Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:44:31 (6960)

2002-04-04 15:44:31# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þegar ætlast er til þess að sá sem hér stendur leggi orð í belg um ógnarástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þá hlýtur hann að finna til vanmáttar síns. Reyndar hef ég lengst af forðast raunar að setja mig í neitt dómarasæti. Þó er það svo að böðullinn Sharon hefur áreiðanlega komið því til leiðar að álit og viðhorf alheimsins hefur mjög orðið Palestínumönnum í vil síðustu mánuði.

En ég hef líka leitt hugann að spurningunni: Er mögulegt að leysa þessi vandamál? Þeir geta það ekki austur þar, þessir tveir aðilar. Palestína getur aldrei samið um annað en að þær milljónir sem hröktust af óðulum sínum fyrir hálfri öld snúi aftur. Ísrael getur aldrei um það samið vegna þess að það þýðir að land þeirra yrði lagt af. Þeir eru ófærir um að semja og leysa þessi mál. En það hefur komið hér fram og það er áreiðanlega rétt að enginn annar möguleiki er til en sá að Bandaríkjamenn skerist í leikinn. Þeim ber reyndar skylda til þess því það er á þeirra vegum sem Ísraelsríki hefur verið vopnað með þeim skæðu vopnum sem þeir búa yfir.

En ég sagði: Á Ísraelsríki framtíð fyrir sér á lítilli landræmu innikróað af múslimum? Ég hef leyft mér að efast um þetta. Það er talað um að senda friðargæslulið. Bandaríkjamenn verði að skerast í leikinn með vopnavaldi. Misminnir mig að Ísland hafi einhvern tímann verið þar nær sem greidd voru atkvæði um hvort senda skyldi friðargæslulið og setið hjá við þá afgreiðslu?