Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:15:00 (6927)

2002-04-04 12:15:00# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að það væri nú ekki ofrausn að ætla olíufélögunum í landinu að taka á sig þyngri byrðar en þau hafa gert. Þau hafa orðið uppvís að samráði. Þau ástunda ekki eðlilega samkeppni og auðvitað er mál til komið að sá gróði sem þau raka saman í skjóli þessara viðskiptahátta verði með einhverjum hætti af þeim tekinn og færður til neytenda.

Herra forseti. Ég hegg einnig eftir því að hv. þm. er sammála hæstv. fjmrh. um að lofsvert sé að taka upp þennan hátt sem hér er lagður til í frv. til þess að framkvæma það sem þeir báðir kalla sveiflujöfnun. Því er ég líka sammála. Það hefur hins vegar komið fram bæði í ræðu hæstv. ráðherra í gær og í þeim viðræðum sem við hv. þm. áttum við ýmsa gesti á fundi efh.- og viðskn. í gærkvöldi að svo kynni nú að fara að viðsjár á alþjóðavettvangi leiddu til þess að kúfurinn hnigi ekki, þ.e. að lækkunin sem gert er ráð fyrir að verði miðað við árstíðasveiflur fyrri ára, gangi ekki eftir.

Hv. þm. hefur manna fremst gengið í því að draga í efa að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir í þessum efnum séu líklegar til þess að hafa varanleg áhrif. Ýmsir sem honum tengjast hafa jafnvel notað orðið ,,vísitölufiff``. Í umræðum hér í gær var orðið ,,fúsk`` nefnt. Við hv. þm. hljótum að vera sammála um að það eigi ekki að beita neinum trixum í þessu, þ.e. að menn vinni í einlægni að því að lækka verðbólguna.

Því spyr ég í ljósi þess að margt bendir til þess að það er ekkert víst að verðið hjaðni aftur: Telur hann þá ekki, til þess að koma í veg fyrir fiffið og fúskið, að réttmætt væri af hálfu hans ágæta stjórnmálaflokks að styðja þá brtt. sem við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir höfum lagt fram um að þessi lækkun verði framlengd til 1. nóvember?