Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:13:06 (6948)

2002-04-04 15:13:06# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim skoðunum sem hv. þm. hefur flutt fram í löngu og snjöllu máli. Ég er einfaldlega ósammála margvíslegum forsendum sem hann gefur sér. Í grundvallaratriðum snýst þetta mál um eftifarandi: Það er alveg ljóst að virkjun við Kárahnjúka leiðir af sér röskun á umhverfinu. En það er jafnljóst að hún leiðir líka af sér efnahagslegan ávinning. Deilan snýst í reynd um þetta: Vegur hinn efnahagslegi ávinningur upp þessa röskun á umhverfinu? Þannig hef ég alltaf litið á þetta og það ræður afstöðu minni.

Mér finnst hins vegar að allt of mikið beri á því hjá hv. þm. og flokksfélögum hans að drepa þessu máli á dreif með skæklatogi um það hvort hæstv. ráðherra hafi leynt upplýsingum. Mér leiðist það. Mér leiddist sá hluti ræðu þingmannsins. Af hverju? Vegna þess að rökvísi mín segir mér að það hljóti að vera rangt vegna þess að ég get engan tilgang séð með því, engan mögulegan hagnað af því hjá hæstv. ráðherra. Þess vegna segi ég að mér finnst það ekki góð leið hjá iðnn. að hafa ákveðið að gera einhverja skýslu um þetta mál sem klárlega hefur það eitt að markmiði að elta uppi ráðherrann og gera hana tortryggilega. Allt um það, herra forseti. Það verður hv. þm. að eiga við sig og sína félaga.

Mér fannst hins vegar athyglisverður sá hluti ræðu hv. þm. þegar hann ræddi hvernig eigi að tryggja að þingið starfi alltaf eftir bestu fáanlegum upplýsingum og þá er ég að leggja áherslu á að minn flokkur hefur einmitt lagt hér fram frumvörp um þetta, t.d. siðareglur þingmanna og stjórnsýslunnar og líka í atvinnulífinu. Ég hegg hins vegar eftir því að hv. þm. vill að skoðað verði hvort rétt sé að lögfesta reglur m.a. um refsiákvæði. Þar greinir mig á við hv. þm. Ég held að það væri hættulegt ef við færum að gerast einhvers konar siðalöggur af þessu tagi og spyr hv. þm.: Mundu þeir menn sem komu fyrir iðnn. e.t.v. eiga að falla undir refsiákvæði slíkra reglna?