Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:19:04 (6929)

2002-04-04 12:19:04# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Samvinna er allt annað heldur en samráð. Það er ekkert óeðlilegt við að olufélögin hafi samvinnu um að dreifa olíu eins og þau hafa gert með stofnun sameiginlegs dreififyrirtækis. Allt annað og miklu ógeðfelldara mál er samráð um verð.

Því miður blasir við þegar maður horfir aftur í tímann að hér hefur greinilega verið samráð olíufélaganna um verð árum saman sem leiðir til þess að það er ekki í gangi heilbrigð samkeppni. Það birtist í þessu frv. hér. Það er beinlínis gert ráð fyrir því að bensínverð ólíkra fyrirtækja, sem ættu og eru í orði kveðnu að keppa á markaði, lækki jafnt þegar líður fram á sumarið. Ekkert annað felst í þessu frv. en staðfesting á því að ekki ríkir heilbrigð samkeppni á bensínmarkaði.

Herra forseti. Þær röksemdir sem hv. þm. færir hér gegn því að halda lækkuninni við má líka nota til þess að mæla gegn samþykkt gjaldsins núna um hið tímabundna skeið. Ef þær röksemdir sem hv. þm. teflir fram gegn hugmynd okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að framlengja gjaldið til 1. nóvember duga honum til þess að styðja það ekki þá hljóta þær líka að duga honum til þess að leggjast nú þegar gegn gjaldinu. Það hefur hv. þm. ekki gert. Þar af leiðir, ef hann er samkvæmur sjálfum sér, hlýtur hann að komast að þeirri niðurstöðu að röksemdir hans tvær duga heldur ekki til þess að leggjast gegn þessari tillögu okkar.

Í þriðja lagi, herra forseti, þá er hv. þm. forustumaður í samtökum launamanna sem hafa lagt sinn skerf á vogarskálar þess að hægt sé að berja niður verðlag í landinu vegna þess að það er til hagsbóta launafólki, heimilum og atvinnulífi. Hann sjálfur og flokkur hans hefur efasemdir um að þær aðgerðir sem nú eru í gangi af hálfu stjórnvalda beri nógu varanlegan árangur. Við erum að reyna að skjóta byttu undir þann leka. Það mundi hv. þm. líka gera ef hann samþykkti þá brtt.