Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:01:44 (6924)

2002-04-04 12:01:44# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:01]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt í fyrsta lagi að gera athugasemd við að hæstv. forseti skuli ekki grípa inn í þegar hv. þm. kallar mig forseta þingsins meðan annar situr hér í forsetastóli, sem er auðvitað óþinglegt og ósæmandi fyrir jafnþingreynda manneskju og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég vil segja við hv. þm. að hún stóð hér upp áðan, við getum saman farið yfir það sem hv. þm. sagði, og talaði um að hún vildi fá tryggingu frá olíufélögunum um að þau mundu ekki hækka bensínið í sumar. Þegar gengið er á fulltrúa olíufélaganna er fátt um svör og það veldur vonbrigðum, sagði hv. þm.

Var ekki hv. þm., með þessum ummælum sínum, að skýra frá því að hún hefði beðið um það í efh.- og viðskn. að fá upplýsingar um það hjá olíufélögunum hvernig þau ætluðu að haga verðpólitík sinni á sumri komanda? Ég veit ekki betur en að á fundi með nefndinni hafi verið fulltrúar tveggja olíufélaga. Eins og hv. þm. talaði hér áðan lýsti hún því yfir að það ylli sér vonbrigðum að ekki kæmi sameiginleg yfirlýsing frá fulltrúum þessara tveggja olíufélaga um hvernig þau hygðust halda verðpólitík sinni. Hún talar um að það valdi sér vonbrigðum að fá ekki slíka sameiginlega yfirlýsingu. Ekki var hægt að skilja ræðu hv. þm. á annan hátt.

Það er svo eftir öðru að hv. þm. skuli dylgja um það að ég eigi einhverra hagsmuna að gæta hjá olíufélögunum. Það er bara í samræmi við málflutning hv. þm. að öðru leyti. En mér finnst að hv. þm. eigi að hafa drenglyndi og festu til að standa þannig að málflutningi hér að það sé í samræmi við það sem hún endranær segir. Mér finnst að hún ætti að geta skilið að olíufélögunum er ekki heimilt að lýsa því yfir í þingnefnd hvernig verðpólitík þeirra verði á sumri komnanda, hvað þá að þau geti lýst því yfir í þingnefnd að þau ætli að hafa samráð um verðpólitík á sumri komanda.