Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 14:20:49 (6947)

2002-04-04 14:20:49# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Við hefjum hér 3. umr. um frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Ég mæli hér fyrir frhnál. vegna málsins frá 1. minni hluta iðnn. og álitið hljóðar svo:

,,Fundur var haldinn í iðnaðarnefnd Alþingis fimmtudaginn 4. apríl 2002 á milli 2. og 3. umræðu um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Til fundarins voru boðaðir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Þórður Friðjónsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaþings, Þorgeir Örlygsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, og Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls.

Framangreindir aðilar voru boðaðir á fund iðnaðarnefndar til þess að bregðast við þeim fréttum að sú vitneskja hafi legið fyrir þegar um miðjan febrúar sl. að Norsk Hydro gæti ekki staðið við tímaáætlanir um uppbyggingu álvers í Reyðarfirði og að iðnaðarnefnd hafi ekki verið greint frá stöðu málsins. Farið var yfir málið og gestir fundarins skýrðu það af sinni hálfu. Á þingfundi sem hófst kl. 10.30 í morgun kvaddi Hjálmar Árnason, formaður iðnaðarnefndar, sér hljóðs og greindi Alþingi frá niðurstöðu nefndarinnar um meðferð þessa máls, þ.e. að fara beri yfir allar tímasetningar og gera skýrslu um málið.``

Í ljósi þess sem fram kemur hér á eftir get ég ekki verið annað en sammála þessari málsmeðferð. Ég tel að tillaga sem borin var fram af hv. þm. Kjartani Ólafssyni um að ferlinu verði stillt upp, það kortlagt og gerð um það skýrsla sé sú leið sem fara ber og get ég ekki annað en verið samþykkur henni.

Minni hlutinn telur mikilvægt að Alþingi læri af þessu máli og hefur lagt fyrir forsætisnefnd tillögu að ályktun þess efnis að forsætisnefnd samþykki að leggja til að Alþingi kjósi nefnd sjö þingmanna sem kanni með hvaða hætti megi best tryggja að umfjöllun um þingmál, störf þingnefnda og önnur þingstörf byggist alltaf á réttum og bestu fáanlegum upplýsingum. Nefndin kanni lagaákvæði og reglur sem um þetta gilda í nálægum þjóðþingum. Einnig hvort ástæða sé til að lögfesta hér reglur í þessu sambandi, þar með talin refsiákvæði ef Alþingi eða þingnefndum eru gefnar rangar eða villandi upplýsingar eða þessir aðilar leyndir mikilvægum upplýsingum sem varða efni eða kringumstæður þingmáls eða þingstarfa. Lagt er til að starfsmenn skrifstofu Alþingis og nefndasviðs verði nefndinni til aðstoðar í störfum. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ályktaði einnig sérstaklega um málið og birtist sú ályktun í fylgiskjali með þessu áliti.

Við 2. umr. þessa máls lagði minni hlutinn fram svohljóðandi frávísunartillögu: ,,Í ljósi þess að allt er í óvissu með framvindu Noral-verkefnisins, stórfelld umhverfisspjöll sem af Kárahnjúkavirkjun hljótast eru óverjandi, mikið skortir á að arðsemi verkefnisins sé fullnægjandi, deildar meiningar eru um hvort verkefnið yrði jákvætt fyrir byggðaþróun á Austurlandi í heild þegar til lengri tíma er litið og ólokið`` --- það er nú kannski meginmálið, virðulegi forseti --- ,,er gerð rammaáætlunar um forgangsröðun virkjunarkosta, samþykkir Alþingi að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.`` Tillagan var felld við atkvæðagreiðslu í lok umræðunnar.

Umræðan um þetta stórmál hefur valdið miklum vonbrigðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa fært fram ítarlegar og þungvægar röksemdir fyrir því að ekki skuli ráðist í þessar umfangsmiklu og kostnaðarsömu framkvæmdir sem frumvarpið lýtur að. Þeir hafa grundvallað sinn málflutning á óhrekjanlegum staðreyndum um víðtæk óafturkræf umhverfisspjöll og á rökstuddum efasemdum um arðsemi framkvæmdanna. Málefnaleg viðbrögð hafa því miður verið lítt á lofti í umræðunni, sem hefur einkennst af fullyrðingum og afneitun staðreynda.``

Virðulegi forseti. Þetta er efnislega það sem ég vildi að kæmi fram í þessu frhnál. Allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs telja mjög mikilvægt að á þessum málum verði tekið til frambúðar þannig að sú staða sem uppi hefur verið núna síðustu daga eigi ekki eftir að endurtaka sig.

Virðulegi forseti. Sem fylgiskjal með þessu frhnál. set ég hér fram bókun sem ég lagði fram á fundi forsn. á mánudaginn var. Bókunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nú er á dagskrá þingsins frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Í ljósi þess að iðnaðarnefnd afgreiddi frumvarpið frá sér 18. mars sl. án þess að greint væri frá nýrri stöðu varðandi samskipti Norsk Hydro og Reyðaráls tel ég að fresta beri umræðu um frumvarpið og vísa því aftur til nefndarinnar.``

Ég vil einnig vitna í ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hefur verið send út, en þingflokkurinn ályktaði, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fordæmir harðlega að mikilsverðum upplýsingum sem vörðuðu stöðu Noral-verkefnisins svonefnda og stjórnarfrumvarps um Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar skuli hafa verið haldið leyndum fyrir Alþingi og viðkomandi þingnefndum meðan málið var þar til umfjöllunar. Það er óverjandi með öllu að ábyrgðaraðilar verkefnisins skuli ekki greina satt og rétt frá stöðu mála á hverjum tíma jafnt Alþingi sem fjölmiðlum og þar með þjóðinni. Þó tekur steininn úr þegar háttsettir opinberir embættismenn og ráðherrar eru staðnir að því að halda mikilsverðum upplýsingum frá Alþingi og þingnefndum. Þessi vinnubrögð fylgja í kjölfar þeirrar pólitísku valdbeitingar sem áður hafði verið ástunduð í málinu af umhverfisráðherra og þess ásetnings iðnaðarráðherra og Landsvirkjunar að umlykja fyrirhugað orkuverð leyndarhjúpi.

Það er óumflýjanlegt að Alþingi taki nú til skoðunar hvernig tryggja megi að umfjöllun um þingmál og störf þingnefnda geti alltaf byggst á réttum og fullnægjandi upplýsingum. Einnig þarf að huga að því hvort setja beri ákvæði í lög sem taka af skarið um að það sé saknæmt og refsivert að leyna Alþingi og þingnefndir upplýsingum eða greina þeim rangt frá.``

Virðulegi forseti. Sem fylgiskjal með þessu frhnál. er einnig tillaga sem ég hef lagt fyrir forsn. þingsins eins og komið hefur fram. Hún verður til umfjöllunar á næsta fundi forsn. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

[14:30]

,,Forsætisnefnd samþykkir að leggja til að Alþingi kjósi nefnd sjö þingmanna sem kanni með hvaða hætti megi best tryggja að umfjöllun um þingmál, störf þingnefnda og önnur þingstörf byggist alltaf á réttum og bestu fáanlegum upplýsingum. Nefndin kanni lagaákvæði og reglur sem um þetta gilda í nálægum þjóðþingum. Einnig hvort ástæða sé til að lögfesta hér reglur í þessu sambandi, þar með talin refsi\-ákvæði ef Alþingi eða þingnefndum eru gefnar rangar eða villandi upplýsingar eða þessir aðilar leyndir mikilvægum upplýsingum sem varða efni eða kringumstæður þingmáls eða þingstarfa.

Starfsmenn þingmálaskrifstofu og nefndasviðs skulu vera nefndinni til aðstoðar eftir þörfum.``

Virðulegi forseti. Ég hef í nokkrum orðum farið yfir þetta framhaldsnál. en vil aðeins bæta því við í sambandi við umræðuna um þetta mál núna síðustu daga og ekki síst á fundi iðnn. í morgun að vissulega eru mjög skiptar skoðanir um hvernig beri að fara með trúnaðarmál hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins og gilda þar aðrar reglur að mínu mati um fyrirtæki sem eru í einkaeign heldur en fyrirtæki sem eru í opinberri eigu. Við erum að fjalla um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og stækkun Kröfluvirkjunar á vegum Landsvirkjunar, þ.e. leyfi til handa Landsvirkjun. Þetta er opinbert fyrirtæki í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, og mér finnst svolítið hafa skinið út úr mönnum sú skoðun að um þá málsmeðferð mættu gilda sömu siðareglur hvað varðar upplýsingar eins og menn væru að tala um hlutafélög úti í bæ.

Ég tel að þarna verði að gera skýr skil á milli og að allt aðrar reglur verði að gilda um það þegar verið er að fjalla um mál sem varða fyrirtæki í opinberum rekstri þó svo að þau tengist fyrirtæki sem verður hugsanlegur orkukaupandi sem verði þá hugsanlega í einkakeign. En þarna erum við að afgreiða heimild til handa Landsvirkjun sem er opinbert fyrirtæki og því er gríðarlega mikilvægt að mínu mati að nefndin fái stöðu mála. Hún gæti fengið stöðuna fram borna í trúnaði hverju sinni, það eru dæmi um það, en að þarna gildi önnur lögmál en menn geta viðhaft á hinum almenna markaði í atvinnulífinu. Og varðandi þær tillögur sem við höfum sett fram um hvernig skuli fara með slík mál í nefndum þingsins, þá held ég að mjög mikilvægt sé að fara yfir og leggja niður fyrir sér og setja niður reglur um þetta þannig að allir viti að hverju þeir ganga í því efni. Ég tel þetta mjög mikilvægt. (KÓ: Hvað með ríkisbankana?)

Hv. þm. Kjartan Ólafsson kallar fram í og spyr um ríkisbankana. Settar hafa verið á langar og miklar ræður í þinginu um að hlutafélagavæðing ríkisfyrirtækjanna hafi leitt til þess að menn geti ekki fengið upplýsingar og menn skýli sér á bak við það að búið sé að breyta um form. En við verðum að átta okkur á því, virðulegi forseti, að Landsvirkjun er ekki hlutafélag. Landsvirkjun er sameignarfélag tveggja sveitarfélaga og ríkisins og þar af leiðandi eigum við að hafa fullan aðgang að upplýsingum eins og hægt er um það fyrirtæki sem handhafar eigenda.

Búið er að ræða um það mörgum sinnum hér í þinginu og menn hafa verið óánægðir með það og er m.a. ástæðan fyrir því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagst á móti hinni svokölluðu hlutafélagavæðingu sem við teljum nú reyndar að sé í flestum tilfellum undanfari einkavæðingar. En ein af ástæðunum fyrir því að við höfum ekki viljað fara í hlutafélagavæðingu í þeim mæli sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera á undanförnum missirum er einmitt sú ástæða að viðkomandi ráðherra skýli sér á bak við það að hann megi ekki gefa upplýsingar sem áður voru auðveldlega á borðum þingmanna vegna þess að nú sé komin stjórn yfir fyrirtækið og það sé hlutafélagavætt. Þetta líkar mörgum illa og við höfum séð slíka breytingu gerast mörgum sinnum og hér hefur verið rætt um það mörgum sinnum.

Ég tel að þetta sé vandmeðfarið og ég vil segja í sambandi við þann anda sem ríkti í nefndinni í morgun, að ég held að mikilvægt sé fyrir alla að Alþingi gefi tóninn um hvers konar samskiptamáti á að vera og hvernig menn eiga að standa að honum. Ég held að það sé miklu betra fyrir allra hluta sakir að menn standi klárir á því.

Mikið hefur verið rætt um það, bæði á hinu háa Alþingi, eins meðal þingmanna og í nefndunum, að ekki sé gott að þurfa að standa frammi fyrir því að nefndum sé trúað fyrir málum, þeir sem koma á fundi nefndanna séu beðnir um trúnað. Ég hef ekki verið á þingi í mörg ár, virðulegi forseti, en ég hef þó lent í því tvisvar á þingferli mínum að beðið var um trúnað í nefndum, einu sinni í sjútvn. og einu sinni í iðnn. Ég tel að ekkert óeðlilegt sé við það í vissum tilvikum að nefndir séu beðnar um trúnað, enda séu gefnar skýringar á því að ástæða sé til þess vegna einhverra sjónarmiða, e.t.v. viðskiptasjónarmiða, að ekki sé æskilegt að tala um málin á opinberum vettvangi um tíma.

Síðan er það annað mál að við höfum, t.d. í iðnn., verið beðin um trúnað varðandi orkuverð og það finnst mörgum einkennileg beiðni í sjálfu sér vegna þess að eftir því sem maður kemst næst liggur orkuverð víðast hvar á borðinu hjá stórfyrirtækjum sem eru í gangi og eru í þessum bransa og engin leyndardómshula yfir því yfirleitt. Ég fæ ekki alveg skilið hvers vegna slíkar upplýsingar mega ekki liggja á borðinu á Íslandi eins og á mörgum öðrum stöðum, eins og t.d. í Ameríku. Þar er talinn sjálfsagður hlutur að slíkir hlutir séu uppi á borðinu, og ég tala nú ekki um ef um opinbert fyrirtæki er að ræða.

Virðulegi forseti. Einnig er ástæða til að draga fram að í þessum málatilbúnaði öllum hefur málið gjörsamlega skipt um eðli á þremur árum. Þegar ég kom fyrst í iðnn. og hlýddi á mál Landsvirkjunarmanna varðandi þetta hugsanlega verkefni, þá var staðan sú að menn töldu að það væri alveg vonlaust að Landsvirkjun stæði að því verkefni öðruvísi en sem hluthafi í væntanlegri Kárahnjúkavirkjun með öðrum áhættufjárfestum. Þannig var talað í nokkur missiri, þetta væri of stór biti fyrir Landsvirkjun og þess vegna mundi Landsvirkjun ekki geta staðið að því nema sem hluthafi í sérstöku fyrirtæki sem yrði stofnað um virkjunina.

Síðan hefur þetta allt gjörbreyst á síðustu tveimur missirum vegna þess að maður gerir sér auðvitað grein fyrir því núna að þeir sem vildu keyra verkefnið áfram áttuðu sig á því að bygging Kárahnjúkavirkjunar var mjög miklum annmörkum háð hvað varðar fjármögnun nema ábyrgðin yrði hengd á eignir Landsvirkjunar, eins og þær eru í dag, sem bakhjarl og síðan með áframhaldandi baktryggingu í borgarsjóði Reykjavíkur, bæjarsjóði Akureyrar og ríkissjóði. Þannig var talað í mín eyru alltaf framan af, að þetta yrði sérhlutafélag um þetta verkefni, Landsvirkjun yrði e.t.v. hluthafi í Kárahnjúkavirkjun hf., skulum við þá segja, og síðan yrði álbræðslan í sjálfu sér sjálfstætt dæmi sem mundi versla við þann aðila. Margir eru þeirrar skoðunar að sú staða að baktryggja þessa framkvæmd á þennan hátt sé ákaflega varasamt og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sett á hér langar ræður um það mál, enda situr hann í efh.- og viðskn. og hefur fjallað um hinar efnahagslegu forsendur dæmisins mjög ítarlega í málflutningi sínum á þinginu. Ég vil að þetta komi fram, virðulegi forseti, vegna þess að um þetta hefur verið allt of lítið rætt.

Við stöndum frammi fyrir því nú varðandi Landsvirkjun, þetta sameignarfyrirtæki þriggja aðila, að hún verður með óbreyttum rekstri skuldlaust fyrirtæki á u.þ.b. 15, 16 árum. Í öllum þessum ferli höfum við engan veginn yfirsýn yfir hvaða áhrif það mundi hafa að Landsvirkjun gæti í krafti þess að hún væri að meira eða minna leyti orðin skuldlaust fyrirtæki sett niður raforkuverð í landinu svo um munar. Það eru hlutir sem verða að vera uppi á borðinu líka vegna þess að ef menn eru, t.d. eins og við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, andvígir því að fara í þessa stóriðjuuppbyggingu á þeim grunni sem hér er lagt upp með, þá verða menn að gera sér grein fyrir því að ávinningurinn er einnig fólginn í því að við stöndum frammi fyrir því á allra næstu árum í krafti stöðu Landsvirkjunar skuldalega séð að hægt væri að fýra hér niður rafmagnsverðið svo um munar. Litlar virkjanir upp á örfáa tugi megavatta annað slagið inn í raforkukerfið mundi vera leikur einn fyrir Landsvirkjun, eins stórt fyrirtæki og það er orðið í dag. Þetta hefur ekkert verið reiknað inn í efnahagsdæmi þeirra sem vilja keyra þetta verkefni áfram. Það hefur sárasjaldan verið spurt um það, menn hafa ekkert viljað gera neitt mikið úr því en að vísu hengt sig í viljayfirlýsingu eigendanna um að lækka orkuverðið um 3% á ári næstu árin og ná fram 30% lækkun orkuverðs, sem að vísu hefur gengið eftir núna allra síðustu árin og það er góðra gjalda vert. Krónutölulækkun hefur reyndar ekki orðið heldur hefur þetta haldið í við verðbólgu.

Þannig er staðan í orkubúskap okkar að málin líta mjög vel út til næstu ára litið en eru auðvitað komin á allt annan grunn ef við ætlum að nota eignir þessa fyrirtækis til að vera bakhjarl fyrir þetta gríðarlega stóra, áhættusama verkefni sem uppbygging álbræðslu í Reyðarfirði er og í raun og veru áhættusama verkefni sem uppbygging virkjunarinnar er, vegna þess að eins og við vitum öll er þetta bundið álverði sem á engan hátt er tryggt og þetta er líka bundið því í umræðunni núna að það eru Íslendingar sjálfir sem hyggjast fjármagna og eiga stærstan hluta í þessu fyrirhugaða álveri sem upphaflega og fyrst í umræðunni var alls ekki meiningin heldur. Talað var um utanaðkomandi áhættufjárfestingu.

Málið hefur því allt snúist upp í að verða á allt öðrum grunni en lagt var upp með. Það sem fyrir þremur árum var einkaframkvæmd að miklu leyti með Landsvirkjun sem hluthafa í væntanlegri Kárahnjúkavirkjun og með útlendinga sem fjárfesta í álverinu hefur snúist upp í það að þetta er verkefni sem er keyrt áfram af afli ríkisstjórnarinnar og þar með orðin stærsta ríkisframkvæmd sögunnar. Þannig horfa málin við okkur. Við erum komin með, samkvæmt þeirri formúlu sem er uppi á borðinu núna, virkjun í stórum skala sem verður í eign ríkis, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, með baktryggingu í þeim eignum sem fyrir hendi eru og við erum komin með álbræðslu sem er í samstarfi við einhvern aðila, ef samningar nást, talað hefur verið um Norsk Hydro sem samstarfsaðila upp á 15% og upp í 45% eignarhluta.

[14:45]

Virðulegi forseti. Þetta er allt annað upplegg. Þetta er allt annað verkefni heldur en fyrir þremur árum síðan. Þess vegna er þetta gríðarlega áhættusamt fyrir þjóðina. Við höfum reynsluna af feilsporum í slíkum verkefnum. Menn sjá núna ekkert nema það góða við Straumsvíkur-Búrfellsverkefnið á sínum tíma. Hins vegar verður að koma fram að þar voru gerð mistök. Þar náðust ekki samningar nema um mjög lágt orkuverð á sínum tíma. Í þessari umræðu allri verður að draga fram að á meðan Landsvirkjun afhenti Straumsvík orku á 3 mill svo árum skiptir var fyrirtækið að sligast. Þetta er skjalfest og um það vita allir.

Það þarf að leiðrétta mistökin sem þá voru gerð, þegar farið var mjög illa með efnahag Landsvirkjunar sem fyrirtækis og mjög illa með þjóðina, aðra orkunotendur, vegna þess að rafmagnið var spennt upp eins og hægt var. Þessi mál verða að koma fram í umræðunni. Það má ekki stilla málunum þannig upp að Straumsvíkur-Búrfellsævintýrið hafi verið teppalögð velsæld frá upphafi til enda. Það er alls ekki svo.

Það er mikilvægt fyrir okkur að læra af þessari reynslu. Að margra mati var það lán í óláni að hægt var að leiðrétta orkusölusamninginn við Ísal vegna þess að í tíð Hjörleifs Guttormssonar sem iðnaðarráðherra tókst að sanna svindl á fyrirtækið eins og menn muna. Það er að margra mati mjög ótrúlegt að ekki skyldi hægt að leiðrétta orkuverð til Landsvirkjunar frá álverinu í Straumsvík ef fyrirtækið hefði ekki verið staðið að því að svindla með því að hækka aðföng í hafi. Við erum nú flest komin á þann aldur hér inni að við þekkjum þetta dæmi. Í framhaldi af nýjum samningum vænkaðist hagur Landsvirkjunar og hefur gengið skaplegar með þá einingu síðan.

Við verðum að muna að við höfum á bjartsýninni einni, eins og örlar fyrir núna með óskhyggjunni varðandi áframhald fyrir austan, á ímyndaða möguleika til stóriðjuuppbyggingar gert hrikaleg fjárfestingarmistök. Blönduvirkjun var byggð og sett í gang allt of snemma. Blönduvirkjun var ekki reist á grunni þess að búið væri að gera samning um að afhenda orku. Hún íþyngdi þess vegna Landsvirkjun í mörg ár. Það að fara í fjárfestingu á þeim skala sem þá var gert, með Blönduvirkjun, leiðir auðvitað til að menn komast í tombóluskap og semja um orkukaup á allt öðrum forsendum þegar þeir hafa farið út í þessa fjárfestingu. Þessa sögu þekkjum við öll og þessa sögu kunnum við.

Kárahnjúkavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og Noral-verkefnið eru af þeirri stærðargráðu að það leyfir ekki mistök af því tagi sem við Íslendingar höfum áður gert í þessum málaflokki. Okkur leyfist það ekki. Þess vegna teljum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði það skyldu okkar, þó að öllum sé það ljóst á hinu háa Alþingi að við viljum ekki fara þessa leið í atvinnuuppbyggingu, sem stjórnarandstæðingar að draga fram öll þau atriði, vekja máls á og benda á þá pytti, sem ber að varast í þessum viðskiptumm. Okkur finnst ekki vanþörf á vegna þess að hv. þingmenn stjórnarinnar koma í ræðustól og tala bara í frösum.

Hve oft höfum við ekki heyrt oft á undanförnum dögum að þetta sé arðbært verkefni og vistvænt verkefni, án rökstuðnings af nokkru tagi, án þess að menn velti nokkuð fyrir sér hvað er á bak við slíkar fullyrðingar. Hafa stjórnarliðar þó haft jafna möguleika til að úttala sig og færa rök fyrir sínu máli eins og við hér, stjórnarandstæðingar á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Okkur er það mjög mikilvægt til lengri tíma að sæmilegur friður geti verið um hvernig við ætlum að fara í orkuvinnsluna í þessu landi og búum okkur til áætlun, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma --- sem er að vísu í vinnslu --- sem komi til umfjöllunar, að tekist verði á um hana og hún samþykkt áður en við göngum lengra í þessum málum. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að nú sé lag. Það er augljóst að það verður töf á Noral-verkefninu og þá teljum við, og höfum margbent á það og krafist þess á hinu háa Alþingi, að verkefnið verði lagt til hliðar og sett inn í þessa vinnu um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það væri að okkar mati eina rétta leiðin í stöðunni núna og við ættum að grípa tækifærið sem nú gefst.

Virðulegi forseti. Ég vakti máls á því í ræðu minni við 2. umr. og ég vil spyrja um það aftur: Hvaða vit er í því núna, þegar við höfum ekkert í hendi varðandi byggingu álbræðslunnar, að binda þetta virkjunarleyfi eins og raun ber vitni? Málið snýst náttúrlega ekki bara um Kárahnjúkavirkjun. Þetta frv. snýst um miklu stærra mál. Það snýst um jarðgufuvirkjanir í Suður-Þingeyjarsýslu, stækkun Kröfluvirkjunar og nýja jarðgufustöð á Kröflusvæðinu. Er skynsamlegt, í þeirri stöðu sem núna er uppi, að binda Kröflusvæðið inn í virkjunarleyfi Landsvirkjunar við Kárahnjúka með þessum hætti, þannig að allir möguleikar sem hugsanlega kæmu upp, þó að ég sé ekkert að tala um álver en einhvers konar iðnað sem þyrfti meiri orku, í þessu virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir hugsanlega álbræðslu í Reyðarfirði og menn geti sig hvergi hrært norður í Þingeyjarsýslum, bara sem dæmi? Að vísu er til leyfi fyrir 40 megavatta stækkun við Kröfluvirkjun en umhverfismat og undirbúningur varðandi alla frekari stækkun á því svæði er ekki kominn það langt að um virkjunarleyfi þar sé að ræða. Í þessu frv. er náttúrlega búið þannig um hnútana að hæstv. iðnrh. er ekki heimilt að gefa út virkjunarleyfi nema að undangengnu umhverfismati á því svæði.

Þetta vil ég draga fram, virðulegi forseti, í þessari umræðu núna, vegna þess að við höfum margoft lýst því sem okkar skoðun, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, varðandi orkuvinnslu að stefna beri að því að hægt sé að nýta orkuna sem næst orkulind. Jarðrask af slíkum framkvæmdum er minna, hvað varðar línulagnir og þess háttar og þeim fylgja minnst inngrip í landslagið. Það er líka grundvallarstefna sem leiðir til þess að við eigum möguleika á fjölþættari og margbreytilegri atvinnuuppbyggingu sem víðast um landið í staðinn fyrir að leggja upp með gríðarlega stórt verkefni sem krefst þess að farið sé landshorna á milli til að ná í orku svo drífa megi þær vélar sem á að setja niður á Reyðarfirði. Þetta er að okkar mati algjörlega óásættanlegt

Virðulegi forseti. Í sambandi við þetta mál vil ég að síðustu draga það fram að það er að okkar mati vanhugsað að nota ekki það lag sem nú er til að vinna faglega að úttekt á þessum málum eins og við í orði kveðnu erum öll sammála um hér á hinu háa Alþingi. Þetta mál hefur fyrst og fremst verið drifið fram, utan við þá rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma sem er í vinnslu, með þeim röksemdum að það þoli ekki þá bið sem fer í að vinna það mál og þess vegna eigi að taka þetta dæmi út fyrir sviga, langstærstu framkvæmd sem við stöndum fyrir í þessum málaflokki hér á landi fyrr og síðar.

Af hverju ekki, virðulegi forseti, af hverju í ósköpunum ekki að nota það tækifæri sem nú gefst þegar pressan er ekki lengur á að afgreiða málið í flýti, þó að stjórnvöldum hér líki það ekki? Það er talað um a.m.k. ársbið og þá á auðvitað að nota tækifærið og setja þessi mál öll inn í þennan heildstæða pakka sem við þurfum að takast á við hvernig með skuli fara.

Virðulegi forseti. Ég vil enn árétta að þó að mörg okkar haldi að hér séu óþrjótandi auðlindir og möguleikar til þess að búa til rafmagn þá er það náttúrlega alls ekki svo. Við búum ekki að óþrjótandi auðlindum. Það hefur verið slegið á það, eftir bestu manna yfirsýn, að hér séu virkjanlegar 50 teravattstundir. Með Kárahnjúkadæminu erum við líklega komin í 17 teravattstundir og 80% af orkuframleiðslunni í landinu til einnar framleiðslutegundar. Af þessum 50 teravattstundum er talið að 30 teravattstundir séu virkjanlegar með vatnsafli og 20 teravattstundir með jarðgufu. Í rammaáætluninni um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þá eigum við auðvitað eftir að takast á við hvaða hluta af þessum 50 teravattstundum, bæði í vatnsafli og jarðvarma, við erum tilbúin að virkja. Það er himinklárt að með hverju árinu sem líður meta menn verðmæti náttúrunnar meir þannig að þessi 50 teravatta tala verður lægri og lægri. Sumir ímynda sér, að teknu tilliti til náttúruverndarsjónarmiða, að málið snúist kannski ekki um nema 20--30 teravattstundir sem ásættanlegt væri og menn gætu náð samkomulagi um að virkja.

Við vitum jafnframt að e.t.v. vegna vinnubragðanna hér á hinu háa Alþingi vaða menn um með alls konar hugmyndir um virkjunarframkvæmdir, m.a. um svona stórverkefni eins og Reyðaráls og Noral-dæmið, alls konar hugmyndir sem þeir telja að séu gerlegar og hafa jafnvel sett af stað umræðu um. Í mín eyru hefur verið rætt um möguleikann á að virkja Dettifoss fyrir norðan. Það er ígildi þess fyrir okkur Norðlendinga að verið væri að tala um að virkja Gullfoss hér fyrir sunnan, mikið tilfinningamál. Við fengum þingskjöl í vetur þar sem talin var upp Skaftárveita um Langasjó. Um það verða gríðarleg átök. Inn í þessi plön er búið að setja alls konar möguleika sem engan veginn eru útræddir og verða mikil átök um ef menn vanda ekki til verka.

[15:00]

Rammaáætlunin um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er náttúrlega gríðarlega mikilvægt tæki fyrir okkur til að stjórna þessum málum. Þá vitum við nokkurn veginn hvað við höfum. Við getum forgangsraðað og í raun þurfum við þá ekki að nota svo mikinn tíma sem raun ber vitni í hvert einstakt mál eins og t.d. það sem hér er á borðum um einstakt verkefni. Þá værum við búin að leggja línuna um nýtingu þessara auðlinda og það gæti síðan verið afgreiðslumál hæstv. iðnrh. og ráðuneytis hvernig skuli virkja á hinum ýmsu stöðum sem mundu rúmast innan væntanlegrar rammaáætlunar. Þetta er mjög mikilvægt til þess að vinna skipulega að þessum málum.

Virðulegi forseti. Ég nefndi að með þessu verkefni yrðum við komnir upp í að nota um 80% af raforkuframleiðslu landsins til framleiðslu á einni vörutegund. Það hefur löngum verið sagt hér á hinu háa Alþingi og víðar úti í samfélaginu að það sé okkar ólán á Íslandi að vissu leyti að við skulum vera gjörsamlega háðir einni tegund hvað varðar gjaldeyrisöflun, þ.e. fiski, og er búið að ræða það um áratuga skeið að þessu verði að breyta þannig að fleiri stoðir verði settar undir efnahagskerfið. Það er ekki alveg í samræmi við þá lífssýn manna að vera með svo mikla einhæfni hvað varðar málmbræðslur að þær skuli vera notendur að 80% af virkjuðu rafafli í landinu þegar menn hafa haldið því fram hingað til og halda því fram enn þá að veikleiki efnahagskerfisins á Íslandi sé í því fólginn hvað þar séu fáar stoðir, hvað það sé einhæft og hvað við séum háð öllum sveiflum. Það kemur fram í öllum plöggum um Noral-verkefnið að þar verðum við háð heimsmarkaðsverði á áli þannig að við erum að tala um einhæfni á þessu sviði, einhæfni sem okkur hefur dreymt um að losna við um áratuga skeið en byggja upp atvinnulíf fjölbreytileika og byggja á mörgum stoðum.

Virðulegi forseti. Ég vil að endingu segja um sýn mína á atvinnuuppbyggingu að ég held að við hefðum fyrir mörgum áratugum síðan átt að hætta að hugsa um að byggja upp verksmiðjur á vegum ríkisins. Það á fólkið sjálft að gera. Þannig fáum við þann margbreytileika í efnahagslífið og atvinnulífið sem við þurfum á að halda. Við eigum ekki að fara út í miðstýrðar aðgerðir sem gáfust mjög illa, þó menn hefðu góðan ásetning, í austantjaldsríkjunum forðum. Þetta eru sömu aðferðir. Þetta er keyrt áfram pólitískt og það hefur ekki reynst vel. Við eigum hins vegar að sjá til þess að grunnþjónusta fyrirtækjanna í landinu sé góð. Grunnþjónusta fyrirtækjanna í landinu byggir á margs konar þjónustu sem á að okkar mati að vera í opinberri umsjá og opinberri umsýslu. Þar er orkugeirinn ekki undanskilinn að mati okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Þar er heilsugæslan ekki undanskilin. Þar eru fjarskiptin ekki undanskilin. Þar eru auðvitað vegamál o.s.frv. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé í lagi til þess að efnahagslíf sem byggist á margbreytileika geti þrifist sem best.

Það verður ekki gert með aðferðum af því tagi sem hér eru uppi á borðum vegna þess að uppleggið, eins og ég kom inn á í millikafla ræðu minnar, virðulegi forseti, og yfirbragð verkefnisins hefur gjörbreyst á þremur árum frá því að vera hlutafélaga- eða einkaframkvæmdarverkefni, þ.e. bæði virkjun og bræðsla, yfir í það að vera opinber framkvæmd tveggja sveitarfélaga og ríkisins hvað virkjunina varðar. Og þetta er keyrt áfram að meira eða minna leyti af íslenskum fjárfestum sem eru að semja við Norsk Hydro, eða voru að semja við Norsk Hydro, og staðan er sú að Norðmenn hafa hingað til gefið meldingar um að þeir vildu minna og minna með þessa verksmiðju hafa, jafnvel allt niður í 15--20%.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu ætla ég að láta máli mínu lokið að sinni. Ég vildi aðeins að þessi sýn kæmi fram hér. Ég vil að endingu klykkja út með því að ég held að ég geti byggt á nokkurri reynslu, hafandi verið búsettur norður í Eyjafirði alla mína hunds- og kattartíð að undanskildum námsárum mínum. Ég held það sé mjög mikilvægt að minnast reynslu okkar þar um slóðir, þangað sem í ein 15 ár voru sendar álviðræðunefndir og nefndir á vegum álfyrirtækja til þess að skoða lóðir og athuga staðhætti um væntanlega álbræðslu í Eyjafirði sem ekkert varð úr. Ég held að mjög mikilvægt sé að við tökum á þeim málum nú fyrir Austurland svo að þetta mál verði ekki skilið eftir þannig að menn spýti í lófana, herði upp hugann og haldi í vonina eitt árið enn og kannski annað árið til. Það er ekki gott fyrir Austurland. Við eigum að leggja hér fram tillögur um hliðarráðstafanir þar sem byggt er á hugmyndum sem að mörgu leyti eru þegar uppi á borðinu hjá austfirskum atvinnuþróunarfélögum, sem þegar eru uppi á borðinu hjá stofnunum og opinberum fyrirtækjum og þjónustuaðilum á Austfjörðum og berja í brestina sem orðið hafa að mínu mati vegna allt of mikillar bjartsýni á það hvernig svona mál ganga fyrir sig.

Í tilviki Eyjafjarðar tók þetta, eins og ég segi, um 15 ár. Þar voru menn alltaf að bíða eftir þessu fyrirtæki sem átti að verða allra meina bót. Ég held að það hafi verið þegar sjöunda sendinefndin kom -- hún kom síðast --- að menn gerðu sér grein fyrir því að ekkert þýddi að stóla einvörðungu á þetta heldur yrði að efla liðsandann og vinna að uppbyggingu annars konar atvinnulífs á grunni fjölbreytileika. Það held ég að sé mjög mikilvægt.

Ég vil vera raunsær. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að staða málsins er slík á Alþingi að það hefur yfirgnæfandi meirihlutastuðning. Við gerum okkur fulla grein fyrir því. En úr því sem komið er viljum við beina því til stjórnarliða að sett verði fram eins konar plan B fyrir Austurland til að milda einhvern veginn, um sinn alla vega, áhrifin af of mikilli bjartsýni á þetta mál. Þar hefur ríkið og þar á ríkið að hafa mjög miklu hlutverki að gegna. Það eiga Austfirðingar inni vegna þess að það hefur verið talað þannig um þetta mál og gefnar hafa verið allt of miklar vonir. Ég fór yfir það í fyrri ræðum mínum að við eigum ekki að gefa þennan tón vegna reynslunnar sem við höfum af þessum málum. Við höfum reynsluna af öllum undirbúningnum á Keilisnesi og við höfum reynsluna af öllum undirbúningnum fyrir austan hvað varðar járnblendiverksmiðju. Við höfum undirbúning sinkverksmiðja sem ekkert hefur orðið úr og talandi sem Eyfirðingur þá get ég nefnt að undirbúningsfasi var í gangi og mikil bjartsýni hjá mörgum hvað varðaði uppbyggingu á Dysnesi við Eyjafjörð um 15 ára skeið.

Þessi mál eru ekki í hendi fyrr en skrifað hefur verið undir. Þess vegna er þetta mjög vandmeðfarið. Sérstaklega er það vandmeðfarið í hinum dreifðu byggðum þar sem fólk er færra og bein áhrif af svona framkvæmd þess vegna miklu meiri. Væntingarnar hjá sérhverjum einstaklingi sem á svæðinu býr eru alveg gríðarlegar því allir gera sér grein fyrir því að um stund gefur þetta efnahagslega innspýtingu sem þó varir ekki lengi og fjarar út svo sem menn muna norður í Húnavatnssýslum þegar uppbygging Blönduvirkjunar stóð yfir. Síðan var það verkefni afstaðið og ekki svo mikið á því að græða nema e.t.v í aðstöðugjöldum fyrir Svínavatnshrepp.

Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, við 3. umr. málsins. Ég geri mér grein fyrir því að mikill meiri hluti þingsins er fylgjandi þessu máli og mun afgreiða það. Ég ætla ekki að vera með neinar tölur uppi, eins og margir hafa gert, um það hversu margir styðja það. En varnaðarorð um alla pósta svona máls eru hlutverk stjórnarandstöðunnar. Þó ætti öllum að vera ljóst hér að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur sett sig á móti þess konar uppbyggingu sem þetta verkefni hvílir á. Við viljum annars konar uppbyggingu atvinnutækifæra sem við höfum sett fram tillögur um í mörgum liðum og mörgum greinargerðum sem við höfum talað fyrir í þinginu. Ég vona, virðulegi forseti, að sem fyrst gefist tækifæri til þess að tala fyrir margbrotnu atvinnulífi á okkar forsendum því þá kannski yrði maður í þeirri stöðu að geta sagt við þá sem keyra svona mál áfram: Ja, þau eru alltaf á móti öllu. Framsóknarmenn eru alltaf á móti öllu af því að þeir vilja ekki okkar lausnir heldur vilja (Gripið fram í.) gera eitthvað annað.