Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 13:05:49 (6939)

2002-04-04 13:05:49# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[13:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir þær jákvæðu viðtökur sem hugmynd okkar þingmanna Samfylkingarinnar um breytingu á þessu frv. fær hjá honum og flokki hans. Ég held að allir þeir sem tekið hafa til máls í þessari umræðu og hafa með einhverjum hætti fjallað um þetta mál séu mjög jákvæðir fyrir meginefni frv.

Það er ákveðin hugmynd sem liggur að baki frv. Hún byggir á að heimsmarkaðsverð á olíu fylgi ákveðinni sveiflu. Nú er hins vegar margt sem bendir til að forsendur fyrir þeim ferli séu ótraustari en áður. Það er þess vegna sem við höfum reifað þessar breytingar.

Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, að það er undrunarefni að finna í hve grýttan jarðveg þessi hugmynd fellur hjá hæstv. forsrh. ... --- Ég ætlaði að segja hæstv. fjmrh. og skil ekki, herra forseti, í þessum síendurtekna freudíska ... (VE: Metnaður fyrir hans hönd.) metnaði fyrir hans hönd.

Herra forseti. Ég er mjög undrandi á því að hæstv. fjmrh. skuli taka þessu svona illa. Við erum einungis að reyna að bæta þá hugmynd sem hann hefur lagt fram. Af því að ég tek eftir því, út frá frammíkalli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, hins ágæta formanns efh.- og viðskn., að hann er staddur hér í salnum sem jafnan vil ég nefna að vegna þess að hæstv. fjmrh. taldi þetta nokkuð flókið mál og þyrfti svo langan tíma til þess að gera þetta þá lýsti hv. þm. því yfir að það tæki u.þ.b. tvær mínútur að búa í þinglegan búning þá hugmynd sem við höfum reifað hér. Það gerði hann á fundi sinnar eigin nefndar í gær. Ég er sannfærður um það, af því að nú er bara miður dagur og hann er í fullu fjöri, að það tæki hann sennilega ekki nema eina mínútu að gera það núna.