á heimsmarkaðsverðinu.

Ég vil einnig fara nokkrum orðum, herra forseti, um þá umfjöllun sem varð í nefndinni varðandi rauðu strikin og þau viðhorf manna sem eru kannski mismunandi um það hvort rauðu strikin haldi eða ekki, þá óskuðum við eftir því fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. að fá Eddu Rós Karlsdóttur, forstöðumann greiningardeildar Búnaðarbankans, á fund nefndarinnar en forstöðumaður greiningardeildarinnar hafði látið í ljós ýmsa fyrirvara og athugasemdir eða kannski aðvaranir um að óvarlegt væri að treysta því algerlega að rauðu strikin haldi eins og menn hafa væntingar um í maímánuði nk.

Það er deginum ljósara að afar brýnt er að allir leggi sig fram um að svo verði og vissulega hefur ríkisstjórnin gert það að ýmsu leyti með því að draga til baka áformaðar hækkanir, ýmsar gjaldskrárhækkanr sem voru fyrirhugaðar eins og við fórum nokkuð í gegnum við 1. umr. málsins í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum. En við höfum eilitlar áhyggjur af því, herra forseti, miðað við það að hér er verið að lækka bensín tímabundið og mikil óvissa um þróun heimsmarkaðsverðs, þó að menn búist við lækkunum í sumar þá eru miklir óvissutímar nú, að menn geta ekki reitt sig á að þær lækkanir gangi fram. Menn hafa áhyggjur af því þegar þessari tímabundnu lækkun lýkur að verð á bensíni muni rjúka upp aftur og hafa mjög óæskileg áhrif á vísitöluna. Menn eru því að velta fyrir sér og hugleiða að þar sem svona er búið um hnútana, þá sé með einum eða öðrum hætti verið að spila á vísitöluna og velta vandanum raunverulega fram yfir tímabilið eftir maímánuð þegar mælingu á vísitölunni, sem skiptir máli um rauðu strikin, er lokið.

Ég vil, herra forseti, vitna í það sem Edda Rós Karlsdóttir hefur að segja almennt um rauðu strikin sem kom fram í gær m.a. í Ríkisútvarinu og hún endurtók reyndar á fundi nefndarinnar í gær, en í Ríkisútvarpinu segir forstöðumaður greiningardeildar Búnaðarbankans, með leyfi forseta:

,,Það hefur verið byggð upp svona verðbólgustífla má segja sem hefur komið í veg fyrir verðhækkanir á síðustu mánuðum og hún hefur náttúrlega lýst sér í því að fyrirtæki og opinberir aðilar hafa haldið í sér til þess að tryggja að rauðu strikin haldi og við sjáum til dæmis að innfluttar vörur aðrar en matvörur eiga í raun inni nokkra hækkun út af veikingu krónunnar. Hið opinbera hefur verið að draga til baka hækkanir og annað slíkt og ég held að það sé alveg ljóst að þessi verðbólgustífla, hún mun að einhverju leyti bresta strax um miðjan maí og í kjölfarið muni verðbólga hækka tímabundið.``

Hún segir, herra forseti, að innflytjendur eigi inni nokkra verðhækkun vegna lækkunar á gengi krónunnar á síðasta ári og telur að áhrif gengislækkunar á matvörur hafi komið fram, og segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

,,Hins vegar í svonefndum varanlegum neysluvörum, heimilistækjum, húsgögnum og þvíumlíku þá sýnist henni að seljendur hafi ekki hækkað verð í samræmi við veikingu krónunnar.`` --- Það er því ljóst, herra forseti, að forstöðumaður greiningardeildarinnar telur að það sé enn töluvert í pípunum sem eigi eftir að koma fram í hærra verðlagi.

Síðan segir forstöðumaðurinn, með leyfi forseta:

,,Eitt grundvallaratriði þess að verðbólgan fari ekki á flug er að krónan haldi áfram að styrkjast og einnig að hækkunum á opinberum gjöldum sem dregnar voru til baka verði ekki lætt inn.``

Herra forseti. Auðvitað er afar mikilvægt að þær hækkanir sem ríkisstjórnin hefur dregið til baka fari ekki að koma fram einhvern tíma aftur síðar á árinu og þetta sé lækkun sem a.m.k. er hægt að treysta að komi ekki fram á þessu ári. Nefndin áréttar það raunverulega í nál. sínu en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin bendir jafnframt á að ríkisstjórnin hefur fallið frá gjaldtöku á árinu 2002 vegna hækkunar áfengisgjalds sem gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga, fyrirhugaðri hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins og fyrirhugaðri hækkun á komugjöldum sjúklinga, en þessar ráðstafanir hafa það í för með sér að ríkissjóður verður af alls u.þ.b. 750 millj. kr. miðað við fjárlög.``

Það stendur út af í þessu að ríkisstjórnin hefur ekki dregið til baka þá hækkun sem boðuð var í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna og snertir hækkun á skráningar- og efnisgjöldum í framhaldsskólum og háskólum sem við ræddum fyrir áramótin að mundi hafa 0,14% áhrif á vísitöluna sem er ekki að öllu leyti komin fram, herra forseti, og var staðfest í nefndinni af fulltrúum fjmrn. og reyndar ASÍ að mundi koma frekar fram í vísitölunni síðar á þessu ári. Er það út af fyrir sig sérstakt að ríkisstjórninni skuli vera svona fast í hendi að halda í hækkun á þeim innritunargjöldum með tilliti til þó þeirrar viðleitni sem hún hefur sýnt að lækka áformaðar gjaldtökur um 750 millj. kr. en hækkun á innritunar- og efnisgjöldunum átti að gefa ríkissjóði 100 millj. kr. og hafa veruleg áhrif á vísitöluna eða um 0,14% og er verulega íþyngjandi fyrir námsmenn en þetta er liður í stefnu sjálfstæðismanna sem framsóknarmenn hafa greinilega orðið að kaupa, þ.e. að festa hér skólagjöld í sessi.

Þetta vildi ég draga fram, herra forseti, að ákveðnir þættir eru enn þá í pípunum sem ýmsir hafa áhyggjur af að komi fram í hækkun á vísitölunni og það eru aðilar sem eru ekki eins bjartsýnir og ríkisstjórnin og t.d. ASÍ um að rauðu strikin haldi. Ég vil halda því til haga í umræðunni að það er ekki síst Alþýðusamband Íslands og forusta þess sem á þakkir skildar fyrir það hvernig hún hefur barist ötullega fyrir því á mörgum vígstöðvum að rauðu strikin haldi og verðbólgan fari ekki á flug og ríkisstjórnin hefur sannarlega tekið þátt í því með þeim hætti sem ég hef lýst og fram kemur í nál.

Það er ekki bara forstöðumaður greiningardeildar Búnaðarbankans sem hefur þessar áhyggjur að því er varðar verðbólguna og rauðu strikin. Ég vil minna á nýlegt álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þar segir, með leyfi forseta, og vitna ég þar í forustugrein í Morgunblaðinu í dag:

,,Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist í raun ekki hafa trú á því að verðbólgan geti orðið undir 4% í byrjun næsta árs og nálægt 2,5% markmiði bankans undir lok þess. Sendinefnd sjóðsins telur ,,hætt við að verðbólga verði ofan við þennan feril``. Hún telur að enn eigi verðlagsáhrif gengislækkunar krónunnar eftir að koma fram, að launabreytingar geti orðið meiri en Seðlabankinn gerir ráð fyrir, annars vegar vegna launaskriðs og hins vegar ef rauðu strikin í maí haldi ekki.``

Herra forseti. Í þessu áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að hluta til tekið undir þær áhyggjur sem fram koma hjá forstöðumanni greiningardeildar Búnaðarbankans.

Út af fyrir sig væri mjög freistandi, herra forseti, þó að ég ætli ekki að gera það að ræða ýmislegt sem kemur fram í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem væri auðvitað nauðsynlegt að ræða á þingi, t.d. þær áhyggjur sem koma fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um aukna áhættu sem hefur skapast í fjármálakerfinu og getu þess til að bregðast við áföllum sem hafi minnkað. Þar er aftur verið að hamra á því sem ég hef iðulega minnt á hér í ræðustól að gera þarf kröfur um hærra eiginfjárhlutfall bankastofnana og að Fjármálaeftirlitið hafi skýrari lagaheimild til þess að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls. Einnig vitna þeir í að reglur um að framlög banka á afskriftareikningi útlána séu lakari en best gerist erlendis. Þetta eru allt atriði sem ég hef margtekið upp, bæði í umræðum og fyrirspurnum á þingi og það var freistandi að minnast þess þó að málið sé ekki alveg skylt því sem við erum að ræða hér, og þó, þar sem ég vitnaði í það sem varðar verðbólguþáttinn í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[11:45]

Ég vil líka vitna til þess sem fram kom hjá forstöðumanni greiningardeildar Búnaðarbankans á fundinum í efh.- og viðskn. Hún taldi að svigrúmið til að halda sig innan rauðu strikanna væri mjög knappt og hafði þá fyrirvara á sem ég lýsti að þeir gætu haldið og nefndi það að aðeins tvisvar á 10 ára tímabili hefði tekist að halda sig innan við svo þröngt svigrúm sem hér er eftir til að rauðu strikin haldi. Það þarf að halda vel á spöðunum til að svo verði.

Þá kem ég, herra forseti, og skal út af fyrir sig ekki lengja þetta mikið frekar, að þeirri brtt. sem við höfum flutt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og ég, og hún snertir það hvað þessi lækkun á almennu vörugjaldi af bensíni eigi að gilda lengi. Við teljum óvarlegt að það sé einungis til loka júní 2002 og minnum á að það eru óvissutímar fram undan varðandi bensínverð og hækkun á heimsmarkaðsverði og alls óvíst að sú lækkun sem menn treysta á gangi fram, og þá standa menn frammi fyrir því að vörugjaldið mun aftur fara upp í það sem var fyrir þessa breytingu, þ.e. 10,50, og það mun örugglega ekki standa á olíufélögunum heldur að hækka verð á bensíni. Þetta getur haft gífurleg óæskileg áhrif á vísitöluna. Þess vegna teljum við að ríkisstjórnin þurfi að hafa svigrúm til þess að geta framlengt þessa lækkun á almennu vörugjaldi ef þörf er á, og til eru tvær leiðir í því sambandi. Við fórum yfir það, ég og hæstv. fjmrh., við 1. umr. málsins og skiptumst nokkuð á skoðunum. Hæstv. ráðherra hélt því þá fram að það stæðist ekki að setja ákvæði til bráðabirgða eins og ég taldi að væri möguleiki, þ.e. að setja heimildarákvæði til bráðabirgða þess efnis að ef þessar lækkanir á fyrirhuguðu heimsmarkaðsverði gengju ekki fram hefði ríkisstjórnin heimild miðað við þessa tilteknu forsendu til að framlengja þessa lækkun á vörugjaldi. Af því að ráðherra var þeirrar skoðunar að þetta væri ekki hægt, með vísun í stjórnarskrána, sagði ég að vilji væri allt sem þyrfti í því efni, og ég held að ég hafi sannfærst enn frekar um það á fundi efh.- og viðskn. Meiri hluti þeirra úr stjórnarflokkunum í efh.- og viðskn. sem tjáðu sig voru þeirrar skoðunar líka eins og við í minni hlutanum að því er þetta atriði varðar. Okkur kom saman um að ef vilji væri fyrir hendi væri hægt að formúlera slíkt heimildarákvæði fyrir ríkisstjórnina. Við förum að vísu ekki þá leið í brtt. okkar heldur gerum beina tillögu um það að þetta ákvæði um lækkun á almennu vörugjaldi gildi ekki einungis til loka júní 2002 heldur til 1. nóv. 2002. Þá geta menn metið stöðuna á nýjan leik, þá er þing komið saman. En þegar hugsanlega þarf að bregðast við í júní- eða júlímánuði er þing ekki til staðar og ég hef skilið ráðherrann svo að ekki muni koma til kasta bráðabirgðalaga jafnvel þó að ekki verði sú lækkun á heimsmarkaðsverði á bensíni sem menn ætla. Hæstv. ráðherra mótmælir því þá ef ég fer ekki rétt með. En ég spyr ráðherra til öryggis: Telur ráðherrann að ríkisstjórnin geti haft uppi á borðinu í sumar áætlun um bráðabirgðalög til að koma í veg fyrir áhrifin í vísitölunni ef þetta frv. gengur óbreytt fram og heimsmarkaðsverð á bensíni lækkar ekki? Mér finnst það alveg ótækt. Mér finnst að við eigum að setja undir þann leka núna, annaðhvort með þessari leið sem við hv. þm. Össur Skarphéðinsom leggjum til, að gildistakan verði til 1. nóv., eða við setjumst yfir það og formúlerum heimildarákvæði þannig að hægt verði að bregðast við ef þær ástæður koma upp sem ég lýsti.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bindum vonir við það að milli 2. og 3. umr. megi takast samstaða milli meiri hlutans og minni hlutans að því er þetta tiltekna ákvæði varðar þannig að menn geti haft þennan fyrirvara á, ef grípa þurfi til framlengingar á þessu séu heimildarákvæðin til staðar eða menn bara hreinlega ákveði gildistökuna síðar. Þetta kostar nokkra fjármuni, satt er það. Það gæti kostað 80--100 millj. í viðbót að framlengja þetta til nóvember ef það er afdráttarlaust hér, en það kostar líka mikið fyrir heimilin og ríkissjóð, herra forseti, ef verðbólgan æðir upp á nýjan leik sem hún sannarlega gæti gert, m.a. vegna áhrifa af bensínhækkun sem hugsanlega gæti komið eftir að því tímabili lýkur sem menn eru nú að bíða eftir, þ.e. í maímánuði þegar menn gera upp hvort rauðu strikin hafi haldið. Það er auðvitað ótækt ef menn eru að spila þannig á vísitöluna að hún komi fram með fullum krafti á þáttum eins og bensíni eða síðar eftir að þessu viðmiðunartímabili vegna rauðu strikanna lýkur. Þess vegna flytjum við þá brtt. sem ég hef lýst.