Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:30:44 (6956)

2002-04-04 15:30:44# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Óhugnanlegar fréttir berast frá Palestínu dag hvern. Ofbeldið virðist magnast jafnt og þétt og er nú greinilega orðið hömlulaust. Dr. Barghouti, læknir og yfirmaður á bráðamóttöku í Palestínu, forsvarsmaður friðarsamtaka Palestínumanna, málsmetandi talsmaður friðelskandi fólks sem sótti okkur Íslendinga heim fyrir stuttu í boði Samfylkingarinnar, kom fram í hádegisfréttum útvarps í dag með ákall til Íslendinga og allra þeirra sem heyrt gætu. Hann sagði: Það er verið að fremja stríðsglæpi frammi fyrir augum heimsins. Á degi hverjum falla tugir manna í valinn, hundruð og þúsundir eru sárar, heimilin eyðilögð, vatnsveitur, skólpið, stoðkerfi samfélagsins mölvað.

Herra forseti. Úr fjarlægð verðum við vitni að ofbeldi sem framið er á frumstæðan en yfirvegaðan hátt. Í morgun voru fimm sjúkrabílar eyðilagðir og hjúkrunarfólki meinað að sinna særðum. Í örvinglan leitar fólk skjóls í kirkjum. Nú rétt fyrir hádegið var ísraelskur herflokkur í skjóli bryndreka að sprengja sér leið inn í Kristskirkju, fæðingarkirkjuna í Betlehem. Þar höfðu 200 manns leitað vars. Ísraelsku hermennirnir sögðu þetta vígamenn. Í þeirra augum eru allir vígamenn, líka þeir sem reyna að verjast ofbeldinu.

Þótt ljóst sé að einstakir menn og hópar úr röðum Palestínumanna hafi framið hryllileg hryðjuverk er engu að síður greinilegt hver hefur yfirhöndina og mótmæli okkar eiga að beinast gegn Ísrael og þeim sem halda yfir þeim verndarhendi, gegn bandarískum stjórnvöldum því án stuðnings þeirra fengju ísraelskir ráðamenn engu áorkað.

Herra forseti. Hvað skal til bragðs taka? Palestínumenn hvetja fólk til að flykkjast til Palestínu og standa vörð um friðinn með nærveru sinni. Utanríkisráðuneyti okkar hvatti hins vegar til þess í morgun að fólk héldi sig frá þessum svæðum. Hér er vissulega úr vöndu að ráða. Ekki ætla ég að draga úr því. En hitt er ljóst að Íslendingum ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hamla gegn ofbeldinu.

Ég beini þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort hann eða íslensk stjórnvöld hafi haft samband við fulltrúa Ísraelsstjórnar og krafist þess að ísraelskur her yrði þegar á brott frá herteknu svæðunum og látið yrði af ofbeldinu og farið að samþykktum og vilja þjóða heimsins, Sameinuðu þjóðanna, ályktunum öryggisráðsins.

Að sjálfsögðu ber okkur að árétta þau grundvallarsjónarmið sem koma fram í ályktun Alþingis frá því í maí 1989 um að viðurkenna skuli sjálfstæði Palestínu. Við eigum að hafa frumkvæði eða styðja við kröfur sem fram hafa komið um að senda alþjóðlegt gæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna til Palestínu. Við eigum að sjálfsögðu að hamra á þeirri kröfu gagnvart Ísrael og stuðningsmönnum þeirra að ísraelskur her verði þegar í stað kallaður frá svæðum Palestínumanna.

Spurningin sem ég vil einnig beina til hæstv. utanrrh. er þessi: Hefur komið til álita að draga úr, jafnvel slíta stjórnmálasambandi við Ísrael dragi þeir ekki herlið sitt þegar í stað til baka og láti af ofbeldisaðgerðum sínum?